Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 22. apríl 2014 11:45
Magnús Már Einarsson
Hver á að taka við Man Utd? Álitsgjafar svara
Margir vilja sjá Klopp taka við.
Margir vilja sjá Klopp taka við.
Mynd: Getty Images
Þórarinn Ingi Valdimarsson.
Þórarinn Ingi Valdimarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hrafnhildur Heiða Gunnlaugsdóttir
Sindri Sverrisson.
Sindri Sverrisson.
Mynd: Aðsend mynd
Sveinbjörn Jónasson.
Sveinbjörn Jónasson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gunnar Jarl Jónsson.
Gunnar Jarl Jónsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hilmar Þór Guðmundsson.
Hilmar Þór Guðmundsson.
Mynd: KSÍ
David Moyes var í morgun rekinn frá Manchester United eftir innan við ár í starfi.

Ryan Giggs hefur tekið tímabundið við en miklar vangaveltur eru um það hver mun taka við Manchester United í sumar.

Fótbolti.net fékk nokkra aðila til að gefa sitt álit á því hver eigi að taka við liðinu.

Þórarinn Ingi Valdimarsson, Sarpsborg
Ég tel besta kost fyrir United vera Jurgen Klopp en erfitt verður að fá hann til að yfirgefa Dortmund. Þar sem ég er Poolari vill ég helst að þeir fái einhvern meðalmann í starfið. Það er því miður ekki að gerast þar sem pressan er orðin það mikil innan sem utan klúbbsins. Van Gaal er líklegur eftirmaður Moyes og er hann klassa þjálfari. United ætti kannski að reyna við Jupp Heynckes ef Gaal klikkar þar sem hann gerði frábæra hluti með Bayern, maður sem höndlar pressu. Það kemur í ljós hvað gerist en það skiptir ekki miklu máli í svona meðalmennsku hvaða þjálfari tekur við.

Anton Rúnarsson, handboltamaður
Ég hafði einhvern veginn aldrei trú á David Moyes frá upphafi. Búinn að gera ágætis hluti fyrir Everton þann tíma sem hann var þar en ég held að hann hafi ofmetið sína hæfileika til að reyna landa englandsmeistaratitlinum með Manchester United og þá leikmenn sem hann var með.Hann stökk á tækifærið en það kom í ljós að leikmennirnir höfðu enga trú á honum heldur. Hann er einfaldlega ekki nógu sterkur karakter. Ég væri til í að sjá Jurgen Klopp hjá Man Utd. Frábær karakter og búinn að gera ótrúlega hluti fyrir Dortmund síðustu ár með töluvert minna fjármagn en hin liðin. Annars væri ég lika til í að sjá Carlo Ancelotti á Old Trafford. Maður með mikla reynslu og mikla virðingu sem gæti verið sterkur leikur fyrir klúbbinn til að komast í fremstu röð aftur. Hann veit hvernig á að vinna titla. Það þarf að versla rétt inn í sumar til að fá liðið aftur á þann stað sem það var og þessir tveir ættu að vita nákvæmlega hvað vantar i liðið.

Sindri Sverrisson, Morgunblaðið
Nú veit maður ekki hvað er raunhæft í stöðunni en af þeim sem hafa verið nefndir til sögunnar sýnist mér Jürgen Klopp besti kosturinn. Hann hefur sýnt að hann getur náð góðum árangri og lætur liðið sitt spila fótbolta sem gaman er að horfa á.

Ég veit ekki með að fá Louis van Gaal í þetta. Gæinn er nánast búinn að ákveða að hætta en til í að taka eitt djobb í Englandi fyrst. Það hljómar eins og eitthvað fyrir Tottenham að spá í frekar en Manchester United.

Af þeim sem hafa einhvern tímann verið í læri hjá Alex Ferguson líst mér langbest á Laurent Blanc. Hann er búinn að ná fínum árangri með þetta stjörnulið PSG og væri næstur á lista hjá mér á eftir Klopp. Aðrir lærisveinar Fergusons koma ekki til greina. Ég hef enga trú á að menn á borð við Ryan Giggs hafi það sem þarf til sem knattspyrnustjóri, til að koma United aftur á sinn stall.

Enginn ofangreindra er samt eins og Mourinho eða Guardiola, maður sem ég væri alveg viss um að myndi gera United að einu albesta liði heims aftur og halda því í þeim flokki. Ég er viss um að sem United-maður fer maður alveg jafn skeptískur inn í næsta tímabil eins og þennan vonbrigðavetur sem nú er að baki.

