Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   þri 21. júlí 2015 17:17
Elvar Geir Magnússon
Heimild: Akraborgin 
Arnar Grétars: Þorsteinn gerði samkomulag við okkur
Þorsteinn Már Ragnarsson.
Þorsteinn Már Ragnarsson.
Mynd: Fótbolti.net
Allt virtist stefna í að sóknarmaðurinn Þorsteinn Már Ragnarsson myndi yfirgefa KR nú í glugganum og ganga í raðir Breiðabliks en Kópavogsfélagið er að reyna að styrkja sóknarlínu sína.

Í gær sendi KR svo út yfirlýsingu þess efnis að Þorsteinn væri ekki á förum. Arnar Grétarsson, þjálfari Breiðabliks, fór yfir atburðarrásina í Akraborginni á X-inu í dag.

„Ég ræddi við Bjarna (Guðjónsson) á sínum tíma og fékk leyfi til að tala við Þorstein eftir að við sendum inn tilboð. Það var vitað að það væri klásúla um að hann gæti farið og Steini virtist á tímapunkti vera klár í að fara. Við ræddum við hann og hann var búinn að gera við okkur samkomulag um að koma til okkar," segir Arnar.

„Svo hafa KR-ingar náð að snúa honum þannig að hann verður áfram hjá þeim. Það er bara eins og það er. Það hefði verið gott að fá hann en ef þetta er það sem hann vill þá óska ég honum alls hins besta. Ég á samt ekki von á því að spilmínúturnar séu að fara að aukast hjá honum með tilkomu Hólmberts."

„Þeir leikmenn sem ég hef rætt við hef ég viljað fá yfir út af einhverju, svo er það auðvitað í þeirra verkahring að standa sig vel og sjá til þess að þeir spili. Það er ekki hægt að gefa loforð um byrjunarliðssæti því þá getur maður skotið sig í fótinn. Ég held að það sé aldrei gott fyrir hóp þegar menn frétta af því að búið sé að lofa einhverjum stöðu. Það er ekki gott því það á alltaf að vera samkeppni."

Greinilega breyttir tímar í dag
Fyrir tímabilið virtist Kristján Flóki Finnbogason vera kominn í Breiðablik en á síðustu stundu breyttist það og leikmaðurinn gekk í raðir FH.

„Undir það síðasta fór einhver atburðarrás í gang með Kristján Flóka. FH hafði sagst ekki hafa áhuga en þegar þeir koma svo og bjóða miklu meiri pening en við þá skilur maður það. FH er flott félag með flottan leikmannahóp og er hans uppeldisfélag. Maður kannski bara skilur það," segir Arnar í viðtalinu við Hjört Hjartarson í Akraborginni.

„Ég er alinn þannig upp að ef maður er búinn að segjast ætla að gera eitthvað þá verður maður að standa við það. Það eru greinilega breyttir tímar í dag í þessu."

Hlustaðu á viðtalið við Arnar úr Akraborginni:

Athugasemdir
banner
banner
banner