Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   mið 20. september 2017 10:51
Elvar Geir Magnússon
Eiður Aron: Finnst ég hafa verið ofmetinn á þeim tíma
Eiður hefur verið frábær í vörn Vals.
Eiður hefur verið frábær í vörn Vals.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Akkúrat núna hef ég aldrei verið betri, enda er auðveldara að standa sig þegar maður er með góða liðsfélaga allt í kringum sig," segir Eiður Aron Sigurbjörnsson, miðvörður Vals, í viðtali við Morgunblaðið í morgun.

Þessi 27 ára Eyjamaður hefur verið frábær eftir að hann kom í raðir Vals í sumar frá Holstein Kiel í þýsku 3. deildinni.

Áður en hann fór í atvinnumennsku hafði Eiður getið sér mjög gott orð í vörn ÍBV og var valinn besti varnarmaður Pepsi-deildarinnar árið 2011.

„Ef ég hugsa til baka þá var ég ekkert sammála því þegar ég var valinn besti varnarmaðurinn hér heima, árið 2011. Mér finnst ég hafa verið ofmetinn á þeim tíma."

Í viðtalinu við Morgunblaðið hrósar hann samherjum sínum, þar á meðal markverðinum Antoni Ara Einarssyni sem hann segist ekki hafa vitað hver væri þegar hann kom.

„Hann er búinn að vera alveg geggjaður. Toppmarkmaður. Ég vissi ekkert hver hann var þegar ég kom, hafði held ég ekki heyrt nafnið hans áður, en hann er búinn að vera frábær. Hann á ekki minni þátt í því en við hinir í liðinu hve fá mörk við höfum fengið á okkur. Hann er líka stór ástæða þess hversu vel við höldum boltanum innan liðsins. Það er auðvelt að spila á hann og hann stressast ekkert við það að fá smápressu á sig," segir Eiður.

Valsmenn hafa tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn þegar tveimur umferðum er ólokið í Pepsi-deildinni en þeir hafa klárlega myndað besta lið sumarsins.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner