þri 21. apríl 2015 17:00
Elvar Geir Magnússon
Yaya Toure opinn fyrir því að prófa nýjar áskoranir
Hvar spilar Yaya Toure næsta tímabil?
Hvar spilar Yaya Toure næsta tímabil?
Mynd: Getty Images
Framtíð Yaya Toure, miðjumanns Manchester City, er í óvissu en hann segist opinn fyrir því að prófa nýjar áskoranir. Það er þó alls ekki staðfest að hann yfirgefi City eftir tímabilið.

Toure hefur oft verið gagnrýndur á þessu tímabili og mörgum þótt hann virka áhugalaus. Hann var þó meðal bestu manna í 2-0 sigri gegn West Ham um síðustu helgi.

„Síðan ég byrjaði að leika mér í fótbolta hef ég alltaf átt mér draum. Í dag lifi ég þann draum, draum sem þúsundir stráka eiga. Ég er fulltrúi Afríku og það er ómetanlegt. Það er engin upphæð sem lætur mig vera áfram hjá félagi sem ég er ekki lengur hluti af eða ef það eru engar áskoranir sem ég þarf að takast á við," segir Toure.

„Enskir fjölmiðlar spá oft meira í tölum en íþróttinni sjálfri. Varðandi mína framtíð þá veit ég ekki meira en þú því ég mun alltaf fara þangað sem ég fæ nýjar áskoranir. Það er í eðli mínu."

Franska félagið PSG ku hafa áhuga á Toure og hann útilokar ekki að spila í búningi félagsins einn daginn.

„PSG er frábært félag sem er enn að stækka að mínu mati. Það eru allir hrifnir af Paris og ekkert sem nokkur getur útilokað. Fótbolti er ástræða mín, vinnan mín og það gefur mér góðar ástæður til að halda áfram að bæta mig. Ég hlusta ekki þegar fólk reynir að brjóta mig niður," segir Toure.

„Ég skulda stuðningsmönnum City að gera mitt besta fyrir félagið alveg þangað til ég yfirgef það. Eins og ég skulda sjálfum mér og minni heimsálfu. Ákvörðun mín mun að stærstum hluta snúa að áskorunum sem mér standa til boða"

Ítalska félagið Inter er annað lið sem sífellt er nefnt þegar rætt er um framtíð Toure en þjálfari liðsins er Roberto Mancini, fyrrum stjóri Manchester City.

„Mancini kenndi mér mikið og er sérstakur þjálfari. Það er ekkert leyndarmál að ég elskaði tímann þegar hann var stjóri hérna. En eins og ég segi snýst þetta meira um áskoranir fyrir mig en einhver þjálfaraskipti."
Athugasemdir
banner
banner
banner