„Gríðarleg vonbrigði. Mér fannst þetta vera frábær leikur tveggja frábærra liða og synd að við skyldum þurfa að tapa,“ sagði Guðmundur Benediktsson eftir að drengirnir hans í Breiðabliki lutu í gras 4-2 gegn FH.
„Þeir eru topplið og hefur verið eitt besta lið landsins í mörg ár og þeir gerðu þetta listilega vel. Við vorum ekki sérlega skynsamir í síðari hálfleik þar sem við klöppuðum boltanum alltof mikið í stað þess að fara á þá eða lyfta honum inn í boxið. Það er oft ágætt þegar þarf að troða inn marki.“
„Auðvitað hefði verið best að jafna fyrir hálfleik en við höfðum rúman hálfleik til að skora og við vorum ekki nógu klókir og það vantaði smá greddu í okkur. Við skoruðum reyndar eitt mark sem ég gat ekki séð mikið að og fannst við eiga að fá víti líka en dómarinn var að fylgjast með einhverju allt öðru.“
Frammistaða Þorvalds Árnasonar er töluvert milli tannana á fólki eftir leikinn. „Mér fannst dómarinn ekkert sérstakur en hann skoraði ekki þessi fjögur mörk sem við fengum á okkur. Mér fannst við spila frábærlega í fyrri hálfleik fyrir utan þessi þrjú mörk. Þau voru barnaleg. Börn geta verið skemmtileg en ég vil ekki sjá svona.“
Viðtalið má sjá í heild sinni hér að ofan.
Athugasemdir