Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 21. ágúst 2017 12:00
Fótbolti.net
Rýnt í stöðuna í Pepsi-deild kvenna - Hvaða lið notaði hléið best?
Þór/KA er á góðri leið með að landa titlinum.
Þór/KA er á góðri leið með að landa titlinum.
Mynd: Fótbolti.net - Bára Dröfn Kristinsdóttir
Jóhann Kristinn Gunnarsson sérfræðingur Fótbolta.net.
Jóhann Kristinn Gunnarsson sérfræðingur Fótbolta.net.
Mynd: Fótbolti.net - Benóný Þórhallsson
Úr leik Vals og Stjörnunnar í síðustu viku.
Úr leik Vals og Stjörnunnar í síðustu viku.
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
KR hefur verið á góðu skriði eftir EM hléið.
KR hefur verið á góðu skriði eftir EM hléið.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Jóhann Kristinn Gunnarsson, sérfræðingur Fótbolta.net í Pepsi-deild kvenna, er búinn að rýna í stöðu mála í deildinni eftir að boltinn byrjaði að rúlla á ný eftir EM hlé.



Það er athyglisvert að sjá hvernig liðin koma til leiks eftir þetta langa hlé. Stjarnan kastar strax frá sér möguleikum á íslandsmeistaratitlinum með því að tapa stigum gegn Grindavík í fyrsta leik. Einnig gegn ÍBV og tapa svo öllum stigunum gegn Val. Nokkuð ljóst hvað er í forgangi þar. Þær vinna Val í millitíðinni í undanúrslitum bikarsins og allur fókusinn augljóslega á þá keppni sem og meistaradeildina. Það er pressa á Stjörnunni að vinna bikarinn þetta árið og helst að gera vel í meistaradeildinni. Það er sterkur hópur í Garðabænum í ár og menn hljóta að vænta árangurs af þessum leikmannahópi. Stjarnan á örugglega ekki gott með að sætta sig við að sækja styrkingu í glugganum en vinna ekki leik í deildinni í fyrstu þremur eftir það.

Blikarnir misstu sterka leikmenn í pásunni til Bandaríkjanna og það virðist há þeim. Allavega koma þær brothættar til leiks í seinni hlutanum og steinliggja fyrir Val í fyrsta leik. Sigurinn gegn Fylki var sterkur en spilamennska og andinn yfir liðinu lyktar svolítið af því að ekkert er í boði þetta sumarið fyrir Blika. Þó hún skipti máli er baráttan um annað sætið aldrei sveipuð miklum dýrðarljóma. Sumar vonbrigða í Kópavoginum.

ÞórKA missteig sig í fyrsta leik eftir hlé og virtist fjarvera Lillýjar úr vörninni hafa mikil áhrif. Ekki má þó gera lítið úr Fylki sem virtist vera eitt af þeim liðum er hafa notað pásuna best til að koma sterkari inn í seinni hluta mótsins. Með nýjum þjálfara og leikmönnum var allt annað að sjá til liðsins og allur annar bragur á Fylkisliðinu en í fyrri hlutanum. Önnur úrslit í mótinu héldu vænlegri stöðu ÞórsKA þó við. Fátt virðist geta stoppað þær þetta sumarið.

Valur er eitt af þessum fáu liðum í deildinni sem virðast hafa notað leikjahléið vel. Þær koma sterkar til leiks og vonbrigðin örugglega mikil að hafa dottið úr bikarnum. Það var þeirra möguleiki á titli og nú eru þær á fullri ferð í deildinni og langlíklegasta liðið miðað við spilamennsku til að taka annað sætið. Þær spila árangursríkan fótbolta sem liðin virðast eiga í erfiðleikum með að brjóta á bak aftur.

KR koma sterkar til leiks og munar þar um sterka leikmenn sem eru að koma til baka úr meiðslum. Tveir góðir sigrar á liðunum í kringum fara langt með að tryggja þær í deildinni. Þó geta þær líklega ekki fagnað alveg strax. Svona miðað við stemninguna í Árbænum um þessar mundir.

ÍBV nagar sig í handarbökin að loksins þegar ÞórKA tapar stigum þá vinna þær ekki leik í deildinni. Þær komast með erfiðismunum í úrslitaleik bikarsins og það er auðvitað aðalmálið þetta sumarið. Þær hljóta samt að svekkja sig smávegis á því að horfa á stöðuna í deildinni fyrir og eftir pásu. Þær voru í séns en tvö jafntefli eftir hlé gerðu vonir þeirra að engu.

Grindavík koma sterkar í seinni hlutann og spiluðu m.a. alvöru undanúrslitaleik við ÍBV. Þær bæta svo um betur og gera jafntefli við þær aftur í deildinni. Þær komu öllum á óvart í fyrsta leik eftir hlé með því að gera 0-0 jafntefli við íslandsmeistara Stjörnunnar. Þær voru ósáttar með breytinguna á þeim leik en sýndu karakter og nýttu pirringinn í leikinn. Það skilaði þeim mikilvægu stigi í baráttunni. Þessi tvö stig sem þær hafa náð í gegn ÍBV og Stjörnunni eftir pásu gera það að verkum að þær geta áfram hugsað um Pepsi í haust.

FH heldur sjó og tveir sigrar og eitt tap eftir hlé styrkir stöðu þeirra enn frekar og liðið á fínum stað í deildinni. FH er liðið sem daðrar hvað mest við að gera atlögu að þessum efri hluta deildarinnar eins og er.

Haukarnir eru í vondri stöðu eins og allir vita en þær sýna alltaf lífsmark og ætla ekkert að gefast upp fyrr en mótið er búið. Það er kannski ekki óeðlilegt en þær byrja sterkt og komast jafnvel yfir eins og gegn ÞórKA en þegar þær eru slegnar niður á jörðina með jöfnunarmarki og jafnvel einu til þá þyngist róðurinn og þær gefa eftir. Ekki versta liðið sem hefur fallið úr deildinni síðustu ár og hefur spennandi leikmenn innanborðs. Vonandi nota þær sumarið sem lærdóm og koma sterkar upp aftur.

Fylkir er liðið sem kom eins og nýtt lið inn í deildina eftir verslunarmannahelgi. Þó staðan sé ekki góð í deildinni þá er spilamennskan þessa dagana á þá leið að svona hefði aldrei þurft að fara. Sterkt stig fyrir norðan og virtust allan tímann inn í leiknum gegn Blikum. Líklega svíður tapið gegn FH hvað mest. En það sýnir líka styrk FH liðsins. Nýr þjálfari og leikmenn virðast hafa blásið lífi í glæðurnar en spurningin er því miður hvort það sé ekki of seint. Liðin fyrir ofan eru að ná í stig svo róðurinn verður erfiður í restina.

Fyrstu leikirnir eftir hlé gerðu það að verkum fyrir áhugamenn um Pepsi deild kvk þetta árið að þeir geta aðeins fylgst með örlítilli spennu um það hvaða lið fer niður með Haukum. Einnig hvort Breiðablik, Stjarnan, ÍBV eða Valur verði í öðru sæti.

Úrslitaleikur bikarsins verður vonandi spennandi og skemmtilegur. Það er í raun erfitt að fullyrða að Stjarnan sé sigurstranglegra liðið þó mannskapurinn eigi klárlega að gefa það til kynna. Bæði lið geta sótt og hafa mikil gæði fram á við. Fyrir okkur áhugamennina væri gaman að sjá markaleik sem yrði jafn þangað til í lok framlengingar. Vító skemmir aldrei fyrir heldur upp á áhorf og skemmtanagildi.
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner
banner