Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mán 20. nóvember 2017 14:00
Elvar Geir Magnússon
Alfreð: Maður heyrði úr stúkunni 'Hvar er Lars?'
Icelandair
Alfreð fagnar markinu gegn Finnum.
Alfreð fagnar markinu gegn Finnum.
Mynd: Fótbolti.net - Ómar Vilhelmsson
Alfreð og Hannes við upptöku þáttarins.
Alfreð og Hannes við upptöku þáttarins.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í hljóðvarpsþættinum Leiðin til Rússlands er rætt við landsliðsmennina Alfreð Finnbogason og Hannes Þór Halldórsson. Þar eru leikir Íslands í undankeppni HM rifjaðir upp.

Eftir jafntefli í Úkraínu í fyrstu umferð var komið að ævintýralegum heimaleik gegn Finnum á Laugardalsvelli. Ísland var undir þegar komið var fram í lokamínútu en á ótrúlegan hátt tryggði Ísland sé sigurinn.

„Ég þurfti að fylgjast með þessum leik á hliðarlínunni. Ég hef aldrei upplifað eins sterkar tilfinningar án þess að vera að spila, ég var búinn á því eftir leik eins og ég hefði sjálfur verið að spila. Þetta voru þvílíkar tilfinningasveiflur," segir Hannes en hann var meiddur í umræddum leik.

„Þessi leikur var algjör lykill upp á framhaldið. Þrjú stig skipta alltaf máli en upp á framhaldið þurftum við að hafa allt með okkur. Ef við hefðum fundið það að við værum að missa þetta frá okkur hefði þetta getað fjarað frá okkur. Það var rosalega mikilvægt að koma til baka."

Alfreð skoraði jöfnunarmarkið. Hvað fór í gegnum huga hans eftir að hann jafnaði?

„Á þeim tímapunkti hugsaði maður að það væri gott að taka allavega eitt stig út úr þessum leik. Svo eftir þetta fórum við bara í „Hail Mary" og hentum boltanum fram. Þá kom rosalegur karakter í ljós. Stundum þarftu að hafa fyrir því að fá heppni með þér og við skoruðum þetta draugamark. Það er alveg umtalað að leikirnir sem við þurfum að stýra eru oft erfiðir fyrir okkur," segir Alfreð.

Þegar Ragnar Sigurðsson skoraði sigurmarkið getum við Íslendingar þakkað fyrir að myndbandsdómgæsla eða marklínutækni var ekki í undankeppninni. Ljóst er að markið hefði aldrei fengið að standa ef sú tækni hefði verið notuð.

Alfreð segir að sigurinn hafi líka losað liðið og Heimi Hallgrímssyni frá umræðu um Lars Lagerback sem hætti þjálfun Íslands eftir árangurinn á EM.

„Gott dæmi um hvað það er stutt á milli í þessu. Þegar við vorum undir 2-1 stefndi í að við værum með eitt stig eftir tvo leiki. Þegar það var lítið eftir þá heyrði maður úr stúkunni: 'Hvar er Lars? - Komið aftur með Lars' - Þetta tal hefði allt saman byrjað ef við hefðum ekki farið vel af stað. Það var gott að kæfa þá umræðu strax," segir Alfreð.

Smelltu hér til að hlusta á þáttinn
Athugasemdir
banner