Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   mán 20. október 2014 13:30
Elvar Geir Magnússon
Heimild: Verdens Gang 
Ödegaard hættur að læra spænsku í skólanum
Martin Ödegaard á æfingu með norska landsliðinu.
Martin Ödegaard á æfingu með norska landsliðinu.
Mynd: Getty Images
Bjartasta von norska boltans.
Bjartasta von norska boltans.
Mynd: Getty Images
Norski íþróttafréttamaðurinn Morten Stokstad, góðvinur Fótbolta.net, er með áhugaverða úttekt í Verdens Gang um framtíð hins 15 ára Martin Ödegaard hjá Strömsgodset.

Ödegaard varð á dögunum yngsti leikmaðurinn til að spila í undankeppni EM þegar hann lék fyrir Noreg. Hann hefur farið á kostum í norsku úrvalsdeildinni og skoraði til að mynda bæði mörk liðs síns í 2-1 sigri gegn Lilleström í gær.

„Þetta er í raun fáránlegt. Í alvöru, þetta er ekki eðlilegt. Strákurinn á framtíðina fyrir sér, orðum þetta þannig," sagði Frode Kippe, fyrirliði Lilleström, og hristi hausinn eftir leikinn.

Það er bara tímaspursmál hvenær þessi eftirsótti leikmaður segir já við eitthvað af þeim stórliðum sem hafa áhuga á honum. Samkvæmt heimildum Stokstad er málið að sótum hluta í höndum föður hans en samningur stráksins við Strömsgodset er út næsta tímabil.

Barcelona hefur boðið Ödegaard til félagsins að skoða aðstæður og þá hefur Real Madrid einnig áhuga á honum. Pabbinn segir að ekkert muni gerast fyrr en yfirstandandi tímabili lýkur en þá gæti Ödegaard heimsótt fleira en eitt félag.

Sérfræðingar telja að Strömsgodset geti grætt allt að 900 milljónir íslenskra króna fyrir leikmanninn ef félagið spilar rétt úr spilum sínum.

„Það er líklega betra fyrir mig að vera hjá Strömsgodset en í nokkru unglingaliði í heiminum. Ef ég fer þá er það til að spila í betra liði en Strömsgodset," segir Ödegaard sjálfur. „Ég ætla bara að klára þetta tímabil eins vel og ég get og svo sjáum við hvað gerist."

Þrátt fyrir að vera orðaður við Barcelona og Real Madrid er Ödegaard hættur að læra spænsku í skólanum. Hann hlær þó og hristir hausinn þegar hann er spurður hvort það þýði að hann fari ekki til Barcelona eða Real Madrid.

„Ég var að læra spænsku sem erlent tungumál en skipti yfir í þýsku. Ég var svo lélegur í spænsku að ég varð að prófa eitthvað nýtt. Þið megið túlka það eins og þið viljið en mér fannst spænskan bara svo erfið," segir Ödegaard.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner