mið 21. ágúst 2013 13:41
Hafliði Breiðfjörð
KSÍ staðfestir að Hannes verði í banni gegn FH
Hannes Þór verður í leikbanni á sunnudaginn.
Hannes Þór verður í leikbanni á sunnudaginn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Rúnar Alex ver væntanlega mark KR gegn FH á sunnudaginn.
Rúnar Alex ver væntanlega mark KR gegn FH á sunnudaginn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
KSÍ staðfesti rétt í þessu á vef sambandsins að Hannes Þór Halldórsson markvörður KR telst ekki hafa tekið út leikbann sitt gegn Breiðablik á sunnudaginn og verður því í leikbanni í stórleiknum gegn FH næstkomandi sunnudag.

Rúnar Alex Rúnarsson lék í marki KR í leiknum gegn Breiðabliki þar sem Hannes Þór var í leikbanni. Leikurinn var flautaður af strax í byrjun vegna alvarlegra meiðsla Elfars Árna Aðalsteinssonar og áhöld voru um hvort Hannes teldist hafa tekið út bannið samkvæmt reglum FIFA. Svo er ekki samkvæmt úrskurði KSÍ og hann því í banni gegn FH. Tilkynningu KSÍ má sjá hér að neðan.

Ákvörðun stjórnar KSÍ vegna leikbanns leikmanns KR
- Leikbannið gildir í næsta leik KR

Vegna leiks Breiðabliks og KR í Pepsi-deild karla sem flautaður var af sl. sunnudag hefur stjórn KSÍ tekið eftirfarandi ákvörðun til að eyða óvissu vegna leikbanns Hannesar Þórs Halldórssonar, leikmanns KR, en leikmaðurinn átti að taka út leikbann í umræddum leik:

„Þar sem leikur Breiðabliks og KR 18. ágúst sl. telur ekki sem gildur leikur í Íslandsmótinu 2013 er ljóst að umræddur leikmaður hefur ekki tekið út leikbann, sem aga- og úrskurðarnefnd úrskurðaði um á fundi sínum þriðjudaginn 13. ágúst sl. og gildir leikbann hans því í næsta leik KR í Íslandsmótinu í samræmi við ákvæði reglugerðar KSÍ um aga- og úrskurðarmál. ”

Ákvörðun stjórnar KSÍ byggir á heimild í 1. málsgrein 17. greinar laga KSÍ þar sem kveðið er á um starfssvið stjórnar KSÍ, en í 14. tölulið greinarinnar segir.: „....að skera úr ágreiningi eða taka ákvarðanir um málefni sem lög þessi eða/og reglugerðir KSÍ ná ekki yfir,...”

Ákvörðun stjórnar KSÍ um að leikur Breiðabliks og KR hafi ekki gildi sem löglegur leikur í Íslandsmótinu 2013 byggir m. a. á agareglum FIFA og UEFA þar sem almenna reglan er sú að leikbann teljist ekki tekið út í leik sem ekki hefur verið lokið samkvæmt reglum íþróttarinnar.

Niðurstaðan byggir því á þeirri grunnforsendu að leikbann verði aðeins tekið út í leikjum þar sem fullum leiktíma er náð skv. knattspyrnulögunum og viðkomandi leikur sé þannig eðlilegur hluti þess móts sem leikið er í. Leikur Breiðabliks og KR 18. ágúst sl., sem réttilega og af óviðráðanlegum ástæðum þurfti að flauta af, uppfyllir ekki þau skilyrði sem áskilin eru til að teljast hluti af Íslandsmótinu í knattspyrnu.

Rétt er að taka fram að samkvæmt 64. grein agareglna UEFA fellur leikbann leikmanns eingöngu niður ef leik er hætt og hann ekki leikinn að nýju eða leikurinn er dæmdur öðru liðinu tapaður. Sami andi er í 19. grein agareglna FIFA en þær eru aga- og úrskurðarreglum KSÍ til fyllingar eftir því sem við á. Það er álit stjórnar KSÍ að seinni setning 4. málsgreinar 19. greinar agareglna FIFA eigi ekki við í þessu tilfelli þar sem leikurinn verður leikinn að fullu að nýju.

Þess má svo geta að mótanefnd KSÍ hefur ákveðið að leikur Breiðabliks og KR í Pepsi-deild karla fari fram 19. september nk.
Athugasemdir
banner
banner
banner