Guimaraes, Isak, Kimmich, Diaz, Branthwaite, Mainoo og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   mið 20. september 2017 16:30
Elvar Geir Magnússon
Heimild: BBC 
Að fara í keppnisferðalag til Norður-Kóreu
Borði með mynd af Kim Jong-un.
Borði með mynd af Kim Jong-un.
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Frá Pyongyang.
Frá Pyongyang.
Mynd: Getty Images
Í síðustu viku ferðaðist indverska liðið Bengaluru til Norður-Kóreu til að mæta liði sem ber hið sérstaka nafn 4.25 SC í AFC bikarnum, asísku útgáfunni af Evrópudeildinni.

4.25 er vísun til 25. apríl, dagsins sem herinn í Norður-Kóreu var stofnaður.

Óhætt er að segja að þetta hafi ekki verið hefðbundið keppnisferðalag hjá fótboltaliði eins og leikmenn Bengaluru fengu svo sannarlega að kynnast.

Ástandið í einræðisríkinu Norður-Kóreu er ótryggt og mikil umræða um mögulegar kjarnorkuárásir. Asíska knattspyrnusambandið fékk þó staðfestingu frá Norður-Kóreu um að óhætt væri fyrir indverska liðið að ferðast í leikinn.

Ástralski miðjumaðurinn Erik Paartalu spilar með Bengaluru og sagði BBC ferðasöguna. Hann segir að það hafi verið súrrealísk upplifun að lenda á nánast tómum alþjóðaflugvellinum í höfuðborginni Pyongyang.

Fyrir ferðalagið höfðu nokkrir leikmenn grínast með komandi ferðalag til Norður-Kóreu en sjálfur hafði Paartalu sagt á Twitter vonast til að geta gripið í einn bjór með einræðisherranum Kim Jong-un. Leikmenn voru beðnir um að eyða allri umræðu um Norður-Kórea úr símum sínum og snjalltækjum fyrir ferðina enda voru myndir og fleira skoðað af öryggisvörðum í vegabréfaskoðuninni.

„Við sátum og biðum bara eftir því að einhver okkar yrði gripinn," segir Paartalu. Versta var þó að farangur liðsins skilaði sér ekki í ferðalaginu og þurftu leikmenn að taka fyrstu æfinguna í fótboltaskóm sem reyndust ódýrar eftirlíkingar og margir hverjir pössuðu illa. Farangurinn var þó mættur á hótelið á degi tvö.

Áróður í móttökunni
Leikmenn náðu engu símasambandi á meðan þeir voru í landinu og gátu ekki notað internetið. Þeir komu á hótelið seint um kvöld og veltu því fyrir sér af hverju götuljósin væru ekki í notkun. Þeir heyrðu svo að ástæðan væri sú að stjórnvöld vildu ekki að borgin væri skoðuð í gegnum gervihnattamyndir.

„Í móttökunni á hótelinu var sýnt myndband með Kim Jong-un aftur og aftur. Áróðurinn hófst um leið og við stigum inn. Um allt voru myndir af föður og afa Kim Jong-un. Maður fór strax að hugsa um hvort maður fengi bara að sjá það sem þeir vilja að þú sjáir. 2,6 milljónir búa í höfuðborginni Pyongyan. Maður veltir því fyrir sér hvað hinir 23 milljón íbúarnir séu að gera utan borgarinnar," segir Paartalu.

Liðið gat ekki yfirgefið hótelið án fylgdarmanns og leiðsögumaður var með því hvert einasta skref.

„Fólkið var mjög vinalegt, allir þurftu að vera með barmmerki með þjóðfánanum eða mynd af leiðtoganum. Það voru ekki mikil samskipti en ef maður heilsaði þá var heilsað til baka og brosað."

Tómlegt á risaleikvangi
Þá að leiknum sjálfum. Bengaluru hafði unnið fyrri viðureignina 3-0 en þessi leikur fór fram á May Day leikvanginum sem getur tekið 150 þúsund áhorfendur. Um 8 þúsund manns voru mættir á þennan leik og því mjög tómlegt um að litast.

„Fótboltinn í Norður-Kóreu er sterkur og við sáum að 4.25 er með frábærar aðstæður og menn æfa eins og vélmenni. Það flaug í gegnum huga minn hvað myndi gerast ef við myndum vinna? Strákirnir grínuðust með að fagna ekki ef við skoruðum. En leikurinn endaði 0-0. Ég held að meirihluti áhorfenda hafi bara litið á þetta sem jafntefli, hafi ekki vitað af fyrri leiknum," segir Paartalu.

Leikurinn var miðvikudaginn 13. september en Bengaluru gat ekki yfirgefið landið fyrr en tveimur dögum síðar. Á föstudeginum vöknuðu menn upp við þær fréttir að stjórnvöld í Norður-Kóreu hefðu skotið eldflaug yfir Japan.

„Náunginn í móttöku hótelsins sagði okkur að ef við hefðum staðið fyrir utan hótelið klukkan 6 um morguninn hefðum við séð eldflaugina fljúga yfir. Allir í liðinu hugsuðu það sama: 'Komum okkur héðan sem fyrst!'"

Heilaþvottur
Paartalu segir að íbúar Norður-Kóreu geri sér ekki grein fyrir stöðu mála og líkir því við heilaþvott.

„Leiðsögufólkið okkar talaði um að leiðtoginn væri að sýna að hann væri nægilega öflugur til að eiga við Bandaríkin. Þeirra sýn var að Norður-Kórea væri öflugt en Bandaríkin veik."

„Norður-Kórea er falleg land og það er spennandi að sjá það, hversu margir ná að sjá landið? Ef ég væri ekki að spila fótbolta væri enginn möguleiki fyrir mig að komast inn í landið. Eftir þessa heimsókn vorkenni ég fólkinu þarna, strákunum sem æfa með bros á vör og elska fótbola. Að hugsa til þess að þetta land gæti verið þurrkað út og þetta fólk lifað þjáningar lætur mér líða illa. Ég vona að það gerist ekki," segir Paartalu.

Successful trip to North Korea 🇰🇵

A post shared by Erik Paartalu (@erik.paartalu) on


Athugasemdir
banner
banner