Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mið 20. ágúst 2014 23:18
Magnús Már Einarsson
Walter Mazzarri: Erfiðara en tölurnar segja til um
Leikmenn Inter fagna í kvöld.
Leikmenn Inter fagna í kvöld.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Þrátt fyrir 3-0 sigur þá var leikurinn erfiðari en tölurnar segja til um," sagði Walter Mazzarri þjálfari Inter á fréttamannafundi eftir sigurinn á Stjörnunni í kvöld.

,,Við hefðum ekki unnið 3-0 ef við hefðum ekki náð að skora í fyrri hálfleik. Þar náðum við að brjóta ísinn og í kjölfarið losnaði um þetta hjá okkur. Í hálfleik sagði ég þeim að horfa þannig á að staðan væri 0-0. Við bættum fljótlega við öðru marki og það var falleg sókn og fallegt mark," bætti Mazzarri við en hann vill ekki viðurkenna að einvígið sé búið.

,,Saga fótboltans segir að það er aldrei neitt öruggt. Þetta er ekki búið. Það er betra að hafa vaðið fyrir neðan sig."

Mazzarri segir að menn frá Inter hafi skoðað Stjörnuliðið vel fyrir leikinn en krafturinn í Garðbæingum kom honum þó í opna skjöldu.

,,Þegar staðan var 2-0 slökuðum við aðeins á og þá komu Stjörnumenn á óvart með því að vera nálægt að skora. Þetta er víti til varnaðar fyrir okkur. Við megum aldrei slaka á."

Síðari leikurinn fer fram á Ítalíu í næstu viku en Mazzarri vonast til að stuðningsmenn Inter láti sjá sig þar.

,,Ég vona að fólk fjölmenni. Þetta verður fyrsti mótsleikurinn á San Siro á þessari leiktíð," sagði Mazzarri.

Að lokum sagði Mazzarri að þrír leikmenn í Stjörnunni hefðu hrifið sig mest í leiknum en það voru Atli Jóhannsson, Pablo Punyed og Ólafur Karl Finsen.
Athugasemdir
banner
banner