Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   fim 21. maí 2015 22:26
Magnús Már Einarsson
Heiðar Helgu: Aðallega af því að ég nenni ekki í ræktina
Heiðar gekk til liðs við SR í síðustu viku.
Heiðar gekk til liðs við SR í síðustu viku.
Mynd: Instagram - Haraldur Árni Hróðmarsson
Heiðar í leik með Cardiff.
Heiðar í leik með Cardiff.
Mynd: Getty Images
Fyrrum landsliðs framherjinn Heiðar Helguson skoraði fyrir Skautafélag Reykjavíkur í 4-3 tapi gegn Hvíta Riddaranum í 4. deildinni í kvöld.

Mikla athygli vakti þegar íþróttamaður ársins 2011 ákvað að ganga til liðs við SR á dögunum en Heiðar spilaði síðast fótbolta með Cardiff árið 2013.

„Þetta er aðallega af því að ég nenni ekki í ræktina," sagði Heiðar léttur í bragði þegar Fótbolti.net ræddi við hann eftir leikinn á Tungubökkum í Mosfellsbæ í kvöld.

„Ási (Ásmundur Haraldsson, þjálfari SR), talaði við mig og spurði mig að því hvort ég væri ekki tilbúinn að vera með ef það vantaði menn og ég hef ekkert betra að gera."

SR er að langmestu leyti skipað ungum Þrótturum í 2. flokki en reyndari kappar eins og Heiðar og Fjalar Þorgeirsson eru þó einnig á mála hjá félaginu.

„Það eru margir mjög góðir ungir strákar þarna. Ef það hittir þannig á að þeir eiga leik á sama tíma í 2. flokki þá verður hringt í mann en ég er ekki alveg búinn að ákveða hvað það verður mikið sem ég spila."

Búinn að spila í Sporthúsinu
Hinn 37 ára gamli Heiðar segir það ekki hafa heillað að spila með sínum gömlu félögum í Þrótti eftir að atvinnumannferlinum erlendis lauk. „Nei, þetta er ágætt. Spila annað slagið og hafa gaman," sagði Heiðar sem hefur aðeins sparkað í bolta síðan atvinnumannaferlinum lauk.

„Ég hef verið í fótbolta í Sporthúsinu einu sinni í viku síðan ég hætti. Þar er spilað fimm á fimm. Ég er ekki í neinu formi en maður getur hamast eitthvað aðeins."

Fær nóg af æfingunum
Heiðar fór af velli í síðari hálfleiknum í dag en hann segir alltaf jafn gaman í boltanum.

„Ég stífnaði aðeins í hálfleik í dag, það voru mistök að setjast niður. Það er alltaf gaman að spila leiki. Það er bara hitt vesenið, æfingarnar og það, sem maður fær nóg af," sagði Heiðar að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner