þri 20. mars 2018 09:15
Magnús Már Einarsson
Rúnar Már: Yakin fór að ljúga upp á mig í fjölmiðlum
Rúnar Már Sigurjónsson.
Rúnar Már Sigurjónsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Rúnar Már Sigurjónsson skoraði glæsilegt mark og lagði upp annað í 2-1 sigri St. Gallen á Grasshoppers í svissnesku úrvalsdeildinni um helgina. Rúnar er í liði vikunnar í Sviss fyrir frammistöðu sína. Rúnar Már er í láni hjá St. Gallen frá Grasshoppers og það gladdi hann mikið að ná að skora í leiknum.

„Það voru alls konar tilfinningar sem bærðust í brjósti mér fyrir þennan leik og á meðan á leiknum stóð. Ég skildi í góðu við leikmenn Grasshoppers og á marga góða vini hjá félaginu. Það er hins vegar engin launung að það var stirt á milli mín og aðila innan Grasshoppers," sagði Rúnar Már í samtali við Fréttablaðið í dag.

„Þar á ég við Murat Yakin, þjálfara liðsins, sem ákvað það strax frá upphafi að ég ætti ekki upp á pallborðið hjá honum. Yakin hefur gert þetta áður, það er að velja leikmenn til þess að taka fyrir og ég lenti í að þessu sinni. Yakin fór svo að ljúga upp á mig í fjölmiðlum og ég ákvað að taka ekki þátt í þeim sandkassaleik.“

Rúnar Már vonast til að vera í íslenska landsliðshópnum sem fer á HM í sumar. Rúnar var ekki valinn í 29 manna hóp fyrir komandi vináttuleiki við Mexíkó og Perú en í samtali við Fréttablaðið segist hann vonast til að fara til Rússlands.

„Það er bara þeirra val að hafa mig ekki í leikmannahópnum að þessu sinni og ég virði þá ákvörðun og sýni henni skilning. Það eina sem ég get gert er að halda áfram að standa mig hjá St. Gallen og vona að það dugi mér til þess að vera valinn í landsliðið. Ég hef ekki gefið upp vonina um það að komast í leikmannahópinn fyrir HM í Rússlandi, það kemur svo bara í ljós hvort ég verð í þeim hópi eða ekki,“ sagði Rúnar Már við Fréttablaðið í dag.

Sjá einnig:
Rúnar Már: Komið fram við mig eins og ég væri í leikskóla
Sjáðu markið: Glæsilegt mark Rúnars í Sviss



Athugasemdir
banner
banner
banner
banner