Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fös 21. nóvember 2014 12:00
Magnús Már Einarsson
Heimild: Vikudagur 
Íslensk kona klæðist alltaf Arsenal fötum nema í jarðaförum
Sigfríð styður Arsenal í blíðu og stríðu.
Sigfríð styður Arsenal í blíðu og stríðu.
Mynd: Vikudagur - Þröstur Ernir
Arsenal herbergið hjá Sigfríði.
Arsenal herbergið hjá Sigfríði.
Mynd: Vikudagur - Þröstur Ernir
Önnur mynd úr herberginu.
Önnur mynd úr herberginu.
Mynd: Vikudagur - Þröstur Ernir
Sigfríð Ingólfsdóttir er líklega einn harðasti Arsenal stuðningsmaður landsins en hún er í viðtali hjá Vikudegi á Akureyri í þessari viku.

Sigfríð er 62 ára gömul en hún byrjaði að fylgjast með enska boltanum fyrir 30 árum og ákvað þá að byrja að halda með Arsenal þar sem að hún var hrifin af nafni félagsins. Á heimili sínu hefur Sigfríð útbúið sérstakt Arseanl herbergi.

,,Ég er oft stoppuð út á götu, fólk fer gjarnan að ræða við mig um Arsenal og fótbolta almennt. Sumir sem eru á leiðinni í Brynju að fá sér ís eiga það til að banka upp á hjá mér þegar þeir sjá Arsenal-merkið í glugganum og vilja forvitnast," sagði Sigfríð við Vikudag.

,,Einnig banka menn oft upp á og vilja skoða Arsenal-herbergið. Það kom t.d. Englendingur hérna um daginn, sem er Arsenalmaður og hafði frétt af mér. Ég sýndi honum herbergið og hann var afskaplega hrifinn af þessu, svo hrifinn að hann gaf mér húfuna sína."

Sigfríð er heiðurs meðlimur í Arsenal klúbbnum á Íslandi en hún fer reglulega út á leiki með syni sínum. Hún horfir á fjölda fótboltaleikja á viku en auk þess að fylgjast með boltanum erlendis mætir hún bæði á leiki KA og Þórs. Hún segir að leikir Arsenal geti tekið á taugarnar.

„Ég verð ein taugahrúga þegar liðið er að spila og get ekki setið fyrir framan sjónvarpið heilan leik. Yfirleitt er ég inn í stofu að horfa á annan leik á meðan maðurinn minn og strákurinn fylgjast með Arsenal. Svo heyri ég bara öskrin ef mitt lið skorar."

,,Fyrir leiki fer ég oftast út að labba til að róa mig niður. Mér er minnistætt þegar Arsenal vann bikarmeistaratitilinn í vor, þá var ég svo stressuð í miðjum leik að ég hætti að horfa og fór bara út í göngutúr. Ég var að kjafta við einhvern þegar ég heyrði svo öskrin heiman frá mér, þá vissi ég hvað var að gerast."


„Ég get verið lengi að ná mér eftir tapleik. Sérstaklega ef dómaravitleysingarnir gera einhverja bölvaða vitleysu, eins og í Meistaradeildinni í vikunni (viðtalið var tekið fyrr í mánuðinum) þegar þeir dæmdu ekki rangstöðu á kolólöglegt mark. En ég geymi allar svona tilfinningar heima hjá mér og mæti yfirleitt glöð í vinnuna daginn eftir helgi, hvernig sem er. En þegar Arsenal vinnur þá er ég í töluvert betra skapi og það er ennþá betra þegar Liverpool og Manchester United tapa, það eru tvö lið sem ég þoli ekki í enska boltanum.“

Sigfríð segist nánast eingöngu klæðast Arsenal-fötum. „Ég er aldrei í öðrum fötum nema ég þurfi að fara í jarðarfarir eða eitthvað slíkt.“ En hvað með jólin, borðar hún jólasteikina í Arsenal-fötum? „Ég kýs að svara þessu ekki,“ segir hún og hlær.

Viðtalið í heild má sjá með því að kaupa Vikudag.
Athugasemdir
banner
banner
banner