Sveinbjörn Jónasson, Víkingur R.:
Ég myndi vilja fá einhvern ungan og graðan frekar en einhverja risaeðlu sem hefur verið á stóra sviðinu of lengi. Eftir að hafa sagt það þá þarf ekki annað en að horfa á gleraugun, hárgreiðsluna og svipbrigðin hjá Jurgen Klopp og maður er sannfærður um að þar sé á ferð einhver mesti graðnagli sem gengið hefur á þessari jörð. Þó hann hafi ekki haft fjárráð til að keppa við stærstu klúbbana hjá Dortmund þá var alltaf gríðarlega gaman að horfa á liðið spila. Ef ekki Klopp þá væri ég svipað mikið til í að fá Diego Simone frá Athletico Madrid þar sem hann er að gera frábæra hluti og er svalasti þjálfarinn í bransanum á eftir Niko Kovac, þjálfara Króatíu. Ég myndi vilja sjá Gary Neville með öðrum hvorum þeirra. Hann þekkir vel til klúbbsins og deildarinnar sem ég tel að sé mjög mikilvægt. Ég er mikill aðdáandi hans.

Mér fannst verst við Moyes að hann gat ekki sett upp leiki þar sem Man Utd var stærra liðið og slátrað þeim leikjum og hugmyndaflugið sóknarlega var ekkert. Eins og sést á útivallar-recordinu sem var mjög gott þá virtist hann vanur að setja upp varnarsinnaða leiki frá Everton tíð sinni og gera það ágætlega en skorti reynslu af því að vera stóra liðið og það að Man Utd sé búið að skora 40 mörkum færra en Liverpool í deildinni er ansi dapurt.

Gunnar Jarl Jónsson, dómari
David Moyes hefur minnt mig á Roy Hodgson þegar sá síðarnefndi stjórnaði Liverpool. Það virðist sem svo að hann sé að horfa á einhverja allt aðra leiki en hinn venjulegi knattspyrnuáhugamaður. Hann er of gamaldags og leikstíll liðsins hrútleiðinlegur.

Þeir þurfa knattspyrnustjóra sem gustar um. Moyes til vorkunnar þá var það nánast ómögulegt verk að koma í staðinn fyrir Ferguson og hann tók rangar ákvarðanir í kjölfarið sbr. með því að halda ekki þjálfarateymi félagsins.

Það væri aðlaðandi að fá mann eins og Jurgen Klopp í ensku úrvalsdeildina en sama hvaða stjóri tekur við þá þarf sá hinn sami að bólstra liðið og vinna smá hreinsunarstarf í sumar.

Ég held að Gary Neville yrði djöfulli flottur með Giggs sér við hlið.

Van Gaal er af gamla skólanum en er toppstjóri og hefur sýnt það. Gæti verið gaman að sjá hann í deildinni.

En þeir munu vilja fá stórt nafn og ég held að Mourinho myndi alltaf fitta vel inn á Old Trafford og það segir mér sá hugur að Ferguson sjái mikið eftir því að hafa ekki eftirlátið honum starfið síðasta sumar.

Mín spá; Mourinho eða Van Gaal.

Hilmar Þór Guðmundsson, KSÍ.
Ég myndi helst vilja að sterkur persónuleiki eins og Jürgen Klopp myndi taka við sem hefur mikla reynslu og hefur þurft að eiga við stórstjörnur. Hann var auðvitað fljótur að þetta frá sér enda tel ég líklegt að hann endi sem landsliðsþjálfari Þýskalands og því vilji hann ekki festa sig annarstaðar. Þá eru góð ráð dýr og einhver nöfn nefnd til sögunnar.

Louis van Gaal er hress náungi sem gæti gert góða hluti en ég er bara hræddur um að hugmyndafræði hans henti vel landsliðum en ekki félagsliðum sem þarf að rífa upp. Hinn magnaði Ferguson á ekki að vera í myndinni en það væri eins og að rífa mann frá sínu áhyggjulausa ævikvöldi að draga hann aftur á flot til að taka við liðinu aftur. Reyndar hefur konan hans mest um það að segja og sé hún komin með leið á knúsheitum frá gamla þá gæti hann svo sem skellt sér aftur í æfingagallann og gert nýjan 2 ára samning við einhvern tyggjóframleiðanda.

Því hallast ég að því að „ungt blóð” gæti komið sterkt inn og maður eins og Diego Simone virðist vera kostur sem gæti virkað. Hann er baráttuhundur sem lætur menn hafa fyrir hlutunum og gengi hans á Spáni sýnir að hann er ekki vitlaus náungi. Hann með Ryan Giggs og/eða Gary Neville sem aðstoðarmenn gæti verið góð blanda. Það gæti þá endaði þannig, í framtíð langt langt í burtu, að Giggs eða Neville tækju við liðinu að lokum.

Önnur spurning er auðvitað hvort einhverjir af þessum „topp-þjálfurum” setji það fyrir sig að vera ekki í Meistaradeildinni. Persónulega trúi ég ekki að það sé hraðahindrun þegar stórlið eins og Man.Utd er annarsvegar - en það er svo sem ekki verið að biðja mig að taka við liðinu.

Nú er samt alltaf vandinn að maður barnslega trú á David Moyes á sínum tíma og því þarf maður kannski að éta þetta allt ofan í sig aftur. Sem er gott og vel.
Athugasemdir
banner
banner
banner