Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 21. júlí 2014 16:30
Arnar Daði Arnarsson
Halldór Árna: Dómarinn fer ekki eftir reglum
Halldór Árnason og Atli Jónasson.
Halldór Árnason og Atli Jónasson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
,,Þú meinar ,,ekki atvikið"?," sagði Halldór Árnason einn af þjálfurum KV í 1. deild karla aðspurður hvort hann vildi tjá sig um það atvik þegar hann fékk brottvísun í leik KV og HK um helgina.

Það sauð allt uppúr í uppbótartíma í leik HK og KV í 1. deild karla um helgina þegar sóknarmaður KV var dæmdur brotlegur. Páll Kristjánsson, annar af þjálfarum KV var þá réttilega rekinn upp í stúku af dómara leiksins, Sigurði Óla Þorleifssyni fyrir mótmæli. Við báðum Halldór Árnason að lýsa fyrir okkur þessu atviki.

,,Á þriðju mínútu uppbótartíma, verður Páll Kristjánsson mjög reiður yfir dómi Sigurðar Óla og lætur dómara leiksins og aðstoðardómarann heyra það. Sigurður kemur og vísar Páli augljóslega upp í stúku. Á þeim tímapunkti stend ég fimm metra fyrir aftan og fæ mér vatn í rólegheitunum og fæ mér síðan sæti á bekknum,” sagði Halldór.

Frétti inn í klefa með brottvísunina
Leikurinn hélt áfram og Sigurður Óli flautaði síðan leikinn af ca. 40 sekúndum seinna.

,,Eftir leik stend ég upp og labba beint inn í klefa og yrði ekki einn einasta mann. Tíu mínútum seinna frétti ég frá leikmönnum mínum inn í klefa að dómarinn hafi verið að gaspra um það inn á gangi eftir leik að báðir þjálfarar KV hafi fengið brottvísun,” sagði Halldór og segir það hafa komið sér í opna skjöldu enda hafi hann ekki orðið var við það að hafa verið tilkynnt um það.

,,Þegar það gerist þá banka ég uppá hjá dómurunum og óska eftir skýringum. Sigurður Óli opnar hurðina og hefur ekki hugmynd um það hver ég er. Hann vissi ekki að ég væri þjálfari liðsins og neitar að tala við mig.”

,,45 mínútum eftir leik fer ég aftur að klefanum hjá þeim og banka á hurðina og óska eftir skýringu á því hvort það sé rétt að ég sé skráður með brottvísun. Aftur neita þeir að tjá sig,” sagði Halldór sem segist hafa hitt annan dómara sem var áhorfandi á leiknum. Sá dómari hafi tilkynnt Halldóri að hann ætti rétt á því að tala við dómara leiksins eftir leik og óska eftir skýringum.

Augljós misskilningur
,,Fyrir mér er þetta augljós misskilningur á skráningu leikskýrslu. Ég fékk aldrei neina brottvísun og reglurnar eru mjög skýrar. Dómarinn þarf að sýna eða tilkynna um það hver fær brottvísun, sama hvort það sé þjálfari eða forráðamaður. Það var aldrei gert í þessu tilfelli, hvorki dómarinn, aðstoðardómarinn eða eftirlitsmaðurinn tilkynnti okkur að ég hafi fengið brottvísun,” sagði Halldór sem kláraði leikinn á bekknum eins og fyrr segir. Hann átti í einhverjum orðaskiptum við aðstoðardómara eitt í byrjun fyrri hálfleiks en segist ekki hafa sagt eitt né neitt við dómaratríó-ið eftir það.

Halldór hafði samband við KSÍ í morgun og segist hafa átt gott spjall við menn þar. Þar hafi þó engin niðurstaða náðst í málinu. Menn velta því fyrir sér hvort Sigurður Óli hafi farið mannavillt og haldið að Halldór Árnason væri einhver allt annar.

,,Sigurður Óli er ekki að fara eftir reglum. Það er ekki nema einhver geðþáttaákvörðun hans eftir að leik lýkur að ég hafi fengið brottvísun, af því honum dettur það í hug. Þannig virkar þetta ekki. Ég átti fín samskipti við KSÍ í morgun og eitt af því sem við ræddum er hvort að Sigurður Óli hafi farið mannavillt. Miðað við skýringarnar sem voru gefnar þá er ekkert annað sem kemur til greina. Ég og Páll erum tveir einstaklingar, ef einn brýtur af sér þá fá ekki báðir rautt spjald,” sagði Halldór sem biður bara um eitt, að Sigurður Óli og KSÍ leiðrétti þessi mistök.

Krefst leiðréttinga
,,KSÍ býður ekki upp á það að brottvísun sé áfrýjuð. Hinsvegar krefst ég þess að skýrslan verði leiðrétt. Það eru reglur sem gilda og dómararnir þurfa að fara eftir þeim reglum. Mér var ekki vísað af velli með neinum hætti og því geri ég þá kröfu að þessi brottvísun verði fjarlægð af skýrslunni og ég stýri liðinu í næsta leik.”

,,Í þessu tilfelli er skýrslan skráð vitlaus. Dómarinn getur ekki skráð brottvísun á einhvern, sama hvort það sé þjálfari eða leikmaður. Það er ekki eins og þetta sé eitthvað vafamál. Ég vona að menn verði heiðarlegir og gefa sér fimm mínútur til að skoða þetta mál,” sagði Halldór Árnason að lokum í samtali við Fótbolta.net.
Athugasemdir
banner
banner
banner