Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   sun 19. nóvember 2017 12:30
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net
Óli Kristjáns: Enn líf í gömlum glæðum í Krikanum
Ólafur Kristjánsson á hliðarlínunni.
Ólafur Kristjánsson á hliðarlínunni.
Mynd: Getty Images
Ólafur og Jón Rúnar Halldórsson, formaður knattspyrnudeildar FH.
Ólafur og Jón Rúnar Halldórsson, formaður knattspyrnudeildar FH.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
FH-ingar enduðu í þriðja sæti.
FH-ingar enduðu í þriðja sæti.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
„Ég hef alltaf litið á FH sem mitt félag. Árin tvö í KR voru mjög góð og árin í Breiðabliki. Það eru kannski þessi félög sem standa mér næst og FH á kannski stærstan hluta í mér," sagði Ólafur Kristjánsson, þjálfari FH, í útvarpsþættinum Fótbolti.net á X977 í gær.

Ólafur lék með flestum yngri flokkum FH og byrjaði ungur að reyna fyrir sér í þjálfun hjá félaginu. Hann er nú kominn heim og orðinn þjálfari meistaraflokks. Undanfarin ár hefur hann þjálfað í Danmörku, fyrst Nordsjælland og svo Randers.

Hefur Ólafur breyst sem þjálfari síðan hann fór út?

„Ég ætla að vona að ég sé öðruvísi en þegar ég fór út. Í grunninn eru það sömu hlutirnir sem maður fókuserar á en með árunum, aukinni reynslu og þróun fótboltans hefur maður tekið einhverjar beygjur. Maður víkur kannski ekki frá grunnhugmyndunum. Það er mikil þróun í fótboltanum en í grunninum snýst þetta um vinnusemi, nákvæmni og að fylgja sinni hugmyndafræði eftir."

En hver er munurinn á því að vera þjálfari í Danmörku og á Íslandi?

„Tímarnir sem þú leggur í þetta eru ekkert fleiri en heima en viðveran hjá leikmönnum er meiri. Þetta líkist meira venjulegum vinnudegi. En ef þú ert agaður í því sem þú gerir heima er vinnudagurinn svipaður. Keppnistímabilið úti er lengra og þessir „stress-kaflar“ þar sem eru margir leikir eru lengri. Það finnst mér helsti munurinn. Þegar það er tímabil ertu mikið að elta skottið á þér. Hér heima ættir þú að hafa meiri tíma til að vinna í þessum grunn-hugmyndum og móta liðið þitt," segir Ólafur.

Köstum ekki kúltúrnum og sigurhugarfarinu
Eftir síðasta tímabil, þar sem FH endaði í þriðja sæti, fór af stað umræða um að endurnýjun þyrfti að eiga sér stað innan leikmannahópsins og að eldri leikmenn væru komnir yfir sitt besta. Margir bjuggust við töluverðun hreinsunum með komu Ólafs.

„Ég tek við mjög góðu búi, ég tek við liði sem hefur notið mikillar velgengni undir stjórn Heimis. Það er ekki hægt að hlaða hann og þá þjálfara sem voru á undan nógu miklu lofi. Menn hafa kannski verið að tala um er að FH-liðið í sumar, og sumarið á undan þrátt fyrir að hafa unnið titilinn, hafi ekki verið eins ferskt og menn hafa oft séð áður. Þá hafa menn rætt um að það þurfi að fara í breytingar. En það sem ég hef séð og miðað við þau samtöl sem ég hef átt við eldri leikmenn þá er enn líf í gömlum glæðum þarna."

„Atli Viðar kann enn fótbolta, menn eins og Atli Guðna og Davíð Viðars, þetta snýst kannski um að endurræsa þá. Við þurfum að passa okkur á því að kasta ekki í burtu þessum kúltúr og stoðum sem hafa einkennt FH. Þá er ég að tala um sigurhugarfarið og annað. Það tekur langan tíma að byggja slíkt upp. Við skoðum það bara og svo þarf að opna leiðir fyrir yngri menn inn í meistaraflokkinn svo eðlilegt flæði verði og það komi ekki göt," segir Ólafur en hann segir að ýmislegt sé í gangi í leikmannamálum bak við tjöldin.

„Það er hellingur í gangi en ekkert sem ég get talað um. Auðvitað erum við að skoða hópinn og hvernig hægt er að styrkja liðið."

Ekki hræddur við að opna dyrnar
Meðal þess sem rætt var um í viðtalinu var raunveruleikaþáttur sem Ólafur og hans menn í Randers tóku þátt í. Þar fengu sjónvarpsmennirnir að fylgjast með bak við tjöldin hjá félaginuu.

„Ég sé ekkert eftir þessu. Það var ekki eining innan félagsins um það hvort við ættum að fara í þetta. Fótboltinn á undir högg að sækja þegar kemur að því að fá fólk á völlinn og þennan almenna áhuga. Þá þarf að hugsa um hvernig við getum endurvakið áhugann. Ein af hugmyndunum var að fara út í þetta og opna dyrnar, sýna bak við tjöldin. Það sem menn voru hræddir við var að ef það gengi illa þá væri hægt að kenna þessu um. En ef menn vita hvað þeir eru að gera og eru ekki hræddir við að opna dyrnar sé ég ekki hættur við þetta. Þetta er samt íhaldssamur heimur, talað um að búningsklefinn sé heilagur og þetta eigi að vera svona og hinseginn," segir Ólafur.

Ólafur telur að hann hafi ekki tapað neinu á því að hafa tekið þátt í þessu og nefnir dæmi um jákvæðar verkanir þess að taka þátt í svona þáttum.

„Það var einn serbneskur leikmaður hjá okkur sem átti erfitt, sjálfstraustið var ekki hátt og það sýndi sig í þáttunum. Afleiðingin af því var sú að fólk sýndi því skilning, ekki bara utanaðkomandi heldur líka samherjar hans. Þeir höfðu ekki áttað sig á því hvernig honum leið. Menn skildu að þetta ætti sér skýringar. Með því að opna þetta sér fólk persónuleikann á bak við nöfnin og númerin."

Smelltu hér til að hlusta á viðtalið við Ólaf í heild sinni
Athugasemdir
banner
banner