Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   fim 20. apríl 2017 12:02
Elvar Geir Magnússon
Fyrirliði Stjörnunnar ólétt - Ekki með í sumar
Ásgerður Stefanía Baldursdóttir
Ásgerður Stefanía Baldursdóttir
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ásgerður Stefanía Baldursdóttir, fyrirliði Íslandsmeistara Stjörnunnar, á von á barni. Þetta kemur fram á heimasíðu félagsins og verður hún ekki með á komandi tímabili.

Hér að neðan má sjá fréttina af heimasíðu Stjörnunnar:

Enn fjölgar hjá Stjörnunni
Þau tíðindi hafa borist úr herbúðum Stjörnunnar að eftir tíðar fréttir af nýjum leikmönnum í hópi Íslandsmeistaraliðs kvenna, sé enn frekari fjölgunar að vænta. Þannig mun Ásgerður Stefanía Baldursdóttir, fyrirliði liðsins vera barnshafandi og fjölga í hópi Stjörnufólks á haustdögum. Er mikili gleði í félaginu yfir þessum góðu fréttum.

„Ég mun æfa með liðinu a.m.k. þar til ég missi vatnið,” segir Ásgerður Stefanía sjálf, en bætir svo við í meiri alvöru að hún muni vinna með liðsstjórninni og þjálfarateyminu svo lengi sem ástand hennar leyfi.

„Það eru auðvitað blendnar tilfinningar sem fylgja því að fá jafn gleðilegar fréttir og að geta á sama tíma ekki tekið þátt í komandi tímabili sem leikmaður, enda er ég mjög bjartsýn á gengi þess frábæra hóps sem nú skipar liðið," segir Ásgerður Stefanía.

„En ég kem aftur tvíefld til leiks á næsta tímabili og tek þátt í að verja þá titla sem liðsfélagar mínir vonandi vinna á þessu tímabili."

Ásgerður Stefanía er leikjahæsti leikmaður meistaraflokks kvenna í Stjörnunni frá upphafi og hefur tekið þátt í að vinna alla þá Íslands- og bikarmeistaratitla sem liðið hefur unnið frá árinu 2011.

Þá hefur hún verið viðloðandi landsliðshóp kvenna og ljóst að þetta fækkar enn frekar valkostum Freys Alexanderssonar fyrir Evrópumótið í Hollandi í sumar.
Athugasemdir
banner
banner
banner