sun 22. apríl 2018 17:36
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Svíþjóð: Óttar eini Íslendingurinn sem fékk að spila
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það voru Íslendingar að spila í sænska boltanum í dag.

Það var Íslendingaslagur í Stokkhólmi þó enginn Íslendingur hafi spilað. Haukur Heiðar Hauksson var allan tímann á bekknum hjá AIK og hinum megin var Elías Már Ómarsson á bekknum hjá Göteborg.

Leikurinn endaði með þægilegum 2-0 sigri AIK sem er í öðru sæti deildarinnar á eftir Hammarby.

Hammarby fer frábærlega af stað. Liðið tapaði þó sínum fyrstu stigum í dag á útivelli gegn Hacken.

Arnór Smárason var allan tímann á bekknum hjá Hammarby.

Eini Íslendingurinn sem fékk eitthvað að spila í sænska boltanum í dag var sóknarmaðurinn Óttar Magnús Karlsson. Hann lék allar 90 mínúturnar fyrir Trelleborg sem tapaði 1-0 á heimavelli fyrir Kalmar.

Trelleborg er á botni deildarinnar með eitt stig eftir fyrstu fimm leikina. Óttar er í láni hjá félaginu frá norska liðinu Molde. Þetta var annar byrjunarliðsleikur Óttars fyrir Trelleborg.

Árni Vilhjálmsson var allan tímann á varamannabekknum hjá Jönköpings Södra sem tapaði 1-0 fyrir Öster í B-deildinni. Jönköpings er án stiga eftir fyrstu fjóra leiki sína. Liðið féll úr sænsku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð.
Athugasemdir
banner
banner