mán 20. nóvember 2017 18:13
Elvar Geir Magnússon
Elísabet þjálfari ársins í Svíþjóð
Beta með verðlaunagripinn.
Beta með verðlaunagripinn.
Mynd: Fotball Gala
Elísabet Gunnarsdóttir, þjálfari Kristianstad, hefur verið valin þjálfari ársins í sænska kvennaboltanum.

Þetta var tilkynnt á galahátíð sem nú stendur yfir í Stokkhólmi.

Elísabet skákaði Joel Riddez hjá Djurgarden og Kim Björkegren hjá Linköping sem einnig voru tilnefndir í þessum flokki.

Í úrskurði dómnefndar kemur fram að Elísabet hafi unnið frábært starf við að móta lið og bæta þá einstaklinga sem hún hefur í sínum röðum.

Kristianstad hafnaði í fimmta sæti í sænsku kvennadeildinni. Í fyrra var liðið í fallbaráttu en gengi liðsins í ár var mjög gott. Elísabet skrifaði nýverið undir nýjan tveggja ára samning við Kristianstad.

Landsliðsmarkvörðurinn Guðbjörg Gunnarsdóttir, leikmaður Djurgarden, var tilnefnd sem markvörður ársins í sænska kvennaboltanum. Hedvig Lindahl, sænskur markvörður sem spilar fyrir Chelsea, hlaut verðlaunin.



Athugasemdir
banner
banner
banner