banner
   sun 21. janúar 2018 10:40
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Marco Silva rekinn frá Watford (Staðfest)
Stjórn Watford segir að Silva hafi misst einbeitingu eftir að Everton reyndi að fá hann.
Stjórn Watford segir að Silva hafi misst einbeitingu eftir að Everton reyndi að fá hann.
Mynd: Getty Images
Watford hefur rekið knattspyrnustjóra sinn, Portúgalann Marco Silva, úr starfi eftir slæmt gengi að undanförnu.

Watford hefur aðeins unnið einn af síðustu 11 leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni og það er ekki boðlegt.

„Þetta var erfið ákvörðun sem við tökum ekki í léttu bragði," segir í yfirlýsingu sem Watford sendi frá sér.

Félagið segir að eftir að Everton reyndi að fá Silva þegar Ronald Koeman var rekinn hafi einbeiting hans ekki verið 100% og það hafi bitnað á liðinu og úrslitum. Stjórnin telur að það hafi verið óumflýjanlegt að láta hann fara.

Watford tapaði 2-0 fyrir Leicester á útivelli í gær og var það síðasti leikurinn hjá félaginu með Silva við stjórnvölinn.

Silva tók við Watford fyrir tímabilið eftir að hafa stýrt Hull á seinni hluta síðasta tímabils. Hann náði aðeins að rétta úr kútnum hjá Hull en kom samt ekki í veg fyrir að félagið félli úr deild þeirra bestu.

Hann hóf þetta tímabil frábærlega með Watford en gengið að undanförnu hefur verið hreint út sagt ömurlegt.

Watford er í tíunda sæti en liðið er aðeins fimm stigum frá fallsæti.



Athugasemdir
banner
banner
banner
banner