banner
   mán 21. júlí 2014 20:10
Brynjar Ingi Erluson
Guardian: Gylfi Þór til Swansea á morgun
Mynd: Getty Images
Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður Tottenham Hotspur á Englandi, verður orðinn leikmaður Swansea City á morgun en Guardian greinir frá þessu í kvöld.

Tottenham Hotspur keypti Gylfa frá Hoffenheim fyrir tveimur árum síðan en Gylfi hefur ekki átt fast sæti í byrjunarliði liðsins.

Hann var á láni hjá Swansea City tímabilið 2011/2012 þar sem hann lék 18 leiki og skoraði 7 mörk undir stjórn Brendan Rodgers.

Tottenham hefur átt í viðræðum við bæði Crystal Palace og Swansea undanfarna daga en það stefnir allt í að Gylfi skrifi undir hjá Swansea á morgun.

Talið er að Swansea borgi 10 milljónir punda fyrir þjónustu hans en Ben Davies og Michael Vorm fara þá líklega í hina áttina til Tottenham. Kaupin tengjast þó ekki og er þá ekki um skiptidíl að ræða.

Gylfi átti að spila með Tottenham gegn Seattle Sounders um helgina en var dreginn úr hópnum til að koma í veg fyrir meiðsli.

Hann lék samtals 58 deildarleiki fyrir Tottenham og skoraði í þeim átta mörk.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner