Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   mið 21. júní 2017 21:00
Þórður Már Sigfússon
Styttist í Þjóðadeildina: Fleiri dyr opnast
Ísland sem stendur í A deild - Vetrarleikir í nánd
UEFA er búið að gjörbylta leikjafyrirkomulagi evrópskra landsliða.
UEFA er búið að gjörbylta leikjafyrirkomulagi evrópskra landsliða.
Mynd: Getty Images
Íslenska landsliðið.
Íslenska landsliðið.
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Verður galopinn Laugardalsvöllur án upphitunar verðugur vettvangur íslenska landsliðsins í framtíðinni?
Verður galopinn Laugardalsvöllur án upphitunar verðugur vettvangur íslenska landsliðsins í framtíðinni?
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stuðningsmenn Íslands þurfa skjólveggi fyrir íslenskri veðráttu á komandi árum.
Stuðningsmenn Íslands þurfa skjólveggi fyrir íslenskri veðráttu á komandi árum.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Heimir Hallgrímsson landsliðsþjálfari Íslands mun hafa í mörgu að snúast á komandi árum.
Heimir Hallgrímsson landsliðsþjálfari Íslands mun hafa í mörgu að snúast á komandi árum.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Á næsta ári verður Þjóðadeild UEFA hleypt af stokkunum en um er að ræða byltingu á leikjafyrirkomulagi í Evrópu.

Í stað hefðbundinna vægislausra vináttulandsleikja munu 55 aðildarþjóðir UEFA raðast í 4 deildir (A, B, C og D), þar sem hverri deild verður úthlutað einu sæti á lokakeppni Evrópumótsins 2020.

Röðun í deildirnar mun byggjast á landsliðsstuðli UEFA en ekki verður stuðst við styrkleikalista FIFA.

Ákveðið hefur verið að mismargar þjóðir verði í deildunum en A og B deildirnar munu hvor um sig innihalda 12 þjóðir, á meðan 15 þjóðir munu raðast innan C deildarinnar og 16 í D deildinni. Ísland er sem stendur í tólfta og neðsta sæti A deildar.

Þessum fjórum deildum verður síðan skipt upp í riðla þar sem verða þriggja þjóða riðlar í A og B deildunum og fjögurra þjóða riðlar í C og D deildunum að undanskildum einum þriggja þjóða riðli í C deildinni.

Leikið verður á þriggja mánaða tímabili í lok árs 2018, frá september fram í nóvember, með svokölluðu tvíhöfðaleikjafyrirkomulagi hvern mánuð.

Að lokinni riðlakeppninni er ljóst hvaða þjóðir munu hafa tryggt sér sæti í útsláttarkeppni Þjóðadeildarinnar um sæti í lokakeppni EM.

Hefst þá nokkur bið, því við tekur hefðbundin undankeppni EM en úrslit þar munu hafa áhrif á endanlega niðurröðun í útsláttarkeppni Þjóðadeildarinnar.

Hver deild fær eitt sæti á EM
Um töluvert flókið ferli er að ræða þar sem Þjóðadeildin verður samtvinnuð hinni hefðbundnu undankeppni EM.

Ljóst er að hver deild innan Þjóðadeildarinnar fær úthlutað einu sæti á lokamóti EM2020 sem það þýðir að ein af 16 lökustu þjóðum Evrópu, sem eru í D deildinni, mun komast í lokakeppni EM. Þar með munu þær þjóðir hafa að einhverju að keppa.

Ákveðið hefur verið að fyrirkomulagið í hinni hefðbundnu undankeppni verði þannig að tvö efstu landsliðin í riðlunum tíu vinna sjálfkrafa keppnisrétt á lokamótinu. Auk þess verður sú grundvallarbreyting að undankeppnin verður leikin innan eins almanaksárs, í þessu tilfelli 2019.

20 þjóðir munu komast á EM eftir hefðbundinni leið í undankeppni EM en þau fjögur sæti sem eftir standa úthlutast hverri deild í þjóðadeildunum, þ.e. sigurvegurunum í útsláttarkeppnum A, B, C og D deilda.

„Final Four" leikir í júní 2019
Í A deild Þjóðadeildarinnar munu bestu þjóðir álfunnar auk þess berjast um Þjóðadeildarmeistaratitilinn en að lokinni riðlakeppninni komast sigurvegarar hvers riðils í keppni hinna 4 fræknu „Final Four” sem haldin verður í júní 2019. Þær þjóðir sem enda í neðstu sætum riðlanna falla niður um deild.

Sigurvegar í riðlunum í B, C og D deild komast upp um deild og tryggja sér sæti í útsláttarkeppni um sæti á EM2020. Þær þjóðir sem skipa neðstu sætin í riðlunum í A, B og C deild falla hins vegar niður um deild. Neðstu þjóðirnar í D deild falla ekki.

Margt getur breyst á þeim tíma frá því að riðlakeppni Þjóðadeildarinnar lýkur í nóvember 2018 og þar til útsláttarkeppnin fer fram í mars 2020 og er ljóst að niðurröðunin í úrsláttarkeppninni mun breytast.

Í millitíðinni verður undankeppni EM leikinn árið 2019, frá mars fram í nóvember.

Líklegt má telja að flestar ef ekki allar þjóðirnar í A deildinni tryggi sig áfram með hefðbundinni leið í undankeppninni auk margra þjóða í B deildinni.

Á þessari stundu eru Þýskaland, Portúgal, Belgía, Spánn, Ítalía, England, Sviss, Rússland, Pólland, Frakkland, Króatía og Ísland í A deildinni og þar sem tvær þjóðir fara sjálfkrafa á EM úr hverjum riðli í undankeppninni verður að teljast afar líklegt að flestar eða allar ofantaldar þjóðir fari áfram með þeim hætti.

Það þýðir að sæti þeirra í útsláttarkeppni Þjóðadeildarinnar færast á þær þjóðir sem eru næst á eftir á styrkleikalista UEFA.

Öruggt er að Ísland verður annað hvort í A eða B deild þegar dregið verður í riðla Þjóðadeildarinnar og er nánast öruggt að Ísland mun fá sæti í útsláttarkeppi deildarinnar um sæti á lokakeppni EM, fari svo að landsliðinu mistakist að komast áfram upp úr undanriðli undankeppninnar. Má því segja að íslenska landsliðið muni uppskera það sem sáð hefur verið til undanfarin ár.

Útsláttarkeppnin, sem fer fram í mars 2020, verður með því sniði að leikinn verður undanúrslitaleikur í A, B, C og D deild og síðan úrslitaleikur hverrar deildar um sæti á lokamóti EM2020.

Að því loknu hafa 24 þjóðir tryggt sér sæti á lokamóti EM 2020 en ljóst er að þær þjóðir sem tryggja sig áfram eftir útsláttarkeppni Þjóðadeildarinnar munu fá skamman tíma til undirbúnings þar sem lokamótið fer fram rúmum þremur mánuðum eftir útsláttarkeppnina.

Vetrarleikir í nánd
Ljóst er með tilkomu Þjóðadeildarinnar og breyttu fyrirkomulagi í niðurröðun leikja í hinni hefðbundnu undankeppni UEFA mun vetrarleikjum fjölga til muna.

Því geta skapast aðstæður hér á landi þar sem erfitt verður að spila einstaka landsleiki sökum þess ástands sem Laugardalsvöllurinn er í dag.

Vegna fjölda fyrirhugaðra leikja á þessum árstíma eru líkurnar heldur meiri en minni á að erfitt verði að spila hér á einhverjum tímapunkti.

Samkvæmt staðfestum uppgefnum leikdögum fyrir Þjóðadeildina og hina hefðbundna undankeppni fyrir EM2020, munu leikdagar fara fram í október 2018, nóvember, 2018, mars 2019, október 2019, nóvember 2019 og mars 2020.

Í öllum þessum mánuðum er allra veðra von hér á Íslandi.

Leikdagar Þjóðadeildarinnar og undankeppni EM:
September 2018 - Þjóðadeildin (tveir leikdagar).
Október 2018 – Þjóðadeildin (tveir leikdagar).
Nóvember 2018 – Þjóðadeildin (tveir leikdagar).
Mars 2019 – Undankeppni EM2020 (tveir leikdagar).
Júní 2019 – „Final Four" Þjóðadeildarinnar.
Júní 2019 – Undankeppni EM2020 (tveir leikdagar).
September 2019 – Undankeppni EM2020 (tveir leikdagar).
Október 2019 – Undankeppni EM2020 (tveir leikdagar).
Nóvember 2019 – Undankeppni EM2020.
Mars 2020 – Útsláttarkeppni A, B, C og D deildar Þjóðadeildarinnar um sæti á lokakeppni EM.
Júní/júlí 2020 - Lokakeppni Evrópumótsins 2020.

Nokkrir punktar:
- Þjóðadeildin skiptist niður í 4 deildir (A, B, C og D)

- A og B deild innihalda 12 þjóðir, C deild inniheldur 15 þjóðir, D deild inniheldur 16 þjóðir.

- Riðlakeppni Þjóðadeildarinnar fer fram í september, október og nóvember 2018.

- Sigurvegarar í hverjum riðli í A deild komast í „Final Four” í júní 2019.

- Sigurvegarar í hverjum riðli í hverri deild komast áfram í útsláttarkeppni Þjóðadeildarinnar sem fer fram í mars 2020.

- Hefðbundin undankeppni EM hefst í mars 2019 og lýkur í nóvember 2019.

- Þegar þjóð tryggir sér þátttökurétt á EM gegnum hefðbundna undankeppni EM, færist sæti hennar í útsláttarkeppni Þjóðadeildarinnar til þeirrar þjóðar sem er næst á eftir í styrkleikalista UEFA.

- Hefðbundin undankeppni EM tryggir 20 sæti á lokamótinu.

- Þjóðadeildin tryggir 4 sæti.
Athugasemdir
banner
banner
banner