þri 22. apríl 2014 10:30
Magnús Már Einarsson
Úr utandeildinni í Pepsi-deildina
Haukur Lárusson varnarmaður Fjölnis er í flugnámi.
Haukur Lárusson varnarmaður Fjölnis er í flugnámi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Ég á örugglega tvo milljón hringi í kringum Fjölnissvæðið, það hlýtur að vera met.
,,Ég á örugglega tvo milljón hringi í kringum Fjölnissvæðið, það hlýtur að vera met.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Við værum örugglega fljótlega að fara inn í Evrópukeppni og það var batterí sem við vorum ekki tilbúnir að fara út í.  Það var best að slaufa þessu þarna.  Ég var samningslaus og þurfti líka að leita á önnur mið þar sem að Bombulosarar voru ekki að borga þau hamborgaratilboð sem búið var að semja um.“
,,Við værum örugglega fljótlega að fara inn í Evrópukeppni og það var batterí sem við vorum ekki tilbúnir að fara út í. Það var best að slaufa þessu þarna. Ég var samningslaus og þurfti líka að leita á önnur mið þar sem að Bombulosarar voru ekki að borga þau hamborgaratilboð sem búið var að semja um.“
Mynd: Leiknir - Brandur
,,Árið 2012 var ég að vinna í vaktavinnu hjá Atlanta og mætti stundum ekki einu sinni á æfingu á milli leikja.  Þá var ég ennþá að hlaupa sjálfur en fékk að spila leikina og það var virkilega gaman.“
,,Árið 2012 var ég að vinna í vaktavinnu hjá Atlanta og mætti stundum ekki einu sinni á æfingu á milli leikja. Þá var ég ennþá að hlaupa sjálfur en fékk að spila leikina og það var virkilega gaman.“
Mynd: Björn Ingvarsson
,,Ég er búinn að þekkja Begga síðan hann var kókosbolla í barnsbeini því að Lárus Helgi (handboltamarkvörður í Val) bróðir hans er besti félagi minn.  Beggi var alltaf þéttur á velli og ég sá aldrei fyrir að við félagarnir myndum einhverntímann spila saman.“
,,Ég er búinn að þekkja Begga síðan hann var kókosbolla í barnsbeini því að Lárus Helgi (handboltamarkvörður í Val) bróðir hans er besti félagi minn. Beggi var alltaf þéttur á velli og ég sá aldrei fyrir að við félagarnir myndum einhverntímann spila saman.“
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Peter Crouch aðdándi: ,,Hann er minn maður.  Ég er reyndar nokkuð viss um að ég sé hans maður líka, ég held að þetta sé gagnkvæmt.  Ég byrjaði að fíla hann þegar hann var hjá Liverpool og hef fylgt honum síðan þá.
Peter Crouch aðdándi: ,,Hann er minn maður. Ég er reyndar nokkuð viss um að ég sé hans maður líka, ég held að þetta sé gagnkvæmt. Ég byrjaði að fíla hann þegar hann var hjá Liverpool og hef fylgt honum síðan þá.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Ég mætti í háskólann í viku og var strax kominn með nóg þegar ég fór heim á Facebook og sá auglýsingu um að flugnám væri að hefjast.  Ég fór til mömmu og sagði henni að ég væri hættur í háskólanum og farinn að fljúga og síðan hóf ég námið.“
,,Ég mætti í háskólann í viku og var strax kominn með nóg þegar ég fór heim á Facebook og sá auglýsingu um að flugnám væri að hefjast. Ég fór til mömmu og sagði henni að ég væri hættur í háskólanum og farinn að fljúga og síðan hóf ég námið.“
Mynd: Björn Ingvarsson
,,Við erum með spennandi leikmenn sem geta gert virkilega góða hluti.  Ef þetta smellur saman og menn haldast heilir þá sé ég okkur á fínum stað í lok sumars.
,,Við erum með spennandi leikmenn sem geta gert virkilega góða hluti. Ef þetta smellur saman og menn haldast heilir þá sé ég okkur á fínum stað í lok sumars.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Nafn: Haukur Lárusson
Aldur: 26 ára
Staða: Varnarmaður
Twitter: https://twitter.com/raudurturn

Haustið 2011 lyfti Haukur Lárusson sigurverðlaununum í Gull-deildinni, 7 manna utandeild Leiknis, á sama tíma og uppeldisfélag hans Fjölnir endaði í 5. sæti í 1. deild karla. Á þeim tímapunkti benti fátt til þess að tveimur árum síðar yrði Haukur í lykihlutverki við að hjálpa Fjölni að vinna 1. deildina og komast upp í Pepsi-deildina.

,,Þetta sýnir leikmönnum í Carlsberg deildinni að það er stutt yfir í það besta á Íslandi,“ segir Haukur léttur í bragði um það stökk að fara úr Carlsberg deildinni yfir í Pepsi-deildina.

Haukur byrjaði á yngsta ári í 2. flokki að leika með meistaraflokki Fjölnis. Sumarið 2007 var skemmtilegt hjá Hauki og félögum en Fjölnir komst upp í efstu deild í fyrsta skipti og óvænt í bikarúrslit þar sem liðið tapaði 2-1 gegn FH í framlengdum leik. Haukur þurfti hins vegar að segja skilið við fótboltann eftir tímabilið vegna þrálátra nárameiðsla.

,,Maður var alltaf í ströggli með meiðsli og það var fínt að kúpla sig alveg út úr þessu. Ég var alltaf bara að skokka á æfingu og þá er maður í sjálfspíningu. Maður mætti og hljóp bara endalaust af hringjum. Í gamla daga var maður í frjálsum íþróttum að hlaupa hringi og svo hélt maður áfram í fótboltanum. Ég á örugglega tvo milljón hringi í kringum Fjölnissvæðið, það hlýtur að vera met,“ sagði Haukur sem vildi fara sem mest burt frá fótboltanum á þessum tíma.

,,Ég snéri mér aðeins að golfinu og reif mig úr 13 í forgjöf niður í 4 á einu sumri. Það var drullufínt að komast í eitthvað allt annað umhverfi. Ég reyndi að æfa golf en það verður að viðurkennast að það er mjög leiðinlegt. Maður er alltaf einn að chippa eða í bunker og það þarf að hafa mikið fyrir því að verða betri.“

Bikar með bombulosurum
Sumarið 2011 ákvað Haukur að dusta rykið af takkaskónum og leika með félögum sínum í Gull-deildinni, 7 manna utandeild. Liðið hét því frumlega nafni ,,Bombulosarar“ og Haukur fann aftur löngun í að spila fótbolta.

,,Það voru margar kempur í því liði. Til dæmis Maggi Hödd, sonur Hödda Magg, sem var markahæsti leikmaður Essó mótsins á sínum tíma. Líka Viðar Hafsteinsson sem kastaði Haustmótstitli frá Fjölni þegar hann klúðraði víti, leikurinn fór í framlengingu og þar fékk hann á sig víti sem kostaði sigurinn. Þetta var mjög skemmtilegt tímabil,“ sagði Haukur en starfsemi Bombulosara var lögð niður eftir sigurinn í deildinni.

,,Við værum örugglega fljótlega að fara inn í Evrópukeppni og það var batterí sem við vorum ekki tilbúnir að fara út í. Það var best að slaufa þessu þarna. Ég var samningslaus og þurfti líka að leita á önnur mið þar sem að Bombulosarar voru ekki að borga þau hamborgaratilboð sem búið var að semja um.“

Mætti stundum bara í leiki
Haukur ákvað að prófa að hefja æfingar með Fjölni á nýjan leik eftir sumarið 2011 og það er ákvörðun sem hann sér ekki eftir í dag.

,,Maður fann þá að löngunin var ennþá til staðar. Ég fann líka að nárinn virtist halda ef ég gat sjálfur stjórnað álaginu. Ég talaði við Gústa (Ágúst Gylfason) 2012 og sagði að ég gæti æft ef ég gæti stjórnað því algjörlega eftir mínu höfði og síðan myndi það koma í ljós hvort ég gæti spilað. Árið 2012 var ég að vinna í vaktavinnu hjá Atlanta og mætti stundum ekki einu sinni á æfingu á milli leikja. Þá var ég ennþá að hlaupa sjálfur en fékk að spila leikina og það var virkilega gaman.“

,,Í fyrra var ég í annarri vinnu en ég stjórnaði æfingunum algjörlega áfram sjálfur og reyndi að stíla inn á vera heill í leikjunum. Eftir leiki tekur það mig 2-3 daga að koma líkamanum í stand og Gústi og Kristó (Kristófer Sigurgeirsson) hafa verið virkilega skilningsríkir með það.“


Nárameiðslin þýða að Haukur getur oft ekki tekið þátt á æfingum og hann hefur til að mynda ekkert æft úti með liði Fjölnis í vetur. Hann segist þó vera í betra formi núna en í fyrra.

,,Ég get alveg viðurkennt það að leikformið hefur ekki verið 100% en ég er í miklu betra formi núna en fyrir ári síðan og fyrir tveimur árum. Við fórum í æfingaferð á dögunum og ég hef aldrei æft jafnmikið í æfingaferð og núna. Mér finnst ég vera betur tilbúinn í þetta tímabil en síðustu tvö.“

Beggi var eins og kókosbolla
Þrátt fyrir að leikformið hafi ekki verið það besta hjá Hauki þá er alls ekki hægt að kvarta yfir frammistöðu hans undanfarin tímabil. Í fyrra læstu Haukur og Bergsveinn Ólafsson vörn Fjölnis og voru báðir valdir í lið ársins í 1. deildinni eftir tímabilið.

