Ísland 0 - 2 Svíþjóð
0-1 Robin Quaison ('33)
0-2 Guillermo Molins ('63)
0-1 Robin Quaison ('33)
0-2 Guillermo Molins ('63)
Frammistaða Íslands var rislítil í 0-2 tapi gegn Svíþjóð í vináttulandsleik í Abu Dhabi.
Leikmannahópur Íslands var aðeins skipaður leikmönnum sem leika hér á landi og í Skandinavíu þar sem ekki er um opinberan landsleikjadag að ræða.
Þarna var kjörið tækifæri fyrir leikmenn að sýna sig og sanna fyrir Lars Lagerback og Heimi Hallgrímsson en óhætt er að segja að enginn hafi náð að banka almennilega á dyrnar.
Þolinmæði vantaði í spilamennskuna í fyrri hálfleik og varnarleikurinn út í gegn var of misjafn og menn oft á tíðum langt frá mönnum. Miðjuspilið var ekki nægilega gott og lítið að frétt eftir að Svíar komust tveimur mörkum yfir í seinni hálfleik.
Leikurinn var í beinni textalýsingu og má lesa hana hér að neðan.
LEIK LOKIÐ - Tilþrifalítill leikur af hálfu íslenska liðsins.
Twitter: Tómas Joð Þorsteinsson
Það merkilegasta við þennan leik er heiðarleg tilraun Theodórs Elmars að púlla Abraham Lincoln skeggið sjaldséða
81. mínúta - Þess má geta að Ragnar Sigurðsson er á vellinum þar sem rússneska liðið Krasnodar er í æfingaferð í Abu Dhabi. Við hefðum alveg getað nýtt krafta Ragnars í dag.
77. mínúta - Svíar nær því að bæta við en Ísland að minnka muninn. Hannes Þór Halldórsson með tvær fínar markvörslur í röð, reyndar búið að flagga rangstöðu í síðara skotinu.
76. mínúta - Kristinn Jónsson > Jón Daði Böðvarsson
75. mínúta - Birkir Már Sævarsson bjargar á línu.
74. mínúta - Skipting. Leikmaður Start inn fyrir leikmann Start.
Guðmundur Kristjánsson > Matthías Vilhjálmsson.
71. mínúta - Guðmundur Þórarinsson með skot úr aukaspyrnu en það var varið. Eftir hornið átti Guðmundur svo fínasta skot, fast, en hárfínt framhjá. Flott tilraun! Annars eru því miður alltof fáir sem hafa náð að heilla eitthvað í dag. Menn ekkert að banka of fast á dyrnar...
67. mínúta - Varnarleikur Íslands ekki sannfærandi núna. Menn of langt frá mönnum. Molins nálægt því að bæta við marki en átti skot í tréverkið.
63. mínúta - MARK! ÍSLAND 0-2 SVÍÞJÓÐ
Guillermo Molins bætir við marki fyrir Svía. Þeir nýta sínar sóknir einfaldlega betur. Sverri mistókst að loka á leikmann sem kom boltanum fyrir þar sem Molins var réttur maður á réttum stað og skoraði af öryggi með viðstöðulausu skoti.
59. mínúta - Sverrir Ingi í smá vandræðum strax í byrjun. Misreiknaði sendingu Svía illilega og þeir fengu flott færi en framhjá fór boltinn.
58. mínúta - Tvöföld skipting hjá Íslandi. Hallgrímur varð fyrir smávægilegum meiðslum áðan og þurfti aðhlynningu. Sverrir Ingi Ingason að spila sinn fyrsta A-landsleik.
Sverrir Ingi Ingason > Hallgrímur Jónasson
Guðjón Baldvinsson > Arnór Smárason
57. mínúta - Sending fyrir markið og Björn Daníel nær skalla en naumlega framhjá. Svíar í ákveðnu basli.
54. mínúta - Líflegar upphafsmínútur seinni hálfleiks. Markvissari sóknaraðgerðir hjá íslenska liðinu sem hefur átt nokkrar hornspyrnur í röð.
50. mínúta - Ísland nálægt því að jafna!! Flott sókn, Theodór Elmar sendi á Björn Daníel sem sendi fyrir markið þar sem Matthías Vilhjálmsson var nálægt því að koma boltanum í netið. Lofar góðu.
46. mínúta - Seinni hálfleikur hafinn Tvær skiptngar hjá íslenska liðinu í hálfleik.
Guðmundur Þórarinsson > Steinþór Freyr Þorsteinsson
Björn Daníel Sverrisson > Haukur Páll Sigurðsson
HÁLFLEIKUR - Leikmennirnir inni á vellinum eru ekki vanir því að spila saman og það sést. Miðjan er ekki að ná sendingunum sem þarf til að skapa eitthvað fram á við. Vantar herslumuninn. Líklegt er að við fáum nokkrar skiptingar frá Lalla og Heimi í hálfleiknum.
Twitter: Aron Hlynur, fótboltaáhugamaður
fatta ekki að nota Indriða i þessum leik. 33 ara og mun aldrei spila landsleik aftur gefa ungum sensinn frekar
41. mínúta - „Það er mjög erfitt að lenda undir gegn Svíum. Þeir eru mjög skipulagðir og passífir þegar þeir komast yfir," segir Guðjón Þórðarson.
39. mínúta - Ísland fékk aukaspyrnu nokkuð fyrir utan teiginn. Ari Freyr fyrirliði reynir skotið en að er slappt og fer langt yfir.
