Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 22. janúar 2018 16:23
Magnús Már Einarsson
Verður kjörtímabil formanns og stjórnar KSÍ lengt í þrjú ár?
Guðni Bergsson formaður KSÍ.
Guðni Bergsson formaður KSÍ.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stjórn Knattspyrnusambands Íslands mun leggja til lagabreytingu á ársþingi sambandsins sem fram fer 10. febrúar sem snýr að kjörtímabili formanns KSÍ og heildartíma hans á valdastól sem og annarra stjórnarmanna. Vísir.is greinir frá þessu í dag.

Í dag er formaður KSÍ kosinn til tveggja ára í senn sem og aðrir stjórnarmenn. Samkvæmt tillögunni verður formaður og stjórnarmenn núna kosnir í þrjú ár.

Þá geta formenn og stjórnarmenn að hámarki verið í tólf ár í senn að störfum áður en þeir þurfa að taka sér pásu. Þeir geta þó boðið sig aftur fram síðar meir.

„Þetta er þróun sem er að verða algeng í Alþjóðasamtökum fótboltans. Það er verið að takmarka setu manna í stjórnum og þannig tryggja að það verði ákveðin endurnýjun,“ segir Gísli Gíslason stjórnarmaður KSÍ og formaður Laga- og leikreglunefndar, í samtali við Vísi.

„Hugsunin var bara sú að þá væri meiri samfella í því sem formaður væri að gera. Þetta væri einfaldlega skynsamlegra því þá hefði sitjandi formaður meiri tíma til að fylgja sínum málum eftir.“

Guðni Bergsson var kjörinn nýr formaður KSÍ í fyrra og var hann kjörinn til tveggja ára. Kosið verður um lagabreytingartillöguna á ársþingi KSÍ í febrúar og því gæti formaður og stjórnarmenn verið kosnir til þriggja ára frá og með ársþingi 2019 ef tillagan verður samþykkt.
Athugasemdir
banner
banner
banner