„Þetta var geðveikt, við vorum ógeðslega flottar og spiluðum hrikalega vel varnarlega og sköpuðum okkur mikið sóknarlega," sagði Dagný Brynjarsdóttir miðjumaður Íslands eftir frækinn 2-3 sigur á Þýskalandi í undankeppni HM 2019 í kvöld.
Lestu um leikinn: Þýskaland 2 - 3 Ísland
„Við nýttum ekki öll færin en nýttum 3 sem er mjög mikið á móti svona sterku liði. Við förum mjög sáttar heim í dag."
Fyrir leikinn ræddu íslensku leikmennirnir og þjálfararnir mikið um að vera með plan fyrir leikinn og það virtist allt ganga upp?
„Já algjörlega, starfsfólkið okkar var búið að taka þær mjög vel út. Við gerðum bara það sem við áttum að gera og framkvæmdum það vel og uppskárum 3 stig."
Dagný var frábær í leiknum í dag, og skoraði tvö mörk liðsins.
„Það var þungu fargi af mér létt. Þetta voru fyrstu fótboltamörkin sem ég skora á árinu, bæði með landsliðinu og Portland. Þetta var góð tilfinning ég viðurkenni það."
Nánar er rætt við hana í viðtalinu hér að ofan.
Athugasemdir