banner
   fös 20. október 2017 10:09
Elvar Geir Magnússon
Leikmenn Leicester óánægðir með ákvörðun stjórnarinnar
Jamie Vardy og félagar.
Jamie Vardy og félagar.
Mynd: Getty Images
Leikmenn Leicester hafa lýst því yfir við stjórn félagsins að þeir séu óánægðir með þá ákvörðun hennar að reka Craig Shakespeare.


Michael Appleton, sem ráðinn var stjóri til bráðabirgða á meðan félagið finnur nýjan mann, viðurkenndi þetta á fréttamannafundi.

Shakespeare var rekinn á þriðjudaginn en þá var hann aðeins búinn að starfa í fjóra mánuði eftir að hafa gert þriggja ára samning.

„Fólk er svekkt og vill svör við spurningum sínum. Ég er ekki rétti maðurinn til að svara. Ég rak ekki Craig og veit ekki ástæðuna fyrir því að hann var látinn fara," segir Appleton.

Hann kallar eftir því að stjórn Leicester útskýri ákvörðun sína fyrir leikmannahópnum en segir að nú sé öll einbeiting á komandi leik gegn Swansea sem verður á morgun.

„Umræður munu eiga sér stað á komandi dögum. Ég er alveg pottþéttur á því."

Leicester er í þriðja neðsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar með aðeins sex stig eftir átta leiki. Appleton segir að þrátt fyrir stöðuna hafi leikmenn talið að úrslitin myndu detta inn og höfðu ekki á tilfinningunni að staða Shakespeare væri í hættu.

Sean Dyche, stjóri Burnley, er sagður vera efstur á óskalista Leicester og sjálfur hefur hann ekki viljað útiloka það að hann færi sig um set.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner