fös 20. október 2017 10:30
Mist Rúnarsdóttir
Wiesbaden
Anna Björk: Erum allar hungraðar í að komast á HM
Anna Björk ræðir við Söndru Maríu fyrir æfingu í gær
Anna Björk ræðir við Söndru Maríu fyrir æfingu í gær
Mynd: Fotbolti.net - Anna Þonn
„Það eru komin nokkur fiðrildi í magann en það er bara geggjað að mæta eins flottu liði og Þýskaland er. Við erum með stór og mikil markmið og erum allar spenntar að fá að sýna hvað við getum í þessum leik,“ sagði Anna Björk Kristjánsdóttir í samtali við Fótbolta.net síðdegis í gær. Við spjölluðum við Önnu áður en hún hélt á síðustu æfingu íslenska landsliðsins fyrir stórleikinn gegn Þýskalandi í undankeppni Heimsmeistaramótsins.

Anna Björk segir allan undirbúning hafa gengið vel og að leikmenn séu einbeittir og staðráðnar í að standa sig vel í leiknum á eftir. Leikurinn er annar leikur Íslands í undankeppninni en íslensku landsliðskonunum dreymir um að komast á HM í fyrsta sinn.

„Við erum allar mjög hungraðar að komast á HM. Við komumst ekki einu sinni í umspilið síðast þannig að við viljum klárlega stefna lengra. Það voru vonbrigði í sumar og við erum hungraðar í eitthvað meira.“

Íslenska karlalandsliðið tryggði sér sæti í lokakeppni Heimsmeistaramótsins á eftirminnilegan hátt nú fyrir stuttu og Anna Björk segir það afrek hafa veitt kvennaliðinu innblástur.

„Það sást vel hvað er hægt að gera með liðsheild og góðri frammistöðu. Ég held að við getum klárlega lært af þeim. Það að sjá þá upplifa draumana sína kveikir ennþá meira í manni að ná sínum markmiðum.“

HM er draumurinn en til þess að hann rætist þarf íslenska liðið að ná góðum úrslitum gegn gríðarsterkum andstæðingum í einum erfiðasta riðli undankeppninnar. Verkefnin gerast ekki mikið stærri en að mæta Þýskalandi á útivelli og Anna Björk segir brýnt að íslenska liðið nái strax upp góðri samvinnu og nýti þau marktækifæri sem munu gefast.

„Við þurfum að fókusa á varnarleikinn og spila saman sem lið. Um leið og fer að slitna á milli eru Þjóðverjar það góðar að þær munu nýta sér það. Við þurfum byrja á að reyna að tengjast inni á vellinum og ná að vinna saman. Við þurfum svo að nýta þau færi sem að við fáum. Við munum líklega ekki liggja í dauðafærum þannig að við þurfum að nýta alla sénsa.“

Leikur Íslands og Þýskalands hefst kl.14:00 að íslenskum tíma og verður í beinni útsendingu á RÚV. Einnig verður hægt að fylgjast með beinni textalýsingu frá leiknum hér á Fótbolta.net.
Athugasemdir
banner
banner