Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mán 20. nóvember 2017 18:00
Elvar Geir Magnússon
Draumur Hannesar varðandi Buffon rætist ekki
Icelandair
Buffon eftir að ljóst var að Ítalía yrði ekki með á HM.
Buffon eftir að ljóst var að Ítalía yrði ekki með á HM.
Mynd: Getty Images
Hannes þegar þátturinn var tekinn upp.
Hannes þegar þátturinn var tekinn upp.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í hljóðvarpsþættinum Leiðin til Rússlands er rætt við landsliðsmennina Alfreð Finnbogason og Hannes Þór Halldórsson. Þar eru þeir meðal annars spurðir út í óskamótherja á HM í Rússlandi.

Þátturinn var tekinn upp áður en Ítalíu mistókst að leggja Svía í umspilinu fyrir HM.

„Mig hefur alltaf dreymt að spila á móti Ítalíu og fá að skipta á treyju við Buffon. Það væri helvíti gaman," sagði Hannes.

„Þú ferð að renna út á tíma," sagði Alfreð og Hannes og svaraði: „Það er núna eða ekki."

Gianluigi Buffon verður 40 ára í janúar og leggur hanskana á hilluna eftir tímabilið. Hann er hættur að leika með ítalska landsliðinu eftir að liðinu mistókst að komast á HM. Þó margir draumar Hannesar á ferlinum hafi ræst er nokkuð ljóst að þessi mun ekki falla í þann flokk.

Við erum tilbúnir í hvað sem er
Í þættinum fara Alfreð og Hannes yfir undankeppni HM þar sem mikið gekk á.

„Við höfum gengið í gegnum margt og farið í gegnum fjölbreytta hluti. Í undankeppninni fyrir HM þurftum við að kljást við mismunandi aðstæður og tókum allt litrófið. Við áttum nokkra frábæra leiki og áttum leiki þar sem við ströggluðum en tókum nauma sigra. Við lentum í skakkaföllum en ekkert virtist bíta á okkur. Við komum okkur í gegnum öll vandamál og það er mjög flott þegar maður horfir til baka. Það er rosalega margt sem hefur bæst í reynslubankann bara í þessari keppni," segir Hannes sem segir að íslenska liðið sé tilbúið í alla þá mótherja sem upp úr pottinum koma þegar dregið verður í riðla 1. desember.

„Við erum orðið svakalega reynt lið með mikið sjálfstraust. Við vitum að við getum unnið nánast hvern sem er ef við hittum á daginn okkar. Við erum tilbúnir í hvað sem er."

Alfreð var líka spurður út í óskamótherja á HM.

„Ég sagði Bandaríkin einhverstaðar en það verður ekki af þeirri ósk. Þetta verður bara geggjað. Ég væri til í að sleppa við Þýskaland og Spán..." sagði Alfreð og Hannes kastaði þá nafni Króatíu í þann flokk og Alfreð tók undir.

„Ég vil ekki mæta Króatíu, guð minn almáttugur. Annars trúi ég á "jinx" svo við skulum ekki vera að "jinxa" þetta. Þetta verður geggjað sama hvaða lið koma úr pottinum. Það væri gaman að mæta Afríkuliði eða Suður-Ameríkuliði, til tilbreytingar. Það væri mikil upplifun. Öðruvísi leikstílar, kúltúr og hugarfar. Þetta verður bara snilld."

Smelltu hér til að hlusta á þáttinn
Athugasemdir
banner
banner
banner