Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   lau 20. janúar 2018 15:30
Fótbolti.net
Kjarnafæðismótið: Ármann Pétur með sigurmark Þórs gegn Magna
Ármann Pétur Ævarsson.
Ármann Pétur Ævarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Þór 1 - 0 Magni
1-0 Ármann Pétur Ævarsson ('8)

Þór og Magni léku í blíðskaparveðri (innanhúss) fyrir fullu húsi, á að giska um 320 manns, í gærkvöldi. Bæði lið leika í Inkasso-deildinni á komandi sumri en Magnamenn eru þar nýliðar.

Þórsarar byrjuðu leikinn af krafti og þurfti Steinþór Már að taka á honum stóra sínum strax á annarri mínútu leiksins er hann varði vel frá Ármanni Pétri. Á sjöttu mínútu átti Kelvin Sarkor (til reynslu) flotta sendingu sem Steinþór Már greip rétt áður en Sveinn Elías komst í hann. Á áttundu mínútu á Bjarki Þór Viðarsson (nýkominn frá KA) frábæra sendingu fyrir mark Magna þar sem Ármann Pétur stakk sér fram fyrir varnarmann Þórs og stangaði boltann í netið.

Eftir markið róaðist leikurinn um stund, Magnamenn fengu ágætis færi á að jafna leikinn á tuttugustu mínútu en Gunnar Örvar skaut rétt framhjá eftir fína sendingu frá Arnari Geir. Magnamenn æsast aðeins við þetta og fá aukaspyrnu á 22. mínútu sem Sigurður Marinó tekur en Þórsarar ná að hreinsa frá marki. Á 33. mínútu átti Jakob Hafsteinsson skot rétt framhjá Þórsmarkinu en svo róaðist leikurinn fram að hálfleik og lítið gerðist en Þórsarar samt ívið sterkari. Staðan 1-0 fyrir Þór í hálfleik.

Eitthvað virðist sem hálfleikste-ið hafi staðið í Þórsurum því Magnamenn voru mun hættulegri fyrsta korter seinni hálfleiks. Kristinn Þór Rósbergsson átti skot rétt yfir á 47. Mínútu. Á 54. mínútu fengu Magnamenn aukaspyrnu á hættulegum stað sem Siggi Marinó setti inn í boxið en unglingalandsliðsmarkvörðurinn í marki Þórs varði feiknavel. Við þetta vakna Þórsarar af teblundinum og sækja nokkuð stíft. Á 63. mínútu fengu Þórsarar hornspyrnu en eftir mikinn atgang í teignum handsamaði Steinþór Már að lokum boltann. Á 67. mínútu sleppur Sveinn Elías í gegn, Steinþór Már ver, Sveinn fær boltann aftur en er óheppinn og setur hann í stöngina og út. Á 69. mínútu átti Guðni Sigþórsson gott skot sem Steinþór gerði vel í að verja.

Eftir þetta var leikurinn barningur og mátti vart á milli liðanna sjá. Leikurinn fjaraði svo út og 1-0 sigur Þórs staðreynd.

Tölfræði:
Þór: 9 skot/ 5 á mark
Magni 6 skot/ 3 á mark

Hér að neðan má sjá viðtal við Lárus Orra Sigurðsson, þjálfara Þórs, eftir leikinn en með því að smella hér má sjá viðtal við Pál Viðar Gíslason, þjálfara Magna.
Lárus Orri: Menn gera sér ekki grein fyrir að Magni er með hörkulið
Athugasemdir
banner
banner