Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 20. nóvember 2017 23:30
Elvar Geir Magnússon
Gaf góða raun að taka undirbúninginn á öðrum stað
Icelandair
Íslenska landsliðið á æfingu í Parma.
Íslenska landsliðið á æfingu í Parma.
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Fyrir leikinn gegn Úkraínu var æft á æfingasvæði Eintracht Frankfurt.
Fyrir leikinn gegn Úkraínu var æft á æfingasvæði Eintracht Frankfurt.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Undirbúningur íslenska landsliðsins fyrir leikina í liðinni undankeppni HM var með öðrum hætti en venja er. Þrívegis fór undirbúningurinn að mestu fram í öðrum löndum en keppt var í, einu sinni í Þýskalandi og tvisvar í Parma en dvalirnar á Ítalíu voru í boði Errea.

Allir eru sammála um að þessi nýbreytni hafi gefið góða raun, enda erfitt að halda öðru fram nú þegar sæti á HM er í höfn! Með því að breyta til varðandi undirbúningsstaði voru æfingar á stöðum þar sem aðstæður geta verið mjög mismunandi takmarkaðar.

Fyrir leik var svo ferðast til keppnisborgarinnar og síðasta æfing tekin á sjálfum keppnisvellinum eins og venja er.

„Ég tel að þetta hafi verið mjög góð nýjung. Flest landslið í Evrópu hóa liðið saman í heimalandinu og taka undirbúninginn þar. Við erum þannig stödd á kortinu að það er ekki hægt að fljúga mönnum til Íslands og veðurfarið er ekki upp á það besta." segir Alfreð Finnbogason, leikmaður Íslands.

„Það er mjög fínt að taka undirbúninginn á öðrum stað og það brýtur upp ferðina ef það er langur undirbúningur. Við fundum góðan stað í Parma og Frankfurt var mjög fínt líka. Ég held að þetta sé það sem koma skal. Með fullri virðingu fyrir sumum þessum löndum sem voru með okkur í riðli vill maður ekki eyða tíma þar lengur en maður þarf."

Leikurinn gegn Tyrklandi, sem vannst 3-0 á glæsilegan hátt, var spilaður í borginni Eskisehir. Undirbúningur Íslands fór samt fram á öðrum stað í landinu, Antalya, sem er sumarleyfisstaður.

„Það var frábært hjá KSÍ að setja þetta þannig upp að við vorum í afslöppuðu umhverfi. Það var góður hiti, góður matur, góðir æfingavellir og vel hugsað um okkur," segir Alfreð sem telur að þetta hafi hjálpað mönnum að gíra sig í þennan stórleik.
„Þetta var einn besti útisigur í sögu íslenska landsliðsins."

Útileikir Íslands í undankeppni HM:

Úkraína - Leikið í Kænugarði
Undirbúningur í Frankfurt, Þýskalandi

Króatía - Leikið í Zagreb
Undirbúningur í Parma, Ítalíu

Kosóvó - Leikið í Shköder í Albaníu
Undirbúningur í Parma, Ítalíu

Finnland - Leikið í Tampere
Undirbúningur í Helsinki, Finnlandi

Tyrkland - Leikið í Eskisehir
Undirbúningur í Antalya, Tyrklandi

Smelltu hér til að hlusta á hljóðvarpsþáttinn Leiðin til Rússlands
Athugasemdir
banner
banner
banner