fim 22. febrúar 2018 19:00
Ívan Guðjón Baldursson
Sol Campbell brjálaður eftir höfnun frá Oxford
,,Einn af þeim gáfuðustu innan knattspyrnuheimsins"
Mynd: Getty Images
Enska goðsögnin Sol Campbell hóf samningsviðræður um að taka við Oxford United snemma í febrúar.

Oxford, sem er í neðri hluta C-deildarinnar, hafnaði Campbell og var hann allt annað en sáttur þegar hann sagði frá.

„Ég lagði allt í að fá þetta starf en þeir samþykktu mig ekki," sagði Campbell í Highbury & Heels podcastinu.

„Kannski var mér hafnað útaf reynsluleysi, en það er smá vítahringur. Hvernig fæ ég reynsluna ef enginn ræður mig vegna reynsluleysis?

„Það eru engin geimvísindi að stýra knattspyrnufélagi ef maður er nógu gáfaður og snöggur að læra á starfið."


Campbell gerði garðinn frægan hjá Tottenham og Arsenal sem leikmaður og var þá ráðinn aðstoðarþjálfari landsliðs Trínídad og Tóbagó fyrir ári síðan.

„Ég er nógu klár fyrir þetta starf. Ég bara skil ekki sumt fólk, ég er einn af þeim gáfuðustu innan knattspyrnuheimsins og það er verið að sóa hæfileikum mínum í ekkert. Þeir bera fyrir sig reynsluleysi, en kannski er þetta líka því ég segi það sem ég hugsa og er ekkert að skafa ofan af því.

„Kannski fer ég til Þýskalands, þar elska þeir fólk sem segir það sem það hugsar. Þar er nóg af störfum.

„Ég vil biðjast afsökunar á því að vera með heila, þið þurfið ekki að óttast hann. Maður með heila er eitthvað sem þið ættuð að vilja hjá ykkar félagi, en greinilega ekki."

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner