mið 21. febrúar 2018 11:27
Elvar Geir Magnússon
Reykrými sett upp fyrir þjálfara Napoli
Sarri er keðjureykingamaður.
Sarri er keðjureykingamaður.
Mynd: Getty Images
Þeir hjá RB Leipzig eru höfðingjar heim að sækja og ganga eins langt og þeir geta til að þóknast Maurizio Sarri, þjálfara Napoli. Liðin mætast á heimavelli Leipzig í Evrópudeildinni á fimmtudag.

Leipzig hefur látið setja upp sérstakt reykrými rétt hjá búningsklefa Napoli svo Sarri þurfi ekki að fara langt til að kveikja sér í sígarettum.

Sarri er keðjureykingamaður og þegar hann hefur fengið brottvísanir á hliðarlínunni hafa jafnvel verið kenningar uppi um að hann láti reka sig í burtu svo hann geti kveikt sér í einni.

Napoli er á toppi ítölsku deildarinnar en Björn Már Ólafsson, sérfræðingur um ítalska boltann, sagði í útvarpsviðtali á dögunum að sá árangur væri að langstærstum hluta Sarri einum að þakka.

Það er þó á brattann að sækja fyrir Napoli í leiknum á fimmtudag þar sem Leipzig, sem er í fimmta sæti þýsku deildarinnar, vann 3-1 sigur í fyrri leiknum á Ítalíu.

Sarri er meðal þjálfara sem orðaðir hafa verið við stjórastarfið hjá Chelsea ef Antonio Conte lætur af störfum.

Sjá einnig:
Viðtalið við Björn Má úr útvarpsþættinum
Athugasemdir
banner
banner
banner