,,Ég er búinn að þekkja Begga síðan hann var kókosbolla í barnsbeini því að Lárus Helgi (handboltamarkvörður í Val) bróðir hans er besti félagi minn. Beggi var alltaf þéttur á velli og ég sá aldrei fyrir að við félagarnir myndum einhverntímann spila saman.“

,,Við náum virkilega vel saman í vörninni. Hann er mikill djöflari og hleypur endalaust í leikjum á meðan ég er rólegri. Þetta hefur gengið vel hjá okkur tveimur. Við náðum sex sinnum að halda hreinu í þeim leikjum sem við spiluðum í fyrra og það er virkilega þægilegt að spila við hliðina á Begga. Maður má gera mistök því hann er það klókur að lesa leikinn að hann bætir þau upp.“


Í fyrra missti Haukur af nánast öllum lokasprettinum í 1. deildinni eftir að hafa meiðst á ökkla í leik gegn Völsungi í 18. umferð. Haukur kom inn á sem varamaður undir lokin í leiknum mikilvæga gegn Leikni síðastliðið haust þar sem Fjölnir sigraði 3-1 og tryggði sér sigur í 1. deildinni. Haukur átti að koma inn á í fremstu víglínu en Fjölnir komst yfir á sama tímapunkti og því fékk hann ekki að upplifa þann draum að spila frammi í meistaraflokki.

,,Það hefði verið gaman að vera frammi og setja hjólara í lokin. Ég spilaði alltaf frammi í yngri flokkunum og var markamaskína. Ég var að æfa frjálsar á sama tíma, var fljótur og gat hlaupið endalaust. Þegar ég stækkaði færðist ég í vörnina en í síðasta leiknum í 2. flokki fékk að spila síðustu tíu mínúturnar frammi gegn ÍR og skoraði þrennu. Það var gaman að kveðja annan flokkinn þannig.“

Rauði turninn elskar Peter Crouch
Haukur er hávaxnasti leikmaðurinn í Pepsi-deildinni í ár en hann er 196 cm á hæð. ,,Rauði turninn“ eins og hann er kallaður í Grafarvogi, heldur mikið upp á Peter Crouch leikmann Stoke.

,,Hann er minn maður. Ég er reyndar nokkuð viss um að ég sé hans maður líka, ég held að þetta sé gagnkvæmt. Ég byrjaði að fíla hann þegar hann var hjá Liverpool og hef fylgt honum síðan þá. Ég er Stokeari í dag en ég reyni að draga mig í hlé þegar menn eru að drulla yfir Stoke,“ sagði Haukur sem kann vel við að vera kallaður rauði turninn.

,,Það fylgir manni þegar maður er rauðhærður og risavaxinn. Þá er maður eins og risavaxinn rós. Ég hef gaman að öllu svona gríni. Þegar ég var í grunnskóla var ég rauðhærður, með freknur, gleraugu og spangir. Ég var ,,ideal“ eineltis case en ég hef aldrei fundið fyrir einelti í mínu lífi. Ef ég hefði ekki verið í fótboltanum hefði líf mitt samt örugglega verið öðruvísi. Ég væri örugglega í tölvuleikjum allan daginn. Íþróttir hafa gert frábæra hluti fyrir líf mitt.“

Af Facebook í flugnám
Haukur er ekki enn kominn með vinnu fyrir sumarið en hann er í flugnámi í augnablikinu. Haukur hefur lengi haft áhuga á flugvélum en hoppaði nokkuð óvænt í flugnámið sjálft fyrir þremur árum síðan.

,,Ég var lengi með menntaskólann því ég var alltaf að ströggla með Íslensku 503 sem er hrikalega erfiður áfangi," segir Haukur alvarlegur.

,,Ég held að ég hafi skráð mig fimm sinnum í þann áfanga og þegar ég loksins kláraði hann hafði ég þvílíkt mikið fyrir því að fara í Háskólann. Ég mætti þar í viku og var strax kominn með nóg þegar ég fór heim á Facebook og sá auglýsingu um að flugnám væri að hefjast. Ég fór til mömmu og sagði henni að ég væri hættur í háskólanum og farinn að fljúga og síðan hóf ég námið.“

Fjölnismönnum er spáð falli í sumar en Haukur telur að Grafarvogur eigi að hafa félag á meðal þeirra bestu.

,,Maður býst við að þetta verði strembið en ég held að þetta geti orðið virkilega skemmtilegt sumar. Við erum með spennandi leikmenn sem geta gert virkilega góða hluti. Ef þetta smellur saman og menn haldast heilir þá sé ég okkur á fínum stað í lok sumars. Fjölnir á að eiga fulltrúa í efstu deild í bæði karla og kvennaflokki og það er lágmark að halda sér uppi í sumar.“
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner