fös 21. október 2016 23:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Suarez: Hef ekki möguleika á því að vinna Ballon d’Or
Suarez er búinn að vera gríðarlega öflugur fyrir Barcelona
Suarez er búinn að vera gríðarlega öflugur fyrir Barcelona
Mynd: Getty Images
Luis Suarez, framherji Barcelona, segist hafa engan möguleika á því að vinna verðlaunin sem eru veitt besta leikmanni í heimi, Ballon d'Or, vegna þess að hann er ekki markaðssettur nægilega mikið.

Suarez fékk í gær gullskóinn afhentan fyrir flest mörk í Evrópu, en hann skoraði 40 mörk í spænsku úrvalsdeildinni á síðastliðnu leiktímabili. Hann er í baráttunni við liðsfélaga sinn, Lionel Messi, og Cristiano Ronaldo um að verða valinn bestur í heimi, en hann telur sjálfur sig ekki eiga möguleika á verðlaununum.

„Ballon d’Or hefur meira að gera með markaðssetningu og fjölmiðla frekar en það sem þú afrekar á vellinum," sagði hann við fjölmiðla eftir að hafa unnið gullskóinn. „Ég hef unnið fyrir öllum þeim verðlaunum sem ég hef fengið. Gullskórinn er gefinn þeim sem skorar flest mörk og það er ekki hægt að taka hann af mér."

„Ég hef ekki möguleika á því að vinna Ballon d’Or vegna þess að þetta snýst mikið um markaðssetningu og ég hef ekki hana. Metnaður minn felst í því að vinna Meistaradeildina aftur, það væri frábært."

Suarez bætti því einnig við að það væri erfitt að vinna verðlaun þegar argentíski snillingurinn Lionel Messi kemur líka til greina.

„Að sjálfsögðu flækir það hlutina líka. Að vinna er ómögulegt þar sem ég spila með þeim besta í heimi og hann er stórkostleg manneskja. Hann er bestur í sögunni."

Það virðist ekki bara vera erfitt fyrir Suarez að vinna þessi verðlaun, en frá 2008 hafa einungis Messi og Ronaldo tekið verðlaunin heim með sér.
Athugasemdir
banner
banner