33. mínúta - MARK! ÍSLAND 0-1 SVÍÞJÓÐ
Ísland tapar boltanum og Svíarnir ná frábærri sendingu á Robin Quaison, leikmann AIK, sem skorar. Hallgrímur reyndi að elta Quaison en án árangurs. Boltinn undir Hannes og í netið.
29. mínúta - Besta færi Íslands í leiknum til þessa. Steinþór Freyr lyftir boltanum inn í teiginn og Arnór skallar rétt framhjá. Þarna hefði hann átt að ná boltanum á markið.
25. mínúta - Mikið jafnræði með liðunum. Svíar með skalla á markið en hann auðveldur viðureignar fyrir Hannes. Mesta hætta Íslands í leiknum hefur komið eftir fyrirgjafir.
23. mínúta - Arnór Smárason með máttlaust skot beint á markvörð Svía.
20. mínúta - „Við þurfum að vera þolinmóðari. Menn eru of fljótir að fara í hina svokölluðu áhættusendingu," segir Guðjón Þórðarson sem lýsir á Stöð 2 Sport. Birkir Már Sævarsson með skot af löngu færi en hátt yfir markið.
12. mínúta - Svíar ná skoti á markið í kjölfarið á hornspyrnu en Hannes slær boltann yfir. Fyrsta skot þeirra gulu.
7. mínúta - Steinþór Freyr tekur flikk flakk innkast en nær ekki almennilegum krafti í þetta og innkastið með styttra móti. Ísland byrjar leikinn betur.
4. mínúta - Jón Daði með fyrirgjöf en Svíar bjarga þessu í hornspyrnu. Fín sókn. Ari Freyr með flotta sendingu eftir hornið en boltinn flaug yfir allan pakkann. Munaði litlu að Ísland næði skalla á markið.
1. mínúta - LEIKURINN HAFINN Fyrsti leikur Íslands þar sem Lars og Heimir eru saman aðalþjálfarar er farinn af stað. Svíar byrjuðu með boltann. Gaman að segja frá því að það eru örfáir Íslendingar í stúkunni með íslenska fánann með sér og svo er forsetinn sjálfur Ólafur Ragnar Grímsson í heiðursstúkunni.
15:55 Þess má geta að allir nema einn í sænska hópnum leika í Svíþjóð. Sá spilar í Noregi. Liðin eru komin út á völlinn og verið að spila þjóðsöngvana. Það eru örfáar hræður í stúkunni.
15:48 Það voru Svíar sem buðu okkur út að spila leik í Abu Dhabi en þeir eru búnir að vera í æfingabúðum þarna síðustu daga. Erton Fejzullahu, sóknarmaður Djurgarden, skoraði bæði mörkin þegar Svíar unnu Moldavíu í æfingaleik á föstudag.
15:37 Samkvæmt uppstillingu Gumma Ben á Twitter þá er Jón Daði í sóknarlínunni í 4-4-2 uppstillingu Lalla og Heimis en Matti Vill á miðjunni. Þetta kemur allt í ljós.
15:30 Að sjálfsögðu hefur umfjöllun sænskra fjölmiðla mikið snúist að Svíanum sem er við stjórnvölinn hjá Íslandi. Lars Lagerback er í sviðsljósinu en hann sagði í viðtali að sú staðreynd að hann sé sænskur breyti engu.
15:15 Leikurinn fer fram á hinum stórglæsilega Mohammed Bin Zayed leikvangi í Abu Dhabi en hann tekur rúmlega 40 þúsund áhorfendur. Það verður þó væntanlega ansi tómlegt á honum í dag. Á þessum velli hefur verið spilað í HM félagsliða.
15:00 Heil og sæl og verið velkomin í þessa textalýsingu. Hér að neðan má sjá byrjunarlið Íslands en í því eru þrír leikmenn sem hafa verið fastamenn í byrjunarliðinu undir stjórn Lars Lagerback; markvörðurinn Hannes Þór Halldórsson og bakverðirnir Birkir Már Sævarsson og Ari Freyr Skúlason.
Fimm leikmenn í hópnum hafa ekki leikið A-landsleik en þeir eru allir meðal varamanna.
Byrjunarliðið í dag:
Hannes Þór Halldórsson (m)
Birkir Már Sævarsson
Indriði Sigurðsson
Hallgrímur Jónasson
Ari Freyr Skúlason (f)
Steinþór Freyr Þorsteinsson
Theodór Elmar Bjarnason
Haukur Páll Sigurðsson
Jón Daði Böðvarsson
Matthías Vilhjálmsson
Arnór Smárason
Varnarlínan er skipuð leikreyndustu landsliðsmönnunum sem við eigum kost á. Allir í byrjunarliðinu eiga A-landsleik að baki; Indriði Sigurðsson er leikjahæstur með 64 leiki en hann spilar í sinni uppáhalds stöðu í hjarta varnarinnar. Haukur Páll Sigurðsson og Jón Daði Böðvarsson eiga aðeins einn A-leik hvor á ferilsskránni.
Varamannabekkurinn: Rúnar Alex Rúnarsson*; Kristinn Jónsson, Jóhann Laxdal, Sverrir Ingi Ingason*, Björn Daníel Sverrisson*, Guðmundur Þórarinsson*, Guðmundur Kristjánsson, Guðjón Baldvinsson, Kristján Gauti Emilsson*.
*Leikmenn sem ekki hafa leikið A-landsleik
Twitter: Guðmundur Benediktsson
Svíar byrja svona:
Jansson / Krafth-Johansson-Jansson-Demir / Bahoui-Blomqvist-Johansson-Hult / Quaison-Fejzullahu
Athugasemdir