Gísli Eyjólfsson, leikmaður Breiðabliks í Pepsi-deild karla, var í skýjunum með 3-2 sigur liðsins á Víking í fjórðu umferð deildarinnar í kvöld. Þetta var fyrsti sigur Blika á tímabilinu.
Gísli var afar öflugur hjá Blikum en hann lagði upp fyrsta marki á Hrvoje Tokic og var þeirra öflugasti maður fram á við.
Blikar höfðu tapað öllum þremur leikjum sínum í deildinni fram að þessum leik og hafði hann og liðsfélagar hans ástæðu til þess að fagna.
„Þetta var kærkomið að ná þessu loksins hérna. Þetta mátti koma löngu fyrr en gott að fá þrjá punkta í dag," sagði Gísli.
„Við erum búnir að fara yfir föstu leikatriðin en kannski datt þetta meira inn í dag en í hinum leikjunum. Menn eru alltaf gíraðir, skiptir engu máli hvernig þetta er búið að fara."
„Við erum bara að fara í einvígi, vinna þau og þá kemur baráttan og viljinn og maður gerir þetta fyrir félaga sína," sagði hann í lokin.
Athugasemdir