banner
   fös 21. nóvember 2014 13:25
Elvar Geir Magnússon
Þjálfari Hoffenheim: Meiðsli Lahm breyta engu
Markus Gisdol, þjálfari Hoffenheim.
Markus Gisdol, þjálfari Hoffenheim.
Mynd: Getty Images
„Meiðsli Philipp Lahm breyta engu fyrir okkur," segir Markus Gisdol þjálfari Hoffenheim fyrir leikinn gegn Bayern München í þýsku bundesligunni sem fram fer á morgun.

SkjárSport sýnir leikinn í beinni útsendingu 14:30 á morgun.

Lahm, fyrirliði Bayern, verður frá næstu þrjá mánuði eftir að hafa meiðst á ökkla á æfingu á þriðjudaginn.

Holger Badstuber, David Alaba, Thiago Alcantara, Javi Martinez og Bastian Schweinsteiger eru fyrir á meiðslalistanum en sá síðastnefndi er reyndar byrjaður að æfa á ný.

Meiðslavandræði Bayern gætu verið verri. Manuel Neuer, Jerome Boateng og Thomas Muller urðu allir fyrir smávægilegum meiðslum í landsliðsverkefni með Þýskalandi en eru allir leikfærir.

„Meiðslin hjá Lahm eru að sjálfsögðu mjög leiðinleg en svona gerist í fótboltanum. Þú getur samt tekið hvern einasta leikmann í hópnum hjá Bayern og hann myndi spila stórt hlutverk fyrir öll stórlið Evrópu. Bayern er með besta og breiðasta hópinn og það skiptir engu mála hvaða ellefu spila, þetta verður ákaflega erfiður leikur fyrir Hoffenheim," segir Gisdol.

Bayern er með 27 stig úr ellefu leikjum, fjórum stigum á undan Wolfsburg sem er í öðru sæti. Þegar Bayern tók á móti Hoffenheim á síðasta tímabili enduðu leikar með jafntefli 3-3 og vonandi verður sama fjör á morgun.

Hoffenheim tapaði 4-3 fyrir Köln í síðasta leik en liðið hefur tapað tveimur deildarleikjum í röð. Liðið er í fimmta sæti, tíu stigum á eftir Bayern. Varnarmiðjumaðurinn Eugen Polanski er meiddur og spilar ekki en Kim Jin-su er að stíga upp úr meiðslum og gæti spilað.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner