sun 21. desember 2014 17:58
Alexander Freyr Tamimi
England: Dramatískt jafntefli á Anfield
Liverpool og Arsenal gerðu jafntefli í hörkuleik.
Liverpool og Arsenal gerðu jafntefli í hörkuleik.
Mynd: Getty Images
Skrtel tryggði Liverpool stig.
Skrtel tryggði Liverpool stig.
Mynd: Getty Images
Liverpool 2 - 2 Arsenal
1-0 Philippe Coutinho ('45 )
1-1 Mathieu Debuchy ('45 )
1-2 Olivier Giroud ('64 )
2-2 Martin Skrtel ('97 )

Liverpool og Arsenal gerðu dramatískt jafntefli þegar liðin mættust í ensku úrvalsdeildinni á Anfield í dag.

Heimamenn voru talsvert sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og Arsenal komst hvorki lönd né strönd, en Liverpool skapaði sér þó ekkert ógrynni af færum.

Philippe Coutinho braut hins vegar ísinn á lokamínútu fyrri hálfleiks með skoti í stöngina og inn eftir sendingu frá Jordan Henderson. Leikmenn Liverpool fögnuðu gríðarlega vel og ekki annað hægt en að segja að forystan hafi verið verðskulduð.

Adam var hins vegar afskaplega stutt í paradís í þetta skiptið, en einungis örfáum sekúndum síðar jafnaði Mathieu Debuchy metin. Arsenal fékk aukaspyrnu í uppbótartíma seinni hálfleiks og boltinn endaði í teignum þar sem Debuchy reis yfir Martin Skrtel og skallaði boltann í netið.

Seinni hálfleikurinn var ekki alls kostar ólíkur þeim fyrri. Liverpool var meira með boltann og gekk ágætlega að skapa sér færi, en inn vildi boltinn ekki. Oft vildi muna afskaplega litlu; Philippe Coutinho fékk nokkur góð skotfæri inni í teig en var að hitta boltann illa, og Steven Gerrard skallaði boltann naumlega yfir.

Á 64. mínútu komst Arsenal hins vegar yfir með marki frá Olivier Giroud. Leikmenn Arsenal fóru illa með vörn heimamanna, Santi Cazorla gaf boltann á franska framherjann sem var aleinn inni í teig og skaut á milli fóta Brad Jones. Staðan 1-2 og stuðningsmenn á Anfield áttu ekki orð.

Eftir þetta mark Arsenal sótti Liverpool látlaust að marki gestanna. Alls átti liðið yfir 25 tilraunir og óð Liverpool í færum, en ekkert gekk upp.

Fabio Borini kom inn á sem varamaður þegar um 20 mínútur voru eftir af leiknum. Hann átti skalla sem Szcezny í marki Arsenal varði frábærlega, en undir lok leiks fékk hann svo gult spjald fyrir að henda boltanum í burtu eftir að gestirnir fengu innkast.

Borini fékk svo að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt í uppbótartíma, sem var níu mínútur vegna höfuðmeisðla Martin Skrtel, en Ítalinn sparkaði í Santi Cazorla og fékk verðskuldað annað gult.

Liverpool hélt áfram að liggja á Arsenal í uppbótartíma og uppskar loksins því sem sáð var þegar Martin Skrtel skallaði boltann í netið eftir hornspyrnu. Liverpool var manni færri en Slóvakinn var samt alveg frír og stangaði boltann í netið.

Liverpool er í 10. sætinu með 22 stig en Arsenal er í 6. sætinu með 27 stig.

Athugasemdir
banner
banner
banner