Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
banner
   mán 21. ágúst 2017 10:00
Mist Rúnarsdóttir
Þorbjörg Jóna: Magnað hvað heimastúlkurnar eru margar
Við kynnumst Einherja í dag
Við kynnumst Einherja í dag
Mynd: Aðsend
Fyrirliðinn Þorbjörg Jóna segir okkur frá fótboltanum á Vopnafirði
Fyrirliðinn Þorbjörg Jóna segir okkur frá fótboltanum á Vopnafirði
Mynd: Aðsend
Úr leik með Einherja síðasta sumar
Úr leik með Einherja síðasta sumar
Mynd: Aðsend
Við höfum verið dugleg að skoða stemninguna hjá liðunum í 1. og 2. deild kvenna í sumar og höldum því áfram í dag. Nú höldum við á Vopnafjörð og kynnumst liði Einherja sem spilar í 2. deild.

Það er fyrirliðinn Þorbjörg Jóna Garðarsdóttir sem sá um að svara nokkrum spurningum um liðið sitt en meistaraflokkur kvenna var endurvakinn hjá félaginu sumarið 2015. Uppgangur í knattspyrnunni á Vopnafirði hefur vakið athygli enda magnað að bæjarfélag með tæplega 700 íbúa tefli fram meistaraflokkum beggja kynja sem og liðum í yngri flokkum.

Liðið hefur varist ágætlega en gengið illa að skora í sumar og stigasöfnunin eftir því. Liðið situr í 8. og næstneðsta sæti 2.deildar þegar þrír leikir eru eftir. Það verður gaman að sjá hvort liðið nái að klífa hærra á lokasprettinum en næsti leikur liðsins verður spilaður næsta laugardag. Þá tekur Einherji á móti Álftanesi á Vopnafirði.

Einherji:
Erkifjendur: Höttur
Heimavöllur: Vopnafjarðarvöllur
Fyrirliði: Þorbjörg Jóna Garðarsdóttir
Þjálfari: Dilyan Nikolaev Kolev


Hvernig er stemningin hjá Einherja?
Stemmningin hjá Einherja er alltaf góð. Það er vel haldið utan um félagið og vel mætt á alla heimaleiki og útileiki líka, það eru alltaf einhverjir Einherjastuðningsmenn í stúkunni, sama hvar við keppum.

Er mikill áhugi fyrir knattspyrnu kvenna á Vopnafirði?
Það er áhugi en samt alltaf meiri stemmari fyrir karlaliðinu. Það fer vonandi að breytast. Það hefur ekki alltaf verið meistaraflokkur kvenna hér á Vopnafirði. Við byrjuðum sumarið 2015, en þar á undan var Einherji seinast með lið á Íslandmóti 2003. Mér finnst mikilvægt að geta verið fyrirmynd fyrir yngri stelpurnar sem munu koma upp í meistaraflokk kvenna eftir einhver ár. Ég man eftir því þegar ég var yngri þá var bara meistaraflokkur karla og það var engin sem maður gat litið upp til. Maður gat ekki sett sér það markmið að komast í meistaraflokk því það var ekki í boði þá.

Ertu ánægð með spilamennsku ykkar í sumar?
Við erum búnar að ná miklum framförum frá því að við byrjuðum með meistaraflokk kvenna. Náum betur að spila boltanum og halda honum. Það er margt sem við eigum eftir að bæta en ef við skoðum liðið fyrir tveimur árum er spilamennskan orðin miklu betri og þetta er eignlega allt annað lið þó svo að þetta séu nokkurn veginn sömu stelpurnar.

Hvað finnst þér um nýju deildarskiptinguna?
Mér finnst hún mjög fín, þá er maður að spila við lið sem eru í svipuðum styrkleikaflokki. Það er líka smá stemmari að fara allar saman suður að keppa, það fengum við ekki að gera í fyrra.


Hvernig er liðið ykkar samsett?
Meirhlutinn af liðinu eru stelpur sem koma frá Vopnafirði og mér finnst magnað hvað við erum margar heimastúlkur þar sem þetta bæjarfélag er ekki stórt. Það er líka frábært að geta spilað fótbolta með æskuvinkonum sínum. Svo erum við með fjóra erlenda leikmenn sem styrkja liðið mjög.

Hverjir eru helstu styrkleikar liðsins?
Helsti styrkleikur okkar er að verjast, það vantar bara aðeins uppá sóknarleikinn okkar og þá er þetta komið. Við höfum kannski ekki sömu reynslu eins og önnur lið en við höfum viljan til þess að læra og verða betri.

Komdu með eina skemmtilega staðreynd um félagið sem fólk veit ekki um:
Búningarnir voru einu sinni bláir og hvítir, áður en appelsínuguli og græni liturinn komu til sögu.

Eitthvað að lokum: Áfram Einherji, alltaf, allsstaðar.
Athugasemdir
banner