Mbeumo, Wirtz, Diomande, Quenda, Nypan, Van Nistelrooy, Cherki og fleiri góðir í slúðri dagsins
   mán 20. nóvember 2017 15:50
Magnús Már Einarsson
Jonathan Hendrickx: Veit að stuðningsmenn FH eru ósáttir
Jonathan Hendrickx.
Jonathan Hendrickx.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Jonathan varð Íslandsmeistari með FH 2015 og 2016.
Jonathan varð Íslandsmeistari með FH 2015 og 2016.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Það kom nokkuð á óvart þegar bakvörðurinn Jonathan Hendrickx samdi við Breiðablik á föstudaginn. Jonathan fór frá FH í sumar til Leixoes í B-deildinni í Portúgal. Þau félagaskipti gengu hins vegar ekki eins og Jonathan hafði vonast eftir.

„Tími minn í Portúgal var ekki jafn góður og ég hafði vonast eftir. Þetta byrjaði vel á undirbúningstímabilinu og í byrjun í deildinni var ég í byrjunarliðinu. Við náðum ekki góðum úrslitum í fyrstu þremur leikjunum og þá var þjálfarinn rekinn," sagði Jonathan við Fótbolta.net í dag.

„Eftir að þjálfarinn var rekinn þá tók nýr þjálfari við og það var slæmt fyrir okkur erlendu leikmennina. Ég spilaði bara einn leik í bikarnum eftir að hann tók við. Það var erfitt fyrir mig að taka þessu svo ég ræddi við umboðsmann minn og við ákváðum að finna nýtt lið."

„Við ákváðum að ég þyrfti að fara í lið þar sem mér myndi líða vel og vera viss um að fá að spila. Ég ákvað að skoða það að koma til Íslands því að ég veit að fólk ber virðingu fyrir mér sem leikmanni þar. Ég átti í góðu sambandi við Gulla (Gunnleif Gunnleifsson) í Breiðabliki. Við ræddum aðeins saman og eftir það gerðist þetta mjög hratt."

„Þjálfarinn og stjórnin höfðu samband við mig, ræddu við umboðsmann minn og við náðum samkomulagi. Ég ákvað að skrifa undir hjá þeim því ég fann traust á mér og að allir hjá félaginu voru að reyna að láta þetta ganga upp. Ég þekki íslensku deildina og er viss um að ég fái að spila og það er mikilvægt fyrir sjálfstraust leikmanna."


Ræddi ekki við önnur íslensk félög
Jonathan spilaði með FH frá 2014 og þar til í sumar. Hann ræddi ekki við FH eða önnur íslensk félög áður en hann samdi við Breiðablik.

„Ég ræddi ekki við önnur félög á Íslandi því að þetta gerðist mjög hratt með Breiðabliki og ég var ánægður með tilboðið þeirra," sagði Jonathan.

„Þegar ég var á Íslandi þá fannst mér Breiðablik alltaf vera gott lið sem reynir að spila góðan fótbolta og aðstaðan hjá þeim er mjög góð."

Furðulegt að mæta FH
Breiðablik endaði í 6. sæti í Pepsi-deildinni í sumar en Jonathan ætlar sér stærri hluti með liðinu að ári. „Ég er viss um að Breiðablik mun standa sig betur en síðasta sumar. Það er verið að búa til lið sem getur endað í topp þremur og komist í Evrópudeildina," sagði Jonathan en hann mætir gömlu félögunum í FH næsta sumar.

„Það verður mjög furðulegt að spila gegn FH því að þetta er félag sem ég virði mikið. Ég á ennþá mikið af vinum þar og ég átti mjög góða tíma þar. Ég veit að stuðningsmennirnir eru ósáttir svo ég veit ekki hverju ég á að búast við þegar ég fer þangað í leik en svona er fótboltinn. Ég sýndi þeim alltaf virðingu og ég mun aldrei gleyma öllu því sem þeir gerðu fyrir mig. Núna er ég leikmaður Breiðabliks og gef allt mitt fyrir félagið og stuðningsmenn þar," sagði Jonathan.
Athugasemdir
banner
banner
banner