„Stemningin í hópnum er góð og er mikill hugur í mönnum. Við erum með mjög samheldin hóp og þrátt fyrir að byrjunin á mótinu sé okkur gríðarleg vonbrigði þá er andinn í hópnum virkilega góður og við stöndum allir saman," sagði Albert Brynjar Ingason, framherji Fylkis, í samtali við Fótbolta.net í dag.
Fylkir er án stiga eftir fjórar umferðir í Pepsi-deildinni en liðið heimsækir ÍA í mikilvægum leik á morgun.
„Þetta er virkilega mikilvægur leikur, við vitum það allir í liðinu að við getum gert miklu betur en við höfum verið að sýna í þessum fyrstu 4 leikjum. En það er okkar að sýna það og ætlum við okkur að gera það á morgun, það er nóg eftir af þessu móti en ef við ætlum okkur eitthvað þá verðum við að fara næla okkur í punkta og það byrjar á morgun."
Fylkir tapaði 3-0 gegn ÍBV í síðasta leik en hvað hefur aðallega verið að klikka hjá Árbæingum í byrjun móts?
„Það er ekkert eitt sem hefur verið að klikka hjá okkur í byrjun móts, Að sjálfsögðu er það þessi aulamörk sem við höfum verið að gefa, yfirleitt einbeitingarleysi í föstum leikatriðum. Annars er það bara að þora að taka það sem við erum að gera á æfingasvæðinu og færa það inn á völlinn. Við erum með ákveðnar hugmyndir hvernig við viljum spila og höfum verið að gera það vel á æfingarsvæðinu en það vantar að koma því inn á völlinn og vera aðeins afslappaðari í okkar aðgerðum."
Albert segir að baráttan verði jafnvel ofan á í leiknum á Akranesi, frekar en fallegur fótbolti. „Jú kannski til að byrja með að minnsta kosti. Að sjálfsögðu viljum við eins og flest lið spila fallegan og skemmtilegan bolta. Hinsvegar náum við ekki langt ef að skagamenn verða yfir okkur í baráttunni. Svo það er mikilvægt að ná yfirhöndinni þar og vonandi fylgir fallegur fótbolti í kjölfarið, því við höfum alveg gæðin í það."
Albert reiknar með að margir stuðningsmenn Fylkis geri sér ferð á Akranes á morgun til að styðja liðið.
„Ég hef trú á því. Stjórn Fylkis er að bjóða upp á fríar rútuferðir og tilboð á bláa og það eru alvöru stuðningsmenn sem að láta sjá sig og styðja við lið sitt þegar á móti blæs. Ég tel að við eigum fullt af alvöru stuðningsmönnum sem munu láta sjá sig á morgun og styðja okkur. Það er alveg klárt mál að með stuðning frá þessu frábæra fólki okkar þá eru meiri líkur á að stigin detti í hús hjá okkur Fylkismönnum," sagði Albert að lokum.
Leikirnir framundan í Pepsi-deildinni:
laugardagur 21. maí
16:00 ÍA-Fylkir (Norðurálsvöllurinn)
sunnudagur 22. maí
17:00 ÍBV-Víkingur R. (Hásteinsvöllur)
19:15 Valur-Þróttur R. (Valsvöllur)
19:15 Fjölnir-Víkingur Ó. (Fjölnisvöllur)
20:00 Breiðablik-KR (Kópavogsvöllur)
Stöðutaflan
L | U | J | T | ms: | mf: | mun | Stig | ||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 |
Athugasemdir