banner
   mið 21. mars 2018 18:00
Magnús Már Einarsson
Rúnar: Hugsaði hvern djöfulinn maður er að eyða tíma í þetta
Rúnar á æfingu hjá Lokeren.
Rúnar á æfingu hjá Lokeren.
Mynd: Kristján Bernburg
Rúnar á fréttamannafundi eftir ráðningu hans til Lokeren í október 2016.  Til hægri er Roger Lambrecht, forseti Lokeren,
Rúnar á fréttamannafundi eftir ráðningu hans til Lokeren í október 2016. Til hægri er Roger Lambrecht, forseti Lokeren,
Mynd: Kristján Bernburg
Rúnar á æfingasvæðinu.
Rúnar á æfingasvæðinu.
Mynd: Kristján Bernburg
Rúnar kom heim og tók við KR síðastliðið haust eftir brottreksturinn frá Lilleström.
Rúnar kom heim og tók við KR síðastliðið haust eftir brottreksturinn frá Lilleström.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Rúnar Kristinsson er gestur vikunnar hjá Gunnlaugi Jónssyni í hlaðvarpsþættinum Návígi. Þar ræðir Rúnar meðal annars óvæntan brottrekstur sinn frá belgíska félaginu Lokeren í ágúst síðastliðnum.

Smelltu hér til að hlusta á Rúnar Kristins í Návígi

Rúnar lék með Lokeren í sjö ár og var kynntur sem „King Rúnar" af Lokeren þegar hann var ráðinn til félagsins í október 2016. Rúnar var hins vegar rekinn eftir einungis tvær umferðir á þessu tímabili og Peter Maes var ráðinn í hans stað. Maes þjálfaði Lokeren frá 2010 til 2015 og gerði liðið tvívegis að bikarmeisturum.

„Hann var á lausu, forsetinn (Roger Lambrecht) vildi fá hann til baka og fórnaði mér," sagði Rúnar um það hvernig brottreksturinn bar að.

„Þetta hafði ekkert með úrslitin að gera. Þessi þjálfari var á lausu og forsetinn var settur undir pressu að hann yrði að ráða þennan þjálfara þennan dag. Ég spurði hann hvort að hann væri að grínast og hann sagði að hinn þjálfarinn væri farinn í annað félag í kvöld ef hann myndi ekki skrifa undir við hann í dag," sagði Rúnar en Maes er mjög vinsæll hjá Lokeren. „Ég frétti að það hafi mætt 300 á fyrstu æfinguna hans. Það mættu 40 eða 50 hjá mér. Hann er algjör goðsögn þarna."

„Ekki mannlegt og rosalegt sjokk"
Brottreksturinn kom Rúnari gjörsamlega í opna skjöldu og tók mikið á hann.

„Þetta var rosalegt sjokk. Mér leið ekkert sérstaklega vel fyrstu vikurnar á eftir. Ég er með börn á skólaaldri og þau voru að fara að byrja í skólanum. Við þurftum að taka ákvörðun mjög hratt. Við fórum heim um leið því að skólakerfið var að byrja á Íslandi. Ég var síðan einn eftir í húsinu úti að hugsa og pakka. Ég nennti ekki að vera í Belgíu til að bíða eftir að annar þjálfari yrði rekinn og ég gæti fengið starfið hans. Mér fannst það ekki passa. Ég settist út í garð heim, fékk mér kaffibolla og reyndi að melta þetta. Þetta var gríðarlega erfitt og leiðinleg staða að lenda," sagði Rúnar sem var ósáttur með hvernig staðið var að brottrekstrinum.

„Í Belgíu var þetta ekki mannlegt og þetta var rosalegt sjokk. Það er aldrei gott að vera rekinn, sama hver ástæðan er. Þetta er mjög erfitt og þú verður að vinna með þetta. Ég hugsaði með mér hvern djöfulinn maður er að eyða tíma í þetta og leggja þetta á konu, börn, ættingja og vini því að það taka þetta allir inn á sig."

Roger Lambrecht, forseti Lokeren, er á níræðisaldri en hann hefur samtals verið með 21 þjálfara í starfi á síðustu 20 árum hjá félaginu.

„Þetta er svona þegar væntingar eigandans eru meiri en efni standa til. Þú ert ekki með leikmannahóp sem getur náð þeim árangri sem hann ætlast til að ná. Þjálfarinn sem tók við af mér var í fimm ár áður hjá félaginu svo þú getur rétt ímyndað þér hvað hinir voru stutt," sagði Rúnar en Lokeren endaði í 13. sæti af 16 liðum í belgísku deildinni í vetur og rétt slapp því við umspil um fall.

Sami matseðill og 2007 - Kjötbollur og kartöflumús
Rúnar spilaði við frábæran orðstír hjá Lokeren frá 2000 til 2007 en hann segir að það hafi verið ótrúlegt að koma aftur til félagsins sem þjálfari. Umhverfið var nákvæmlega það sama og tíu árum áður.

„Breytingin var núll. Það var sama fólk að vinna þarna. Sama fólk sem bar fram matinn, sama fólk að þvo þvottinn og sami sjúkraþjálfari. Sá sem skrifar leikskýrsluna var 82 eða 83 ára og forsetinn var sá sami, 86 ára. Hann gekk með staf, átti erfitt með að komast út úr bílnum sínum og gat ekki labbað upp stiga. Þetta var allt saman mjög gamaldags," sagði Rúnar.

„Það er ótrúlegt að öll aðstaða skuli vera eins. Mín mistök voru kannski að ég vildi breyta svo miklu. Mér fannst þetta ekki vera stór skref og þetta kostaði ekki mikið af pening. Við fengum GPS tæki til að mæla leikmennina. Ég hefði viljað skipta út sjúkraþjálfaranum sem hefur verið þarna í 30 ár og vinnur ekki vinnuna sína. Ég reyndi það ekki en við reyndum að ýta honum aðeins til hliðar. Ég vildi fá yngri fólk til að sjá um þvottinn, klefann og eldhúsið til að fá næringaríkari mat. Fyrstu vikuna eftir að ég kom var sami matseðill síðan ég spilaði þarna 2000 til 2007. Það voru kjötbollur í sósu, kartöflumús og endalaust af einhverju bulli," sagði Rúnar við Gunnlaug Jónsson í Návígi.

Rúnar talar meira um tímann í Belgíu í þættinum Návígi.


Smelltu hér til að hlusta á Rúnar Kristins í Návígi
Til að nálgast þættina í Apple tækjum þarf einungis að leita að "Fótbolti.net" í iTunes Podcast, eða sambærilegum forritum s.s Overcast.

Á sama hátt er hægt að nálgast þættina í Android tækjum með því að nota sambærileg forrit, s.s Pocket Casts eða Podcast Addict, og leita að "Fótbolti.net".


Fyrri návígi:
Heimir Guðjónsson - Fyrri hluti
Heimir Guðjónsson - Seinni hluti
Heimir Hallgrímsson
Ólafur Jóhannesson
Ólafur Kristjánsson
Athugasemdir
banner
banner
banner