þri 22. apríl 2014 07:36
Hafliði Breiðfjörð
David Moyes rekinn frá Manchester United (Staðfest)
Orðrómur um að Ryan Giggs stýri liðinu gegn Norwich
David Moyes er hættur með Manchester United.
David Moyes er hættur með Manchester United.
Mynd: Getty Images
Manchester United staðfesti í morgun að félagið hafi rekið David Moyes úr starfi knattspyrnustjóra félagsins, tíu mánuðum eftir að hann tók við starfinu.

Tap liðsins gegn Everton um helgina virðist hafa verið kornið sem fyllti mælinn hjá stjórnendum félagsins en í gær byrjuðu sterkir orðrómar þess efnis að Skotinn myndi missa starfið.

Félagið staðfesti það svo í Twitter færslum í morgun: ,,Manchester United tilkynnir að David Moyes hefur yfirgefið félagið. Félagið vill koma á framfæri þökkum fyrir vinnusemina, heiðarleikann og heillindin sem hann lagði í starfið."

Ekkert kemur enn fram um hver verður eftirmaður hans hjá félaginu en BBC segir talið að Ryan Giggs stýri liðinu gegn Norwich um helgina.

Sir Alex Ferguson valdi Moyes sem eftirmann sinn þegar hann hætti síðasta sumar eftir 26 ár við stjórnvölinn en það hefur ekki gengið sem skyldi.

Undir hans stjórn er liðið í sjöunda sæti deildarinnar nú þegar fjórir leikir eru eftir og ljóst að það á engan möguleika á Meistaradeildarsæti. Þeir eru í baráttu um að ná íEvrópudeildarsæti. Liðið mun einnig enda tímabilið með færri stig en nokkurn tíma í sögu ensku úrvalsdeildarinnar.

Þetta verður í fyrsta sinn síðan 1995 sem liðið kemst ekki í Meistaradeild Evrópu og ef þeim tekst ekki að komast í Evrópudeildina verður það í fyrsta sinn síðan 1990 sem liðið spilar ekki í Evrópukeppni.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner