Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 20. nóvember 2017 15:25
Magnús Már Einarsson
Árni fór úr axlarlið í hjólhestaspyrnu - Skoðar framhaldið eftir aðgerð
Árni Vilhjálmsson.
Árni Vilhjálmsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Staðan er þannig að ég er á leiðinni í aðgerð í næstu viku eftir að hafa farið úr axlarlið bæði í sumar og núna fyrir síðasta leikinn. Ég klára þessa aðgerð og tek stöðuna eftir það," sagði framherjinn Árni Vilhjálmsson við Fótbolta.net í dag aðspurður út í næsta tímabil hjá sér.

Árni gekk í raðir Jönköpings síðastliðinn vetur en hann kom til félagsins frá Breiðabliki. Jönköpings féll úr sænsku úrvalsdeildinni í gær eftir tap gegn Trelleborg í umspili.

„Þetta var skrýtið tímabil. Ég byrjaði alla leiki í byrjun móts og vð vorum í fínum málum þegar ég fór úr axlarlið. Eftir sumarfríið fór að draga af okkur. Seinni hluti tímabilsins var ekki nógu góður eftir að fyrri hlutinn hafði verið nokkuð góður. Við féllum og þetta var frekar leiðinlegt tímabil þó það hafi verið lærdómsríkt."

Árni skoraði eitt mark í sextán leikjum með Jönköpings en meiðsli settu strik í reikninginn hjá honum. Árni fór úr axlarlið snemma á tímabilinu á æfingu hjá Jönköpings.

„Ég datt fyrst úr axlarlið þegar ég var að taka hjólhestaspyrnu," sagði Árni en fór spyrnan í netið? „Hún fór sláin inn, óverjandi," sagði Árni léttur.

„Ég vissi að ég hafði dottið úr lið í hjólhestaspyrnunni en ákvað að segja ekki frá því. Öxlin hrökk aftur úr lið og ég ákvað að halda áfram á æfingunni. Síðan var ég að fara að taka skot á æfingunni og þá datt hún alveg úr lið," sagði Árni um upphaf meiðslanna en hann fór síðan aftur úr axlarlið á dögunum.

Árni á tvö ár eftir af samningi sínum við Jönköpings en hann reiknar með að byrja að spila aftur í febrúar í kjölfarið á aðgerðinni. „Ég ætla einbeita mér að því að ná góðri heilsu og svo sjáum við hvað gerist hjá mér," sagði Árni að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner