Heiðar Númi Hrafnsson markvörður Hvíta Riddarans og Auðunn Blöndal framherji hjá Vængjum Júpíters mætast í D-riðlinum.
Keppni í neðstu deild Íslandsmóts karla, 4. deildinni, hófst í gærkvöldi. Deildinni er skipt upp í fjóra riðla þar sem tvö efstu lið hvers riðils komast í úrslitakeppnina.
Hér að neðan má sjá létta spá Fótbolta.net fyrir sumarið í 4. deildinni.
Eins og venjulega getur verið nokkuð erfitt að spá fyrir gengi liðanna í 4.deild. Mörg ný lið líta dagsins ljós og miklar breytingar eiga sér stað á liðinum.
A-riðill:
A-riðillinn virðist vera sjá slakasti í ár. Búast má við ansi tvískiptri deild. ÍH, Hamar og Árborg ættu að vera berjast um efstu sætin og Léttismenn gætu blandað sér í þá baráttu. Búast má við að Stokkseyri, Máni og Kóngarnir eigi erfitt tímabil fyrir höndum.
1.ÍH
Hafnfirðingarnir í ÍH voru afar sannfærandi í Lengjubikarnum og skoruðu yfir 30 mörk í 5 leikjum. Þeir eru afar sterkir sóknarlega og eru með sterkara lið í ár en í fyrra þegar þeir féllu úr 3.deild. Þeir ætla sér strax aftur upp. Eiríkur Viljar Kúld er einn allra besti sóknarmaður deildarinnar og ætti að raða inn mörkunum. Varnarleikurinn er líka ágætur og þeir ættu að fara nokkuð auðveldlega í gegnum þennan riðil.
Lykilmenn: Eiríkur Viljar Kúld, Andri Geir Gunnarsson og Örn Rúnar Magnússon
2.Árborg
Það er alltaf erfitt að spila við Árborgar liðið. Þeir tapa aldrei stórt, vörn, barátta og skipulag er þeirra aðalsmerki. Þeim virðist skorta markaskorara og gera mikið af jafnteflum í leikjum sem þeir ættu að vera vinna. Fjögur jafntefli í Lengjubikarnum segir ýmislegt en reikna má að sigrarnir detti inn í sumar og liðið fari í úrslitakeppnina. Liðið er ungt og til alls líklegt ásamt því að vera heppnir með riðil.
Lykilmenn: Magnús Helgi Sigurðsson, Tómas ingvi Hassing og Tómas Kjartansson.
3. Hamar
Hvergerðingar féllu með yfirburðum á seinasta ári en hafa verið þokkalegir í Lengjubikarnum í ár. Það virðist vera kynslóðarskipti á leikmönnum í Hveragerði og fleiri heimamenn eru í hópnum núna en áður. Þeir vilja hinsvegar varla hanga lengi í neðstu deild og vilja koma sér ofar. Hafa fengið unga stráka af höfuðborgarsvæðinu sem gæti átt eftir að reynast þeim vel ásamt því að fá reynslumikinn Spánverja sem ætti að verða lykilmaður.
Lykilmenn: Ágúst Örlaugur Magnússon, Hermann Ármannsson og Jorge Polanco Blanco.
4. Léttir
Léttismenn fóru í úrslitakeppnina á seinasta ári en þeir voru þá í slakasta riðlinum. Í Lengjubikarnum var rýr uppskera en Léttir fékk einungis fjögur stig þar. Liðið kom hins vegar á óvart í vikunni með því að slá stóra bróður í ÍR út í Borgunarbikarnum. Ef allt gengur upp gæti Léttir barist um sæti í úrslitakeppninni.
Lykilmenn: Haukur Ólafsson, Stefán Karl Snorrason og Hafliði Hafliðason.
5. Stokkseyri
Stokkseyringar eru með þriðja árið í röð og hefur verið stígandi ár frá ári. Stokkseyringar eru heppnir með riðil í ár og gætu hæglega kroppað í stig gegn sterkari liðinum. Sóknarleikurinn gæti orðið höfuðverkur og vantar alvöru markaskorara. Þeir eru þó oftast skipulagðir varnarlega og með marga fína knattspyrnumenn.
Lykilmenn: Andri Marteinsson, Barði Páll Böðvarsson og Örvar Hugason.
6. Máni
Máni náði ekki í eitt einasta stig á seinasta ári og tók ekki þátt í Lengjubikarnum í ár. Þeir eru með lið sem hafa engu að tapa og verða að ná að kroppa í stig á sínum heimavelli gegn löskuðum liðum andstæðinga. Liðið ætti að vera skipað eldri og reynslumiklum leikmönnum ásamt yngri strákum sem komast ekki í lið Sindra. Hinn síungi Sinisa Kekic er til að mynda kominn í Mána en hann verður 46 ára á árinu.
Lykilmenn: Sinisa Kekic, Atli Arnarsson, Halldór Steinar Kristjánsson.
7. Kóngarnir
Lið Kónganna virðist vera slakara í ár heldur en í fyrra. Þeir fengu 50 mörk á sig í fimm leikjum í Lengjubikarnum og skoruðu aðeins tvö mörk. Það er eitthvað sem lofar ekki góðu fyrir tímabilið. Níu marka tap í bikarnum gegn öðru 4.deildarliði er einnig ansi slakt. Þeir virðast vera í slöku formi og þurfa að spýta í lófana ætli þeir sér að ná í einhver stig.
Lykilmenn: Guðjón Þór Valsson, Viktor Ari Viktorsson og Elfar Smári Sverrisson.
B-riðill
B-riðillinn er áhugaverður en Augnablik og KH ættu að vera með lang sterkustu liðin. Skallarnir, Vatnaliljur og Mídas gætu veitt þeim smá samkeppni en Snæfell og Afríka standa varla mikið í veginum fyrir hinum liðinum.
1. Augnablik
Augnablik er komið með gríðarlega sterkt lið þar sem sóknarleikurinn er þeirra aðalsmerki. Markamaskínan úr Akraborginni, Hjörtur Hjartarsson, er orðinn spilandi þjálfari liðsins og þá hafa þeir fengið Gunnar Örn Jónsson og Árna Kristinn Gunnarsson beint úr Pepsi-deildinni. Ef Augnablik kemst ekki upp úr riðlinum þá er eitthvað óeðlilegt í gangi. Mannskapur liðsins er yfirburðar í deildinni og líklega um 500-600 leikir úr Pepsi deildinni í þeirra liði. Spurningamerki hversu viljugir eru leikmennirnir sjálfir að fara upp um deild.
Lykilmenn: Gunnar Örn Jónsson, Árni Kristinn Gunnarsson, Arnar Sigurðsson.
2. KH
KH liðið hefur verið gríðarlega sterkt á seinustu árum og komust í úrslit í C-deild Lengjubikarsins. Þá komust þeir auðveldlega áfram í bikarnum eftir sannfærandi útisigur á Snæfelli þrátt fyrir þunnskipaðan hóp í þeim leik. Þeir hafa þó verið að lenda í vandræðum gegn liðum sem spila mjög skipulagðan varnarleik og gætu lent í basli gegn sterkum skipulögðum liðum. Sigurbjörn Hreiðarsson, aðstoðarþjálfari Vals, gæti komið við sögu hjá KH en hann skipti yfir í félagið í síðustu viku.
Lykilmenn: Arnar Steinn Einarsson, Alexander Lúðvíksson, Sveinn Ingi Einarsson.
3. Skallagrímur
Skallarnir mæta til leiks með flott lið en boltinn í Borgarnesi er á uppleið á nýjan leik. Sigurður Þórir Þorsteinsson, formaður þjálfarafélagsins, hefur tekið við Skallagrími og félagið hefur bætt við sig nokkrum leikmönnum, meðal annars tvíburunum, Baldvin og Birgi Ásmundssyni sem eru uppaldir í Fram. Þá hafa þeir aftur fengið markvörðinn Daniel Hatfield sem og Declan Redmond ungan Englending sem lék síðast í Portúgal. Mikið mun mæða á Viktori Inga Jakobssyni í framlínunni en hann verður að vera heitur ætli liðið sér að komast í úrslitakeppnina. Þriðja sætið er þó líklegasta niðurstaðan hjá Sköllunum og því gríðarlega mikilvægt fyrir þá að klára liðin í neðri hlutanum og kroppa í stig gegn KH og Augnablik ætli þeir sér í úrslitakeppnina.
Lykilmenn: Daniel Hatfield, Viktor Ingi Jakobsson, Sölvi Gylfason.
4. Vatnaliljur
Vatnaliljur mæta til leiks með fínt 4.deildarlið en eru óheppnir með riðil. Þeir gætu gert sterkarkari liðinum erfitt fyrir en verða að ná stöðuleika í varnarleiknum. Þeir eru með reynslumikla menn í sínu liði sem eru komnir af léttasta skeiði en þyrftu að fá meiri breidd í sinn hóp. Þeir hafa unnið bæði Mídas og Berserki í Borgunarbikarnum og gætu gert betur en spáin segir til um.
Lykilmenn: Fannar Eðvaldsson, Fannar Árnason, Garðar Sigurðsson.
5. Mídas
Mídasar liðið er alltaf óútreiknanlegt. Þeir geta gert sterkum liðum erfitt fyrir eins og í Lengjubikarnum þar sem liðið gerði jafntefli við Kára. Mídas getur hins vegar einnig tapað fyrir slakari liðum. Þeir verða að bæta varnarleikinn en þeir hafa verið að fá of mörg mörk á sig í leikjum. Þá hafa þeir verið að láta skapið aðeins fara í sig og verða passa sig í spjaldasöfnun ætli þeir sér að gera betur en spáin segir til um.
Lykilmenn: Sigurður Ólafur Kjartansson, Matthías Már Matthíasson og Einar Andri Einarsson.
6. Snæfell
Snæfellingar mæta til leiks með svipað lið og í fyrra. Flestir leikmenn liðsins eru komnir af léttasta skeiðinu og margir þeirra komnir ansi nálægt fertugsaldrinum séu þeir ekki nú þegar búnir að ná honum. Í fyrra náðu þeir í níu stig og alls ekkert ólíklegt að svipuð niðurstaða gæti orðið aftur í ár. Þeir eru með marga fína knattspyrnumenn en eru óheppnir með riðil í ár og gætu orðið fallbyssufóður gegn sterkustu liðinum. Þeir hafa þó sýnt miklar framfarir á undanförnum árum og gætu kroppað í eitt og eitt óvænt stig. Það er þó mikilvægt að Rúnar Sigurðsson sé í stuði í markinu ætli þeir sér að ná þau stig.
Lykilmenn: G. Björgvin Sigurbjörnsson, Predrag Milosavlisevic, Rúnar Sigurðsson.
7. Afríka
Afríka er með enn eitt árið og virðist eiga í miklum erfiðleikum með að fá nýja leikmenn. Þá hafa þeir misst tvo sína bestu leikmenn yfir í Örninn og sár vantar einhvern sem getur skorað. Leikmannahópurinn er byggður af sömu leikmönnum og seinustu ár og margir þeirra komnir yfir fertugt. Þá eiga þeir erfitt með að ná í hóp í mörgum leikjum og spjaldasöfnun hefur komið þeim í vandræði. Stigasöfnun liðsins hefur verið ansi lítil seinustu ár og það er búist við að engin breyting verði á því í ár.
Lykilmenn: Saint Paul Edeh, Pia Mohtua, Abdelmajid Zaidy.
C - riðill
Afar áhugaverður riðill. Samkvæmt bókunum ættu KFG og Þróttur Vogum að vera með lang sterkustu liðin en Skínandi, Stálúlfur og Örnin eru öll með mjög fín lið og því gætu orðið óvænt úrslit í riðlinum. Hörður Ísafirði voru með ágætis fraumraun í fyrra en hafa átt erfitt uppdráttar í vor. Búast má við að Ísbjörninn eigi erfitt tímabil framundan.
1. KFG
KFG hefur verið með eitt allra sterkasta liðið í deildinni í mörg ár og vantað hársbreidd uppá til að stíga skrefið og komast upp. KFG liðið er með reynslumikið lið sem skorar mikið og fær lítið á sig. Þeir voru í of auðveldum riðli í fyrra sem háði liðinu í úrslitakeppninni og hafa lært af reynslunni i ár. Salih Heimir Porca þjálfar liðið og margir öflugir leikmenn eru í hópnum.
Lykilmenn: Daði Kristjánsson, Andri Valur Ívarsson og Bjarni Pálmason
2. Þróttur Vogum
Þróttarar voru grátlega nærri því að komast upp í fyrra og töpuðu svo í leiknum um 3.sætið sem gaf svo sæti upp um deild. Það er góð stemning á pöllunum hjá Vogamönnum og þráin til að komast upp um deild orðin gríðarlega sterk. Þeir eru óheppnir með að lenda í sterkum riðli þar sem allt gæti gerst en reynslan ætti að geta fleytt þeim langt. Liðinu sárlega vantaði yfirburða markaskorara í fyrra en markaskorun í fyrra var aðallega í höndum Páls Guðmundssonar á miðjunni. Þeir hafa fengið Andra Gíslason frá Haukum sem á að leysa það vandamál en spurningin er hvað gera þeir þegar hann fer erlendis í nám í ágúst. Þá verður stemningin að vera svipuð og í fyrra þar sem stuðningsmenn mættu vel á völlinn bæði heima og heiman.
Lykilmenn: Andri Gíslason, Páll Guðmundsson og Kristján Steinn Magnússon.
3. Skínandi
Skínandi er að mestu leyti skipað leikmönnum úr 2.flokki Stjörnunnar. Stjarnan er með gríðarlega sterka yngri flokka og því er gengi liðsins mjög háð því hvort sterkustu leikmenn liðsins fái að spila hverju sinni þar sem 2.flokkurinn hefur verið í forgangi. Liðið vann sannfærandi sigur gegn 3.deildarliði KFR í bikarnum sem ætti að sýna gríðarlega styrkleika liðsins séu þeir með sitt sterkasta lið. Þá eru þeir með mjög góða þjálfara í Brynjari Birni Gunnarssyni og bræðurunum Birni og Kristjáni Mássyni og má búast við liðinu í frábæru formi. Þeir eru með lið sem gætu unnið öll lið í deildinni en einnig tapað á móti öllum séu margir lykilmenn ekki til staðar. Efniviðurinn er svo sannarlega til staðar og verður gaman að fylgjast með Skínanda liðinu í sumar.
Lykilmenn: Ágúst Leó Björnsson, Finn Axel Hansen, Guðmundur Ásgeir Guðmundsson.
4. Örninn
Lið Arnarins hefur tekið gríðarlegum framförum frá seinasta ári og náð í góð úrslit með skipulögðum leik. Liðið vann til að mynda KH og sló ÍH út úr bikarnum svo dæmi séu tekin. Í vikunni tapaði liðið síðan gegn Kára í framlengdum bikarleik. Þeir hafa styrkt sig mikið frá því í fyrra og gætu gert öllum liðum erfitt fyrir. Örninn hefur þó ekki verið að ná að skora nægilega mikið og markaskorun er mikið í höndunum á Kwami Santos. Þeir bættu við sig Baba Bangoura helsta markaskorara Afríku á lokametrunum og gæti munað um minna. Örninn er með lið sem gefst aldrei upp og eru skipulagðir og því lið sem enginn má vanmeta. Gætu komið meira á óvart en spáin segir til um.
Lykilmenn: Kwami Santos, Ingvar Gylfason, Hrólfur Vilhjálmsson.
5. Stálúlfur
Stálúlfsliðið í ár er gríðarlega spennandi lið. Þeir eru virkilega skipulagðir og geta gert öllum liðum erfitt fyrir. Sterk lið eins og Augnablik og ÍH lentu í vandræðum gegn þeim í Lengjubikarnum og þeir eru til alls líklegir í ár. Þeir vilja spila á hröðum sóknum og eru komnir með unga fljóta stráka sem geta sprengt upp varnir. Þeir eru hinsvegar gríðarlega óheppnir með riðil í ár en gaman verður að fylgjast með þeim í sumar þar sem flestir leikja þeirra gætu orðið jafnir og spennandi.
Lykilmenn: Karol Stempinski, Rui Pedro Periera, Magnús Pálmi Gunnarsson
6. Hörður Ísafirði
Lið Harðar var sterkt á seinasta tímabili en voru óheppnir að lenda með þremur af sterkustu liðinum deildarinnar í fyrra en bæði liðin úr þeirra riðli fóru upp. Þeir hafa átt erfitt uppdráttar í vor og virðast ekki jafn sterkir. Þá eru þeir óheppnir með að lenda í sterkasta riðlinum annað árið í röð og einnig þurfa þeir að vera duglegri að taka stigin á heimavelli en þeir náðu í fleiri stig á útivelli á seinasta tímabili. Þá vantar liðinu markaskorara og verða að skora meira ætli þeir sér að ná í stig. Þeir eru hinsvegar alveg með lið sem gæti gert gott mót en þá verða þeir að mæta með sitt sterkasta lið og berjast fram í rauðan dauðann líkt og þeir gerðu í fyrra.
Lykilmenn: Þröstur Pétursson, Ásgeir Guðmundur Gíslason og Jóhann Baldur Bragason
7. Ísbjörninn
Ísbjarnarmenn eru búnir að vera í deildinni í nokkur ár og hafa ekki verið duglegir að safna stigum og alltaf endað í neðsta eða næstneðsta sæti riðla sinna. Þeir virðast ekkert hafa styrkt sig á þessu tímabili og gætu átt erfitt tímabil framundan. Það eitt að liðið auglýsi eftir leikmönnum á heimasíðu utandeildarinnar á hverju ári segir sitt um styrkleika liðsins. Það má samt ekki vanmeta liðið enda á góðum degi geta þeir sótt í afar óvænt stig samanber óvæntur sigur gegn liði Berserkja fyrir nokkrum árum sem reyndist Berserkjum dýr.
Lykilmenn: Guðmundur Kristinn Vilbergsson, Andrew Kurtis Ibsen, Einar Páll Ágústsson.
D-riðill
Afar áhugaverður riðill sem erfitt er að spá fyrir. Hér gætu allt gerst en í fyrstu sýn virðist þessi riðill vera sá næst slakasti á eftir A-riðlinum. Erfitt er að spá fyrir um niðurstöðu þessa riðils þar sem mörg lið virðast jöfn að getu og gætu þess vegna flest tekið stig af hvor öðru.
1. KB
Breiðhyltingar hafa verið með eitt sterkasta liðið í deildinni í mörg ár. Þeim dauðlangar upp úr deildinni en þeir voru upphafsmenn að tillögu að nýrri tíu liða 3.deild sem þeir náðu svo ekki að komast upp í. Liðið er sterkt og tapaði naumlega í bikarnum gegn öflugu liði Þróttar frá Vogum. Á góðum degi eru þeir með eitt sterkasta lið deildarinnar en eiga það til að detta í kæruleysisgírinn og tapa stigum þar sem þeir ættu ekki að gera á venjulegum dögum. KB stefnir á sæti í úrslitakeppni og ekkert annað.
Lykilmenn: Kjartan Andri Baldvinsson, Stefán Ingi Gunnarsson, Aron Fuego Daníelsson
2. Hvíti Riddarinn
Liðsmenn Hvíta Riddarans hafa verið sterkir undanfarin ár en voru gríðarlega óheppnir í fyrra að lenda í riðli með Kára og Álftanesi sem fóru bæði upp í 3. deildina. Í öllum öðrum riðlum hefðu þeir líklega farið í úrslitakeppni í fyrra. Þeir sýndu styrk sinn í vor með því að sigra 1.deildarlið BÍ Bolungarvíkiur í æfingaleik og ætla sér ekkert nema sæti í úrslitakeppninni í ár. Hafa fengið leikmenn sem hafa góða reynslu úr 2. deildinni með Aftureldingu og þeir verða í lykilhlutverki í sumar.
Lykilmenn: Haukur Eyþórsson, Birgir Freyr Ragnarsson, Arnór Þrastarson.
3. Kría
Gróttumennirinir í Kríunni virðast mæta nokkuð sterkir til leiks í ár. Þeir unnu óvæntan sigur á 3.deildarliði Víðis í framlengdum bikarleik og fóru í framlengingu gegn Álftanesi einnig. Þeir voru með miðlungs 4.deildarlið í fyrra og ættu að vera orðnir sterkari í ár. Kríumenn ætla sér væntanlega í úrslitakeppnina og verður forvitnilegt að sjá hvað þeir gera í sumar en þeir styrktu sig talsvert á seinustu dögum félagaskiptagluggans.
Lykilmenn: Garðar Guðnason, Sturlaugur Haraldsson og Grétar Ali Khan
4. SR
Þróttararnir í SR eru mættir aftur í 4.deildina eftir stutt hlé. Þeir eru nánast óskrifað blað og er að mestu skipað leikmönnum úr 2.flokki Þróttar og strákum nýgengnum upp í meistaraflokk. SR átti stærstu félagaskipti ársins í 4. deildinni þegar fyrrum landsliðsmaðurinn Heiðar Helguson gekk til liðs við félagið. Fjalar Þorgeirsson er líka búinn að skipta yfir í SR og þá skiptu Gregg Ryder þjálfari Þróttar og Ingvi Sveinsson einnig yfir í SR sem og fleiri reyndari menn. Þeirra hlutverk verður að spila þegar leikmenn úr 2. flokki Þróttar verða ekki með. Ungu strákarnir í liði SR virka í góðu formi sem gæti hjálpað þeim mikið í deildinni en spurning hvað þeir gera með reynslulítið lið sem er að fara mæta fullorðnum karlmönnum.
Lykilmenn: Heiðar Helguson, Haraldur Árni Hróðmarsson og Jón Kaldal.
5. Elliði
Fylkismennirnir í Elliða hafa oft verið með nokkuð sterkt lið og vilja væntanlega gera tilkall til sætis í úrslitakeppninni. Þeir eru með Björn Metúsalem Aðalsteinsson sem er einn besti markvörðurinn í 4.deild en virðist eiga í erfiðleikum með að skora og sárvantar sóknarmann. Þeir verða að finna hann ætli þeir sér að vera ofar og í baráttu um sæti í úrslitakeppninni.
Lykilmenn: Björn Metúsalem Aðalsteinsson, Sölvi Þrastarson, Páll Pálmason
6. Vængir Júpiters
Vængirnir voru með sterkt lið á seinasta ári og komust í úrslitakeppnina. Þeir virðast hafa misst ansi marga leikmenn og lennu í bullandi vandræðum með utandeildarlið í bikarnum. Þá virðist vanta sóknarmann og þrátt fyrir þrjá sigra og eitt jafntefli í Lengjubikarnum skoraði liðið aðeins fimm mörk. Varnarleikurinn virðist þó ætla vera þeirra aðalsmerki en þeir verða að finna markaskorara ætli þeir sér að vera ofar í deildinni. Þeir geta vel gert tilkall til sætis í úrslitakeppninni ef vel gengur en þeir styrktu sig talsvert í lok gluggans og fengu til að mynda tvíburana Geir og Kolbein Kristinssyni sem ættu að geta verið lykilmenn. Sjónvarpsmaðurinn góðkunni Auðunn Blöndal gæti einnig spilað í sóknarlínu liðsins í sumar sem og félagaskiptakóngurinn Hallur Kristján Ásgeirsson.
Lykilmenn: Gunnar Valur Gunnarsson, Marínó Þór Jakobsson, Guðfinnur Magnússon.
7.Kormákur/Hvöt
Gamla markamaskínan Mihajlo Bibercic mun sjá um að þjálfa lið Kormáks/Hvatar í sumar. Liðið kom á óvart í fyrra og átti lengi vel möguleika á sæti í úrslitakeppninni. Þeir virðast hins vegar vera í vandræðum með mannskap en liðið notaði til að mynda 30 leikmenn í Lengjubikarnum og þurfa á meiri stöðugleika í leikmannahópnum. Stilli þeir upp sínu sterkasta liði gætu þeir náð í stig gegn flestum liðum deildarinnar. Gaman verður einnig að fylgjast með hinum 16 ára Sigurði Bjarna Aadnegard sem skoraði fimm mörk í jafn mörgum leikjum í Lengjubikarnum. Þeir verða einnig að fækka mörkum sem þeir fá á sig. Þeir spila hinsvegar á einum besta grasvelli deildarinnar á Hvammstanga og verða að sækja í stigin á heimavelli.
Lykilmenn: Arnar Ingi Ingvarsson, Björgvin Karl Gunnarsson og Sigurður Bjarni Aadnegard.
Athugasemdir