Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   þri 20. janúar 2015 19:00
Magnús Már Einarsson
Viðtal
Viðar Örn: Var ekki bara í mínum höndum
Viðar Örn Kjartansson.
Viðar Örn Kjartansson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Á æfingu með landsliðinu.
Á æfingu með landsliðinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í landsleik gegn Belgum.
Í landsleik gegn Belgum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Viðar Örn Kjartansson segist hafa ákveðið að ganga í raðir kínverska félagsins Jiangsu Guoxin-Sainty þar sem fáir aðrir möguleikar voru á borðinu. Viðar sló í gegn með Valerenga á síðasta tímabili og varð markakóngur í Noregi.

Fjölmörg félög hafa sýnt Viðari áhuga að undanförnu en verðmiðinn hjá Valerenga hefur orðið til þess að fá lið hafa gert eitthvað meira í áhuga sínum.

,,Valerenga setti rosalega háan verðmiða á mig og þau lið sem höfðu mikinn áhuga frá Evrópu voru ekki tilbúin að kaupa leikmann á svona háu verði frá Noregi," sagði Viðar þegar Fótbolti.net heyrði í honum í kvöld en þá var hann í Kaupmannahöfn á leið til Kína.

,,Þeir sögðu nei við einhverjum tilboðum frá Evrópu, meðal annars frá Hollandi og Þýskalandi. Það var líka mikill áhugi úr Championship-deildinni. Síðastliðin ár hafa leikmenn ekki verið keyptir á háar upphæðir úr norsku deildinni og þeir settu það háan verðmiða á mig að ég fékk ekki mikið um það ráðið."

,,Þegar kínverska liðið kom með hátt tilboð gat Valerenga ekki sagt nei við því. Ég var spurður hvort að ég hefði áhuga og ég tel að ég sé að fara í sterkari deild. Auðvitað er draumurinn að vera í ensku úrvalsdeildinni eða eitthvað svoleiðis en þegar þetta er það eina sem er raunverulegt þá er maður ánægður með það og þetta er spennandi áskorun."


Var ekki á leið til Úkraínu vegna stríðsástandsins
Viðar segist ekki hafa séð fram á að mörg önnur félög myndu ná samkomulagi við Valerenga um kaupverð á næstunni.

,,Ég heyrði meðal annars af áhuga frá Shakhtar Donetsk í Úkraínu en ég var ekki fara þangað þegar það er stríð í landinu. Lið frá Rússlandi og Kasakstan ætluðu að gera tilboð núna í janúar en þetta er tækifæri sem ég fékk og það er að hrökkva eða stökkva. Ég ákvað að stökkva."

,,Ég skoraði fullt af mörkum í fyrra og það væri mjög erfitt að ná þeirri tölu aftur. Það yrði miklu meiri pressa og ég þyrfti að spyrja mig hvað þyrfti til að þessi lið myndu bjóða í mig úr stærri deildunum. Ég verð 25 ára á þessu ári og get ekki verið að bíða. Þetta væri öðruvísi ef ég væri 19-20 ára og gæti beðið. Ég sá ekki fram á að Valerenga myndi samþykkja annað tilboð á næstunni,"


Peningarnir telja eitthvað
Mikil umræða hefur verið á Twitter um félagaskipti Viðars. Ljóst er að samningur Viðars er gífurlega góður en hann jafnast á við góðan samning í ensku úrvalsdeildinni.

,,Það segja margir að maður fari þarna út af peningnum og auðvitað telur það eitthvað. Ég er ekki einungis í fótbolta til að græða pening, ég vil spila á eins háu leveli og hægt er. Þarna er þetta gott tilboð fyrir norska félagið og það getur ekki sagt nei."

,,Ég hef heyrt meira jákvætt en neikvætt en fólk er auðvitað að velta þessu líka fyrir sér. Það er alltaf þannig. Það er samt ekki bara í leikmannsins höndum að fara í annað félag. Auðvitað vill maður fara í ensku úrvalsdeildina og spila með Arsenal en þetta var eina liðið sem var tilbúið að greiða upphæðina sem Valerenga krafðist.

,,Ég var á báðum áttum fyrst en ég er búinn að skoða þetta og ég er mjög spenntur. Fólk má hafa sínar skoðanir og skiljanlega vita menn ekkert um þessar deildir í Asíu. Við í Valerenga mættum til dæmis japönsku liði sem var að falla í B-deildina og við skíttöpuðum 3-1."


Deild á uppleið
Í sumar fékk Viðar skilaboð frá konu í Asíu en um var að ræða umboðsmann sem vildi kanna áhuga hans á að spila í Kína. Viðar svaraði skilaboðunum og í kjölfarið fór Jiangsu Guoxin-Sainty að sýna meiri áhuga.

,,Maður fær á bilinu 40-50 skilaboð á viku frá alls konar umboðsmönnum sem eru með gylliboð að bjóða manni að spila með toppfélögum í Evrópu og ég hef svarað svona þremur af þeim frá upphafi. Ég fékk skilaboð frá umboðsmanni í Kína um það hvort ég hefði áhuga á að spila þar og ég svaraði því. Hún hafði heyrt að ég hefði ekki áhuga og vildi vita hvort það væri rétt. Ef ég hefði sagt nei við hana þá hefði kannski ekkert gerst. Ég man ekki hverju ég svaraði, ég held að ég hafi sagt kannski," sagði Viðar sem hefur kynnt sér kínversku deildina undanfarna daga.

,,Þetta er deild sem er á mikilli uppleið. Þeir kaupa leikmenn úr öðrum deildum til að gera deildina sterkari. Kínverjarnir eru sjálfir ekki sterkustu leikmenn í deildinni og þeir eru að fara svipaða leið og menn hafa farið í Rússlandi til dæmis með því að styrkja deildina."

Ætlar að halda sér í landsliðshópnum
Viðar var ekkki með íslenska landsliðinu í vináttuleikjunum gegn Kanada á dögunum þar sem hann fékk ekki leyfi hjá Valerenga til þess. Ræddi hann ákvörðun sína um félagaskiptin við landsliðsþjálfarana?

,,Ég ræddi ekki við þá um ákvörðunina en ég hugsa að þeim finnist þetta fín ákvörðun. Ég ætla að halda áfram að bæta mig sem leikmaður númer 1, 2 og 3 og draumurinn er að halda mér í landsliðshópnum."

Viðar segist ekki hafa kynnt sér menninguna Kína mikið ennþá. ,,Ég hef ekkert pælt í því, þetta gerist svo hratt. Maturinn er öðruvísi, það er fleira fólk og það tala ekki allir ensku. Ég myndi ekki kíkja mikið til Asíu utan fótboltans svo þetta er spennandi. Það er gott að vera í öðru umhverfi í smástund. Ég veit ekki hverju ég á að búast við, ég þarf að spyrja nóg," sagði Viðar sem ætlar að reyna að læra kínversku.

,,Það væri örugglega léttara að læra arabísku en kínversku. Ég veit ekki alveg hvernig maður tæklar það. Ef ég vill fá bílpróf þá þarf ég að læra táknin. Ætli maður prófi ekki og gefist síðan upp eftir tvo daga."
Athugasemdir
banner