Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   þri 20. júní 2017 19:09
Alexander Freyr Tamimi
Hörður Björgvin heimsótti Reykjadal
Mynd: Reykjadalur
Gestir í sumarbúðunum Reykjadal fengu óvænta heimsókn í dag þegar knattspyrnulandsliðsmaðurinn Hörður Björgvin Magnússon birtist þar skyndilega sem leynigestur. Rúm vika er síðan Hörður Björgvin var hetja Íslands er hann tryggði landsliðinu mikilvægan 1-0 sigur gegn Króatíu í undankeppni HM 2018 með marki í blálokin.

Reykjadalur er sumar- og helgardvalarstaður fyrir fötluð börn og ungmenni á vegum Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra. Þar dvelja árlega um 250 börn og ungmenni á aldrinum 8-21 árs hvaðanæva af landinu. Í Reykjadal er lögð áhersla á íþróttir og leiki, útivist og sköpun.

Hörður Björgvin fékk svo sannarlega höfðinglegar móttökur í Reykjadal í dag. Eftir að hafa spjallað við gesti og tekið myndir reyndi hann fyrir sér í gestaþraut áður en hann fékk tækifæri til að þruma boltanum í rassinn á starfsmönnum. Að því loknu spilaði Hörður fótbolta með dvalargestum þar sem lið hans beið lægri hlut, 10-3.

Tapinu fylgdi refsing, en Herði var hent út í sundlaugina á staðnum í öllum fötunum. Þar endurlék hann markið fræga gegn Króatíu með glæsilegu stökki út í laugina. Hann slakaði að lokum á í heita pottinum áður en hann fékk að skipta yfir í þurr föt og fékk laglegan bol merktan Reykjadal að launum.

Hörður Björgvin fékk ýmsar spurningar í Reykjadal, meðal annars hvort hann ætti kærustu, hvar hann ætti heima, hvort hann hefði hitt Lionel Messi og meira að segja hvort hann hefði hitt Justin Bieber.

Hægt er að kynna sér Reykjadal nánar og jafnvel styrkja starfsemina með því að smella hér. Einnig er hægt að
hlaupa til styrktar Reykjadals í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka og heita á þá sem það gera..

Hér að neðan má sjá fleiri myndir úr heimsókn Harðar Björgvins í Reykjadal.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner