þri 21. júlí 2015 18:25
Arnar Daði Arnarsson
Breiðablik býður í Gary Martin
Gary Martin í leik gegn Breiðablik.
Gary Martin í leik gegn Breiðablik.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Samkvæmt öruggum heimildum Fótbolti.net hafa Blikar boðið í Gary Martin, framherja KR.

KR-ingar fengu formlegt tilboð frá Breiðabliki um sex leytið í dag.

Gary Martin hefur byrjað á varamannabekk KR í undanförnum leikjum. Hann kom inn á sem varamaður í hálfleik í síðasta leik KR. Liðið var þá 1-0 undir gegn FH. Hann breytti gangi leiksins, skoraði eitt og lagði upp annað í 3-1 sigri.

Í þeim leik voru sóknarmennirnir Þorsteinn Már Ragnarsson og Sören Frederiksen fjarri góðu gamni vegna meiðsla.

„Ég var reiður og vildi sanna mig og ég gerði það. Ég ætti kannski að byrja í svona leikjum. Ég tel að ég þurfi ekki að sanna mig á Íslandi," sagði Gary Martin í viðtali eftir leikinn gegn FH.

Vefsíðan 433.is segist hafa áreiðanlegar heimildir fyrir því að KR hafi boðið Val að kaupa leikmanninn en Valsmenn ekki verið tilbúnir að ganga að verðmiðanum. KR-ingar neita þessum fréttaflutningi.

„Þetta er eins vitlaust og hægt er að hafa það. Þetta er bara tóm þvæla," sagði Bjarni Guðjónsson í viðtali við Vísi.

KR-ingar eru þessa stundina í Noregi, þar sem liðið undirbýr sig fyrir seinni leik liðsins gegn Rosenborg í undankeppni Evrópudeildarinnar.
Athugasemdir
banner
banner
banner