Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   sun 20. maí 2018 10:00
Hafliði Breiðfjörð
Þjónustar 1000 á HM - Laus sæti frá Volgograd til Rostov
Lúðvík Arnarson frá VITA Sport þjónustar 1000 manns á HM í Rússlandi.
Lúðvík Arnarson frá VITA Sport þjónustar 1000 manns á HM í Rússlandi.
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
VITA Sport þjónustar um 1000 manns á Heimsmeistaramótinu í Rússlandi í sumar en nú í dag eru aðeins 27 dagar í að Ísland leiki sinn fyrsta leik á mótinu gegn Argentínu.

„Talsverður hópur hjá okkur er bæði að fara á tvo leiki og alla þrjá leikina í riðlakeppninni. Þannig erum við með um 800 manns í gistingu í Moskvu, um 300 í Volgograd og rúmlega 200 Í Rostov," sagði Lúðvík Arnarson frá VITA Sport við Fótbolta.net að spurður um fjöldann sem hann er að þjónusta á mótinu. Við ræddum við hann um helstu atriði sem fólk þarf að hafa í huga þegar komið er til Rússlands.

Hvernig verður fyrir fólk að komast á milli staða í Rússlandi?
„Það eru auðvitað ýmsar leiðir í boði hvað varðar ferðalög á milli borga. Rútur, lestir og á tímabili stefndi í að ákveðin hópur færi siglandi á fljótabát. Við höfum hins vegar valið að flytja okkar farþega sem ætla að sjá fleiri en einn leik með flugi á milli borganna. Erum að notast við áætlunarflugið til Volgograd frá Moskvu, en erum svo með leiguflug á milli Volgograd og Rostov þann 25. Júní, daginn fyrir leikinn gegn Króatíu. Við eigum meira að segja nokkur sæti laus í það flug. Mætti ég kannski misnota aðstöðu mína og benda fólki á að hafa samband við okkur hjá VITA Sport sem vantar að komast frá Volgograd til Rostov."

Er annars allt uppselt hjá ykkur?
„Í raun og veru má segja það já, við eigum einhver flugsæti til Moskvu 15. júní, fyrir utan sætin á milli Volgograd og Rostov, en annars er allt uppselt."

Nú vitum við að þið eruð ekki bara að koma að ferðum almennra stuðningsmanna til Rússlands, heldur eruð þið líka að þjónusta aðstandendur leikmanna og fjölmiðla. Hversu stórt er umfangið hjá ykkur? Hvað verðið þið með af starfsfólki í Rússlandi meðan á mótinu stendur?
„Þetta er klárlega stærsta einstaka verkefni sem við höfum fengist við hér hjá VITA Sport. Þá kannski fyrst og fremst vegna þess að áfangastaðurinn er auðvitað Rússland og áður en við hófum þessa vegferð þá var hér innanhúss lítil reynsla af því að skipuleggja ferðir þangað. Verkefnið er hins vegar gríðarlega spennandi og með hjálp innlendra aðila og annarra sem þekktu vel til í landinu, höfum við náð utan um það og teljum okkur að mestu veru í stakk búinn að þjónusta okkar fólk á þann hátt sem við stefndum að."

„Við verðum með hátt í 10 manns úti í Rússlandi á einhverjum tímapunkti riðlakeppninnar, þar af tvo sem verða allan tímann. Auk þess erum við að sjálfsögðu talsvert af heimamönnum sem vinna með okkur við ýmsa hluti og þar af er einn starfsmaður sem verður okkur innan handar allan tímann og vinnur eingöngu fyrir okkur á meðan á riðlakeppninni stendur."


Þú hefur komið nokkrum sinnum til Rússlands að undanförnu, ertu með einhverja punkta fyrir fólk til að hafa í huga?
„Í raun er það kannski fyrst og fremst að lesa allar þær upplýsingar sem utanríkisráðuneytið hefur verið að birta á vef sínum, sem og sendiráðið okkar í Moskvu."

„Það þarf að hafa í huga að í Rússlandi er ýmislegt frábrugðið því sem við eigum að venjast, en svo er auðvitað margt sem svipar til þess sem við eigum að venjast á ferðalögum okkar annars staðar í Evrópu. Það er mjög mikilvægt að vera með alla pappíra á hreinu, vegabréf, fan id og svo framvegis. Fara varlega og passa vel upp á verðmæti."

„Þá er ágætt að kynna sér veðurfar og annað í þessum borgum. Í Volgograd og Rostov getur hitastigið farið í allt að 40 gráður í lok júní og því mikilvægt að vera vel undir það búinn ef það verður raunin í sumar. Fyrst og fremst samt bara að fara til Rússlands og njóta þess á heilbrigðan hátt að við erum að fara að taka þátt í lokakeppni HM, sem og að kynna okkur land og þjóð sem fyrir okkur flestum er í raun framandi."

Athugasemdir
banner