Zidane hefur augastað á Man Utd - Guimaraes áfram hjá Newcastle - Bayern hefur ekki rætt við Rangnick
   mán 20. apríl 2015 11:30
Arnar Daði Arnarsson
Pepsi-deildin
Gústi Gylfa: Oft erfitt að koma skilaboðum inn á völlinn
Ágúst Gylfason er þjálfari Fjölnis.
Ágúst Gylfason er þjálfari Fjölnis.
Mynd: Ingólfur Hannes Leósson
Ágúst vonast til að ná besta árangri Fjölnis frá upphafi.
Ágúst vonast til að ná besta árangri Fjölnis frá upphafi.
Mynd: Ingólfur Hannes Leósson
Fjölnismenn fá vonandi tækifæri í sumar til að fagna.
Fjölnismenn fá vonandi tækifæri í sumar til að fagna.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Þetta kemur í rauninni ekki á óvart. Ég er nokkuð sáttur með þessa spá. Að vera spáð 9. sæti er ekkert fjarri lagi miðað við leikmannahópinn í dag. Við viljum hinsvegar gera betur en í fyrra,” segir Ágúst Gylfason þjálfari Fjölnis sem spáð er níunda sæti í Pepsi-deild karla. Það er einmitt sætið sem Fjölnismenn enduðu í, í fyrra.

,,Ég tel okkur vera með betra lið en í fyrra. Við höfum styrkt okkur vel. Við höfum ekki fengið marga leikmenn. Hinsvegar eru þetta góðar týpur sem passa vel inn í hópinn, sem hafa góða reynslu og eru góðir leikmenn.”

Með góða blöndu af leikmönnum
Fjölnismenn fóru í æfingaferð til Spánar í byrjun apríl mánaðar. Ágúst er ánægður með ferðina.

,,Við náðum að stilla saman strengina bæði innan sem og utan vallar. Ég er mjög sáttur með þá ferð. Þetta er allt að smella saman og nýju leikmennirnir eru að komast inn í hlutina,” segir Ágúst sem er ánægður með hópinn sem hann hefur í höndunum.

Fjölnismenn hafa fengið til sín fjóra leikmenn, þá Arnór Eyvar Ólafsson, Daniel Ivanoski, Emil Pálsson á láni frá FH og Ólaf Pál Snorrason sem sneri heim í Grafarvoginn og er spilandi aðstoðarþjálfari liðsins.

,,Við erum með góða blöndu af leikmönnum. Við erum með marga leikmenn úr 2. og 3.flokki sem eru að æfa með okkur auk þess eru 13-14 leikmenn sem gengu upp úr 2. flokknum. Þetta er mjög góð blanda.”

Óli Palli komið mjög vel út
Ágúst er ánægður með að hafa fengið Óla Palla heim og vill helst nota hann á miðjunni hjá Fjölni en hann hefur leikið á kantinum undanfarin ár hjá FH.

,,Óli Palli hefur komið mjög vel út bæði sem aðstoðarþjálfari og leikmaður. Það er oft erfitt sem þjálfari að koma skilaboðum inn á völlinn. Við hugsum mjög líkt í fótboltahugsunum og það er því mjög gott að vera með aðstoðarþjálfarann inn á vellinum sem getur talað beint og skýrt við leikmenn inn á vellinum.”

,,Við höfum verið að skoða hann sem djúpan miðjumann og þar hefur hann virkað mjög vel. Við eigum alltaf möguleika að nota hann líka út á kanti. Hann er mikill leiðtogi og mjög flottur karakter. Við erum komnir með marga fyrirliðatýpur inn á völlinn sem Fjölnir hefur verið í vandræðum með áður fyrr.”

Í leit að vinstri bakverði
Fjölnismenn hafa verið að leita að vinstri bakverði í vetur og sú leit stendur enn yfir. Miðjumaðurinn, Guðmundur Karl Guðmundsson hefur leyst vinstri bakvarðarstöðuna hjá Fjölni í vetur.

,,Það er ekki mikið í boði hérna heima. Guðmundur Karl getur spilað allar stöður og hefur leyst vinstri bakvarðarstöðuna mjög vel. Ef ekkert breytist, þá mun hann líklega spila þá stöðu. Auðvitað viljum við samt fá Guðmund í sína stöðu, sem er á miðjunni eða framar á vellinum. Við erum að skoða hvort við finnum einhvern leikmann erlendis sem er tilbúinn að koma og styrkir liðið,” segir Ágúst.

Engin alvarleg meiðsli eru að plaga leikmenn Fjölnis fyrir utan turninn í vörn þeirra, Hauk Lárusson sem hefur verið að glíma við meiðsli í allan vetur. Ágúst segir að Evrópukeppni sé fjarlægur draumur fyrir Fjölni en honum langar að bæta besta árangur Fjölnis frá upphafi.

,,Við viljum reyna bæta besta árangur Fjölnis frá upphafi sem er 6. sætið. Við viljum gera atlögu að því og það væri gott að ná því.”

Ágúst segir að þau lið sem hafi verið öflugust á leikmannamarkaðnum, KR og FH auk Stjörnunnar verði að berjast um Íslandsmeistaratitilinn. Auk þess sér hann fyrir sér að eitt lið komi á óvart og blandi sér í toppbaráttuna. ,,Það eru nokkur lið sem maður hefur í huga, en ég held að það verði eitt lið óvænt í toppbaráttunni, eins og Stjarnan var í fyrra.”

Eðlilegt að spá Leikni og ÍA falli
Ágúst segist vera hrifinn af þeim liðum sem komu upp úr 1.deildinni og segir að það megi alls ekki vanmeta ÍA og Leikni.

,,Mér finnst bæði liðin sem komu upp hafa staðið sig mjög vel í mótunum í vetur. Þau hafa verið að sýna góðan karakter og verið að vinna mörg góð lið," segir Ágúst sem segist einnig vera hrifinn af Breiðablik. Hann segir að þeir verði að taka mér sér þau góðu úrslit sem þeir hafa náð í vetur inn í sumarið, ætli þeir sér að blanda sér í toppbaráttuna.

,,Það er eðlilegt að spá liðunum sem koma upp falli. Bestu liðin í 1.deild eru ekkert langt frá þessum Pepsi-deildarliðum ef þau ná að styrkja sig rétt. ÍA og Leiknir eiga eftir að taka fullt af stigum og afsanna þessa spá,” sagði Ágúst Gylfason þjálfari Fjölnis að lokum.
Athugasemdir
banner
banner