Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   þri 21. júlí 2015 15:04
Elvar Geir Magnússon
Atli aftur á meiðslalistann - Leysir Dúlluna af á morgun
Atli Jóhannsson var á hækjum meðan Stjarnan lék gegn ÍA í Pepsi-deildinni um helgina.
Atli Jóhannsson var á hækjum meðan Stjarnan lék gegn ÍA í Pepsi-deildinni um helgina.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Atli Jóhannsson hefur lítið getað verið með Stjörnunni í sumar vegna meiðsla, hann hefur aðeins komið við sögu í þremur leikjum í Pepsi-deildinni. Atla hefur verið afar sárt saknað hjá Garðabæjarliðinu enda lykilmaður á miðjunni.

Atli var byrjaður að spila aftur þegar bakslag kom í fyrri leiknum gegn skoska liðinu Celtic.

„Ég í raun fer aftur í mjöðminni á Celtic Park, það er það sem ég hef verið að glíma við allt tímabilið í rauninni," segir Atli.

„Þetta er mjög leiðinlegt því þetta var flottur leikur. Ég persónulega var búinn að vinna ansi hart í því að koma mér til baka. Þá fór mjöðmin aftur og ég veit ekki hvert framhaldið verður."

Ljóst er að Atli getur ekki spilað með Stjörnunni á næstunni.

„Það eru allavega einhverjar vikur því miður. Ef allt fer á versta veg gæti þetta farið þannig að ég myndi ekki spila meira á tímabilinu. Þetta er í raun bara hundleiðinlegt. Án þess að vera með hroka þá finnst mér liðið hafa saknað mín og ég hef saknað þeirra auðvitað líka. Ég er mjög vonsvikinn en svona er þetta. það er meira lagt á suma en aðra. Maður tekur þessu eins og öllu öðru."

Stjarnan tapaði 2-0 fyrir Celtic í fyrri leiknum í síðustu viku og mætir liðinu aftur annað kvöld. Þar mun Atli vera liðsstjóri í fjarveru Sigga Dúllu sem hefur verið settur í stöðu yfirmanns öryggismála kringum leikinn.

„Maður fær allavega eitthvað hlutverk í staðinn," segir Atli Jóhannsson en Stjarnan sem er ríkjandi Íslandsmeistari hefur ekki staðið undir væntingum í sumar og er í sjöunda sæti Pepsi-deildarinnar.
Athugasemdir
banner
banner
banner